Verðlagsskrár

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Björn Karel Þórólfsson, þá skjalavörður í Þjóðskjalasafni, segir svo um verðlagsskrár í inngangi að skrá um skjalasöfn biskupa á Íslandi:

Meðan hér á landi var einokunarverzlun, setti konungur taxta um verðlag á útlendum vörum og afurðum landsins. Þegar það verzlunarlag var afnumið, kom brátt í ljós, að setja þurfti reglur um verðlag á nýjum grundvelli, einkum vegna niðurjöfnunar opinberra gjalda. Af ýmsum ástæðum dróst það til 1817, að fastri skipun væri komið á taxtasetningu eftir gangverði á vörum. Var þá farið eftir danskri fyrirmynd og biskupi eða prestum í umboði hans ásamt amtmönnum falið að setja verðlagsskrár ár hvert. Samkvæmt konungsúrskurði 16. júlí 1817 átti biskup að setja verðlagsskrár í suðuramti með stiftamtmanni, sem einnig var amtmaður þar, en í hinum ömtunum átti amtmaður að setja þær ásamt presti eða prófasti, sem biskup gæfi umboð til þess.1Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 63–64.

Samkvæmt konungsúrskurðinum árið 1817 skyldu stiftamtmaður og amtmenn, hver í sínu umdæmi, í lok kauptíðar hvert ár fá hjá sýslumönnum skýrslur um verð, sem að meðaltölu hefði verið á landaurum á því ári, bæði í kaupstað og til sveita. Stiftamtmaður átti einnig að fá skýrslu frá bæjarfógetanum í Reykjavík. Prestar skyldu um sama leyti senda próföstum líkar skýrslur og þeir aftur biskupi vegna suðurumdæmisins (Suðuramtsins) en í hinum umdæmunum próföstum þeim, sem biskup fæli þetta á hendur. Í suðurumdæminu áttu stiftamtmaður og biskup að vinna úr þessum skýrslum og finna meðalverð, en í hinum umdæmunum amtmaður og prófastar þeir, sem biskup hefði gefið til þess umboð. Skyldi setja verðlagsskrár fyrir hvert umdæmi, suður-, vestur, norður- og austurumdæmi. (Virðist hafa verið leitað til prófasta í Snæfellsness- og Eyjafjarðarprófastsdæmum, enda næstir amtmönnunum). Þó var þessum mönnum sett í sjálfsvald að gera sérstaka verðlagsskrá fyrir einstaka sýslu, ef þurfa þætti.2Lovsamling for Island VII, bls. 693–697; Sigurður Hansen, „Um verðlagsskrár á Íslandi árin 1818 til 1856“, Skýrslur um landshagi á Íslandi I, bls. 234–239; Lovsamling for Island X, bls. 542–543. Sýslumenn hafa fengið sitt meðalverð eftir upplýsingum frá hreppstjórum. Á árunum 1847–1848 var farið að hafa sérstaka verðlagsskrá fyrir Skaftafellssýslur, en fram til þess var ein verðlagsskrá fyrir Suðuramtið. Ein verðlagsskrá var jafnan fyrir Vesturamtið, en í Norður- og Austuramti voru framan af tvær, önnur fyrir Húnavatns-, Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur, hin fyrir Múlasýslur. Árið 1829–1830 urðu þær þrjár, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur fengu sína skrá og Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur sína. Þó fengu sumar þessar sýslur sínar eigin skrár stöku sinnum.3Sigurður Hansen, „Um verðlagsskrár á Íslandi árin 1818 til 1856“, bls. 241. Sjá má, að Bergur Thorberg, amtmaður í Vesturamti, hefur samið sérstaka verðlagsskrá fyrir Barðastrandar-, Ísafjarðar- og Strandasýslur og Ísafjarðarkaupstað vegna fardagaársins 1867–1868 og haldið því áfram til ársins 1872. Eftir það voru verðlagsskrár fyrir Vesturamtið í þremur hlutum: a) Mýra- og Hnappadals-, Snæfellsness- og Dalasýslur, b) Barðastrandar- og Strandasýslur og c) Ísafjarðarsýslu og kaupstað.4ÞÍ. Kirknasafn. Sauðlauksdalur H/1. Verðlagsskrár 1818–1875; ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts VA III/428. Verðlagsskrár. Rangárvallasýsla fékk heimild fyrir sérstakri verðlagsskrá árið 1878 og Skaftafellssýslur heimild fyrir aðskildum skrám síðla árs 1879.5Stjórnartíðindi 1878 B, bls. 11–12 (liðir nr. 17 og 20); 1879 B, bls. 147 (liður nr. 168). Árið 1880 var boðið að hvert sýslufélag skyldi fá sérstaka verðlagsskrá, en Reykjavík vera með Gullbringusýslu og aðrir kaupstaðir með þeim sýslum, sem þeir lægju í.6Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 61 (liður nr. 60). Eftir stjórnskipunarbreytinguna árið 1874 staðfesti biskup ásamt amtmanni í Suður- og Vesturamti verðlagsskrár í þeim ömtum til ársins 1903, en prófastur í Eyjafjarðarprófastsdæmi verðlagsskrárnar í Norður- og Austuramtinu ásamt amtmanni.7Sjá verðlagsskrár, sem prentaðar eru í B-deild Stjórnartíðinda á þessum árum.

