Verkfærakaupasjóður

Síðast breytt: 2023.11.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Verkfærakaupasjóður var stofnaður samkvæmt lögum nr. 40/1928 um breytingu á jarðræktarlögum nr. 43/1923.1Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 99–102. Tólfta grein laganna hljóðaði svo:

Styrkur úr ríkissjóði til hreppsbúnaðarfjelaga skal nema 10 aurum fyrir hvert unnið dagsverk. Styrkurinn skiftist hlutfallslega milli búnaðarfjelaganna eftir tölu jarðabótamanna í hverju fjelagi. Styrk þennan skal leggja í sjóð, sem nefnist verkfærakaupasjóður.

Í sjóðinn skal auk þess árlega greiða úr ríkissjóði 20 þúsund krónur, er skiftist milli hreppabúnaðarfjelaganna eftir tölu jarðabótamanna í hverju fjelagi. Sú upphæð, er sjóði hvers hreppabúnaðarfjelags ber samkvæmt því, er að ofan getur, skal vera sjereign hvers fjelags.

Tilgangur sjóðsins var að létta undir með bændum til þess að eignast hestaverkfæri til jarðræktar. Atvinnumálaráðuneytið átti að fara með stjórn sjóðsins í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands. Með lagabreytingu nr. 75/1933 var einnig heimilað að styrkja bændur til kaupa á heyvinnuvélum og tóvinnuvélum.2Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 142–143. Sérstakur kafli um Verkfærakaupasjóð var í jarðræktarlögum nr. 101/1936. Hreppabúnaðarfélög urðu þá styrkhæf og skilgreint, hvað töldust styrkhæfar vélar og verkfæri. Bætt var við dráttarvélum og minni skurðgröfum.3Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 383–384. Reikningshald og innheimtu lána átti Búnaðarfélag Íslands að annast.

Verkfærakaupasjóður var lagður niður samkvæmt bráðabirgðaákvæðum í jarðræktarlögum nr. 45/1950. Innstæður einstakra hreppabúnaðarfélaga átti að greiða til þeirra.4Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 129–136, sjá einkum bls. 136.

Skjala Verkfærakaupasjóðs er að leita í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands / Bændasamtaka Íslands.

(Heimildir: Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir. Reykjavík 1937, bls. 170–171, 184–185; Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Reykjavík 1988, bls. 261–265.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 99–102.
2 Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 142–143.
3 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 383–384.
4 Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 129–136, sjá einkum bls. 136.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 6