Yfirrétturinn á Íslandi

Síðast breytt: 2025.03.18
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Einnig nefndur Yfirdómur

Árið 1563 gaf Friðrik II. Danakonungur út fyrirmæli um stofnun yfirréttar á Íslandi í bréfi um ranga lögmannsúrskurði. Þar var bent á vanda Íslendinga að sækja rétt sinn til Danmerkur, ef lögmannadómar teldust rangir. Átti höfuðsmaður að kalla saman 24 bestu menn landsins á ákveðnum tíma árlega og rannsaka með þeim lögmannsdóma. 1Lovsamling for Island I, bls. 80–81. Ætla mætti, að þetta ætti við alla lögmannsdóma en svo var ekki.

            Árið 1574 kom konungsbréf um, að engu máli mætti stefna fyrir konung eða ríkisráð fyrr en dómur væri genginn á alþingi. Ekki var þar minnst á yfirrétt, sem ekki varð reglulegur dómstóll fyrr en með konungsbréfi frá 6. desember 1593. 2Lovsamling for Island I, bls. 84–89, 99–100.

Stiftamtmannsembætti á Íslandi var stofnað árið 1684. Stiftamtmaður skyldi skipa dómara í yfirrétti og vera í forsæti. Hann sat lengstum í Danmörku og frá árinu 1688 gegndi amtmaður alla jafna hlutverki hans. Í yfirréttardómum áttu að sitja helstu, bestu og skynsömustu menn landsins. 3Lovsamling for Island I, bls. 80–81, 128–130, 599–600. Síðar voru nefndir í dóminn lögmaður, sem ekki hafði áður dæmt í viðkomandi máli, sýslumenn, sem voru á alþingi og málinu óviðkomandi og lögréttumenn látnir fylla töluna eða aðrir, sem þingið sóttu. Samkvæmt konungsbréfi 7. maí 1735 skyldu dómara fæstir vera 12 en 24 hið mesta og amtmaður að auki í forsæti. 4Lovsamling for Island II, bls. 193–194; Alþingisbækur Íslands XII, bls. 230–231. Ætlunin var, að sýslumenn yrðu dómsmenn. Með konungsbréfi 30. apríl 1777 var dómurum fækkað í sex. 5Lovsamling for Island IV, bls. 402–403; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 551–552. Í forföllum amtmanns eða væri hann aðili máls, skyldi landfógeti skipa í dóm og stýra honum eða sá lögmaður, sem ekki hafði áður dæmt í viðkomandi máli ellegar elsti sýslumaður á alþingi. Þegar stiftamtmaður settist að á Íslandi árið 1770, átti hann að verða dómsforseti.

Framan af virðist enginn sérstakur skrifari hafa verið í yfirréttinum en einhver sýslumaður, sem mætti á alþingi, fært dómabókina. Fastur ritari, dómsmálaritari/nótaríus, var skipaður 11. nóvember 1771. 6Lovsamling for Island III, bls. 724–725. Hélt hann því til ársins 1800, en frá árinu 1793 mun vararitari hafa gegnt starfi hans.

Konungsbréf um stofnun landsyfirréttar var gefið út 6. júní árið 1800 og 11. júlí sama ár birtist konungleg tilskipun um landsyfirrétt og afnám alþingis og yfirréttarins. 7Lovsamling for Island VI, bls. 445–447, 464–473. Árið 1798 var gefist upp við að halda yfirréttinn á Þingvöllum. Árin 1799 og 1800 var hann haldinn í Hólavallarskóla í Reykjavík.

Talið hefur verið, að lengstum hafi lítið kveðið að dómsvaldi yfirréttar og jafnan skotið til hans fáum málum. Á 18. öld voru þar tekin fyrir allnokkur mál, en heimildaskortur er þar áberandi. Aðeins tvær dómabækur yfirréttarins eru varðveittar, sem ná yfir árin 1708–1715, 1780–1800. Björn Stephensen, aðstoðardómsmálaritari í yfirréttinum og síðar dómsmálaritari í landsyfirrétti, gaf út dóma yfirréttarins frá árunum 1749–1796 sem Acta yfirréttarins á Íslandi 1749–1796 á árunum 1797–1804. Lýsir það meðferð á skjölum yfirréttarins, að stóran hluta frumheimilda þessarar útgáfu skuli vanta.

Allnokkuð af skjölum yfirréttarins er varðveitt í skjalasafni stiftamtmanns yfir Íslandi í Þjóðskjalasafni Íslands og finna má skjöl í ýmsum öðrum söfnum svo sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og í Landsbókasafni–Háskólabókasafni. Einnig mætti væntanlega draga fram skjöl, sem tengjast yfirréttarmálum, úr skjalasöfnum sýslumanna.

Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag gáfu út dóma og skjöl yfirréttarins frá árunum 1690–1710 árið 2011. Þar er grein um yfirréttinn, aðdraganda hans, stofnun og sögu. Árið 2020 var hafist handa við framhaldsútgáfu á vegum Þjóðskjalasafns Íslands með sérstakri styrkveitingu.

(Heimildir: Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl I 1690–1710. Reykjavík 2011, bls. 30–77; Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 565–566.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 80–81.
2 Lovsamling for Island I, bls. 84–89, 99–100.
3 Lovsamling for Island I, bls. 80–81, 128–130, 599–600.
4 Lovsamling for Island II, bls. 193–194; Alþingisbækur Íslands XII, bls. 230–231.
5 Lovsamling for Island IV, bls. 402–403; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 551–552.
6 Lovsamling for Island III, bls. 724–725.
7 Lovsamling for Island VI, bls. 445–447, 464–473.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 5