Sjá má, að prestar og hreppstjórar hafa ákveðið verðlag án samráðs sín í milli. Einnig virðast prestar hafa haft tilhneigingu til þess að skrá meðalverðið hátt, en hreppstjórar lágt.8Lovsamling for Island XV, bls. 384–386; Alþingistíðindi 1895 C, bls. 208–209.

Samkvæmt lögum um undirbúning verðlagsskráa nr. 16/1897, 6. nóvember. áttu prestur og formaður skattanefndar og þriðji maður, er hreppsnefnd eða bæjarstjórn kysi árlega, að semja skýrslu um verðlag innan hvers hrepps. Verðlagsskýrslur hreppa og bæjarfélaga skyldu sendar hlutaðeigandi sýslumanni, en sýslumaður átti að gera eina aðalskýrslu fyrir hvert hérað og senda stiftsyfirvöldum til staðfestingar. Þessi háttur komst þó ekki á til fulls fyrr en árið 1899.9Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 102–105; 1899 B, bls. 7. Ný lög um verðlagsskrár voru sett árið 1954, nr. 27, 30. mars, en þau voru afnumin með lögum nr. 6/1964, 25. mars.10Stjórnartíðindi 1954 A, bls. 78–79; 1964 A, bls. 8.

Ekki verður séð, hvenær skylda presta til þess að taka þátt í gerð verðlagsskýrslna (þ.e. verðlagsskráa) féll niður. Í skattalögum nr. 6/1935, 9. janúar, er talað um verðlag á búpeningi, sem yfirskattanefnd ákveði árlega eftir tillögum undirskattanefnda, en prestar voru ekki skyldugir til setu í skattanefnd samkvæmt skattalögum nr. 74/1921, 27. júní.11Stjórnartíðindi 1935 A, bls. 24; 1921 A, bls. 285 (24. grein).

Verðlagsskrár er víða að finna í skjalasöfnum presta, því að samkvæmt þeim voru reiknuð gjöld til kirkna og presta.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 63–64.
2 Lovsamling for Island VII, bls. 693–697; Sigurður Hansen, „Um verðlagsskrár á Íslandi árin 1818 til 1856“, Skýrslur um landshagi á Íslandi I, bls. 234–239; Lovsamling for Island X, bls. 542–543.
3 Sigurður Hansen, „Um verðlagsskrár á Íslandi árin 1818 til 1856“, bls. 241.
4 ÞÍ. Kirknasafn. Sauðlauksdalur H/1. Verðlagsskrár 1818–1875; ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts VA III/428. Verðlagsskrár.
5 Stjórnartíðindi 1878 B, bls. 11–12 (liðir nr. 17 og 20); 1879 B, bls. 147 (liður nr. 168).
6 Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 61 (liður nr. 60).
7 Sjá verðlagsskrár, sem prentaðar eru í B-deild Stjórnartíðinda á þessum árum.
8 Lovsamling for Island XV, bls. 384–386; Alþingistíðindi 1895 C, bls. 208–209.
9 Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 102–105; 1899 B, bls. 7.
10 Stjórnartíðindi 1954 A, bls. 78–79; 1964 A, bls. 8.
11 Stjórnartíðindi 1935 A, bls. 24; 1921 A, bls. 285 (24. grein).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 202