Um Orðabelg

Grunnur að þessum vef varð til við yfirferð Bjarkar Ingimundardóttur, sagnfræðings og fyrrverandi skjalavarðar, á skrám yfir skjalasöfn presta og prófasta í Þjóðskjalasafni Íslands. Jafnframt kannaði hún mörk prestakalla, sókna og prófastsdæma og varð afraksturinn bækurnar Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi sem voru gefnar út árið 2019. Einnig voru gerð kort yfir mörk prestakalla á ýmsum tímum og er kortið frá 1801 notað til miðlunar sóknarmanntala og prestsþjónustubóka í  landfræðilegri vefsjá.

Við þessa rannsókn vöknuðu spurningar um hvað einstök orð þýddu í raun – hverjar væru rætur ýmissa hugtaka — og hvaða lög, reglur og ákvarðanir lægju að baki skjalaflokkum í skjalaskrám kirkjunnar en þaðan voru orðin í Orðabelg upphaflega tekin og úr skjölum að baki þeim. Þannig spratt upp þessi vefur sem skiptist í þrjá flokka: Hugtakaskýringarorðskýringar og skammstafanir og eru nú (janúar 2022) 2630 skýringar í safninu öllu. Hugtakaskýringarnar eru yfirleitt nokkuð langar og í þeim er vísað til heimilda og ítarefnis. Orðskýringarnar eru styttri og sjaldnast vísað beint til heimilda hvað þær varðar. Þriðji flokkurinn, skammstafanir, nær yfir styttingar orða og skammstafanir. Þar er einnig að finna skýringar á nokkrum táknum, sem fyrirfinnast í heimildunum.

Eins og áður sagði byggðist verkið í upphafi á kirkjulegum heimildum. Skýringarnar miðuðust því við hlutverk kirkjunnar. Því geta merkingar orða og hugtaka verið aðrar þegar samhengið er annað og merkingarnar því í raun oft fjölbreyttari. Orðasöfnun þessari lauk að langmestu leyti síðla árs 2017 og því miðast margar heimildatilvitnanir við það ár.

Á síðustu árum hafa bæst við skýringar sem ekki eru bundnar kirkjulegum heimildum. Eru það einkum hugtakaskýringar tengdar sögulegum stofnunum og útskýringar á hlutverki þeirra. Hugtakaskýringarnar eru nú orðnar tæplega 200. Þá eru einnig tekin með ýmis orð sem koma fyrir í heimildum sem stuðst hefur verið við eða bent hefur verið á að þarfnist skýringa.

Orðalistinn er alls ekki tæmandi og má bæta miklu við. Ekki eru tekin upp orð, sem talin eru svo ljós að þau þurfi ekki skýringar við eða skýrast best við athugun á skjölunum sjálfum, þar sem um sérstök tilvik getur verið að ræða. Nánari skýringar á ákveðnum orðum, skjalaflokkum og hugtökum og öðru, sem því tengist, má finna undir flokknum  Orðskýringar. Ábendingum um orð eða hugtök, sem þarfnast skýringar við, er hægt að beina til Þjóðskjalasafns í netfanginu upplysingar@skjalasafn.is og er fólk hvatt til þess að senda okkur línu og leggja orð í belg.