Acta synodalia

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Samkomur embættismanna kirkjunnar til þess að fjalla um málefni hennar voru kallaðar prestastefnur eða synodus. Þær munu hafa verið haldnar nokkuð reglulega í kaþólskum sið frá því á 15. öld. Skálholtsbiskupar virðast hafa haldið prestastefnur nokkuð reglulega eftir siðaskipti, en í Hólabiskupsdæmi virðast þær óreglulegri þangað til á 17. öld. Prestastefnur greindust í almennar prestastefnur, sem voru tvær, önnur fyrir Skálholtsbiskupsdæmi, hin fyrir Hólabiskupsdæmi, og sérstakar prestastefnur, héraðsstefnur, en þær voru haldnar fyrir ákveðin héruð eða landshluta, oft á visitasíuferðum biskups. Þegar Ísland varð eitt biskupsdæmi, árið 1801, varð prestastefna ein, haldin í Reykjavík. Á prestastefnu voru rædd málefni kirkjunnar, gerðar samþykktir og birt opinber bréf og tilskipanir, sem vörðuðu kirkjuna.1Einar Laxness, Íslandssaga i-r. Reykjavík 1995, bls. 185-186; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 18-19, 29-34; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 83-84; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 67-68.

Acta synodalia eru fundargerðir prestastefna, sem safnað hefur verið saman af einstökum prestum eða próföstum, en prestum bar að færa slíkar fundargerðir inn í endurritabækur.

Núgildandi (2017) ákvæði um prestastefnur eru í 28. grein laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí:

Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar.
Á prestastefnu eiga setu og atkvæðisrétt vígslubiskupar og allir starfandi þjóðkirkjuprestar skv. 33. gr., svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands með guðfræðimenntun og guðfræðingar sem gegna föstum störfum á vegum þjóðkirkjunnar. Aðrir prestar og guðfræðingar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti enda séu þeir innan safnaða er starfa á játningargrundvelli evangelísk-lúterskrar kirkju.
Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr. 10., 11. og 20. gr.2Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 28. september 2017.

Á síðari kirkjuþingum hefur verið rætt um endurskoðun þessara laga.

Gagna frá prestastefnum er fyrst og fremst að leita í skjalasöfnum Skálholts- og Hólabiskupa og síðar biskups yfir Íslandi.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Einar Laxness, Íslandssaga i-r. Reykjavík 1995, bls. 185-186; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 18-19, 29-34; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 83-84; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 67-68.
2 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 28. september 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 3 af 3 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 228