Fjallað er um mismunandi umboð undir Umboð í Orðabelg Þjóðskjalasafns.Hér á eftir verður athugað hlutverk og staða umboðsmanna, sem var mismunandi eftir konungsjarða- og stólsjarðaumboðum. Kaupmenn „forpögtuðu“ verslunarhafnir en ekki verður farið út í slíka umboðsmennsku hér.
Jörðum klaustra var haldið sem sérstökum umboðum eftir siðaskipti. Sömuleiðis voru sérstök umboð jarðeignir, sem konungur fékk í sakeyri, og jarðeignir síðustu kaþólsku biskupana og sona Jóns Arasonar, Ara og Björns, sem gerðar höfðu verið upptækar. Mörkin gátu verið óljós og jarðir runnið til nálægs umboðs eða klausturs. Lénsmaður eða konungur sjálfur veittu umboð eftir uppboð á alþingi til nokkurra ára í senn fyrir ákveðið afgjald. Sama gilti um sýslur. Árið 1607 var ákveðið með tilskipun, að klaustur, sýslur, jarðir og aðrar fasteignir konungs skyldu veitt ævilangt.1Lovsamling for Island I, bls. 149–150. Oft voru sýslumenn jafnframt umboðsmenn og stöku minni umboð munu hafa verið veitt saman eða með klaustrum. Þeir, sem fóru með umboðin, höfðu ýmis heiti: Forpagtari (danska: forpagter), klausturhaldari, umboðshaldari (danska: ombudsholder), umboðsmaður og síðar, einkum þegar kom fram á 19. öld, einnig administrator (danska).
Umboð stólsjarða mun hafa verið með öðrum hætti, ef ráða má af skrifum Guðrúnar Ásu Grímsdóttur um Skálholtsstól. Þar má t.d. sjá af ráðningarbréfum ráðsmanna stólsins, sem jafnframt höfðu jarðaumboð, frá dögum Brynjólfs biskups Sveinssonar, að ráðningartíminn fór eftir samkomulagi biskups og ráðsmanns. Þar var einnig tekið fram um ákveðnar kaupgreiðslur en afgjöldin hlaut biskupsstóllinn.2Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 102–113. Landastefnur tíðkuðust einnig í Hólabiskupsdæmi. Björn Gottskálksson (1765–1852, um tíma eigandi Hrappseyjar-/Leirárgarðaprentsmiðju) var á árunum 1789–1792 umboðsmaður Sigurðar Stefánssonar yfir jarðaumboðum Hólastóls og hélt landastefnur. Í æviágripi hans segir:
Á sumrum var hann með biskupi, er hann fór í visitazíu, en haust og vor hélt hann landastefnur í nálægustu umboðunum (á landastefnum á vorin voru teknar landskuldir, en á haustin byggt út og inn landsetum á stólsjörðunum).3„Æfiágrip Björns dbrm. Gottskálkssonar“, Blanda. Fróðleikur gamall og nýr I (1918–1920), bls. 140.
Hlutverki allra jarðaumboðsmanna verður best lýst með skilgreiningu Guðrúnar Ásu Grímsdóttur á hlutverki umboðsmanna Skálholtsjarða:
Staðarráðsmaður og umboðsmenn höfðu eftirlit með því að ábúendur leigujarða dómkirkjunnar hirtu þær eftir byggingarskilmálum, héldu við leigukúgildum, inntu af hendi tilskyldar kvaðir í verkum eða fóðrun í þágu staðarins og vöktuðu reka og skóga staðarins þar sem slíkum hlunnindum var að skipta á jörðum. Umboðsmenn innheimtu jarðaafgjöld og kúgildaleigur og sáu til þess að afhentar yrðu staðarráðsmanni á tilsettum tíma.4Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 101–102.
Stólsumboðin hurfu að vonum úr sögunni við sölu á stólsjörðunum. Hófst hún í Skálholtsbiskupsdæmi um miðjan níunda tug 18. aldar, en í Hólabiskupsdæmi í upphafi 19. aldar. Sala á konungsjörðum byrjaði lítilsháttar á síðustu áratugum 18. aldar en jókst mjög í upphafi þeirrar 19. og hélt síðan áfram. Varð það til þess, að umboð drógust saman að umfangi.
Í lögum um hina stjórnarlegu stöðu Íslands í ríkinu, stöðulögunum, árið 1871 eru þjóðeignir, opinberar stofnanir og sjóðir talin með sérstaklegum málefnum Íslands.5Lovsamling for Island XXI, bls. 1–3. Meðal þjóðeigna voru konungs- og klaustrajarðir, sem síðan kölluðust þjóðjarðir, og umboðsmennirnir nefndust þá þjóðjarðaumboðsmenn en klausturhaldarar hurfu úr sögunni. Árið 1913 voru sett lög um umboð þjóðjarða. Skyldu hreppstjórar hafa umráð yfir þjóðjörðum í hreppum sínum, öðrum en þeim sem væru undir umsjón sýslumanna. Þessi breyting tæki gildi jafnóðum og einstök umboð losnuðu.6Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 40–41. (Heimild: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A –Ö. Reykjavík 2015, bls. 267 (klausturhaldari), 518–519 (umboð.)
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island I, bls. 149–150. |
---|---|
↑2 | Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, Saga biskupsstólanna. Reykjavík 2006, bls. 102–113. |
↑3 | „Æfiágrip Björns dbrm. Gottskálkssonar“, Blanda. Fróðleikur gamall og nýr I (1918–1920), bls. 140. |
↑4 | Guðrún Ása Grímsdóttir, „Biskupsstóll í Skálholti“, bls. 101–102. |
↑5 | Lovsamling for Island XXI, bls. 1–3 |
↑6 | Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 40–41. |