Aukatekjugjöld

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Árið 1803, 21. október, gaf konungur út tilskipun um nýjan sjóð, skatkammerfondet, sem ætlaður var til varnarmála. Skyldi sjóðurinn vera algerlega aðskilinn frá ríkissjóði og hafa eigin stjórn og reikningshald. Tekjur sjóðsins áttu að koma frá árlegum hækkunum á ýmsar álögur, svo sem inn- og útflutningstolla, lestagjöld skipa, vörugjöld, gjald á stimplaðan pappír, aukatekjur og þjónustugjöld við stjórnarskrifstofur, embætti og undirréttina o.fl. Þessi hækkun nam í flestum tilvikum 12½ prósenti. Sama dag var gefin út sérstök tilskipun um 12½ prósents álögur vegna aukatekna og þjónustugjalda við stjórnarskrifstofurnar, embættin og réttina (dómstólana) og kansellíið skrifaði stiftamtmanni 19. nóvember sama ár um reikningsaðferðina.1Lovsamling for Island VI, bls. 651–656, 660. Skatkammerfondet var endanlega lagt niður árið 1813 og gjöldum til þess bætt við aðra skatta.2Salmonsens konversations leksikon XXI. Köbenhavn 1926, bls. 515.

Ekki verður séð af Jarðabókarsjóðsreikningum, að þessi tilskipun hafi komið til framkvæmda. Hins vegar gaf konungur út aðra tilskipun 25. janúar 1805 um 12½ prósents hækkun á aukatekjum og þjónustugjöldum við undirréttina. Lagðist það ofan á aukatekjur, sem boðnar höfðu verið með mtveimur tilskipunum, 19. desember 1800 fyrir Danmörku og 11. júní 1788, en þær tilskipanir voru aldrei birtar á Íslandi. Skattur þessi átti að vera til þess að bæta réttarkerfið í konungsríkinu.3Lovsamling for Island VI, bls. 687–689.. Var það ítrekað með kansellíbréfi 14. maí 1806.4Lovsamling for Island VII, bls. 25 Í fyrstu gengu þessi gjöld til Dómsmálasjóðs en árið 1814 varð að endurgreiða þau Jarðabókarsjóði. (Sjá: Dómsmálasjóður).

Sýslumenn innheimtu skattinn og sendu landfógeta. Kemur slíkt fram í Jarðabókarsjóðsreikningum. Skatturinn var afnuminn með aukatekjureglugerð fyrir réttarins þjóna á Íslandi 10. september 1830, 77. grein.5Lovsamling for Island IX, bls. 590.

Aukatekjureglugerðin frá 1830 kvað svo á, að við Landsyfirréttinn skyldi greiða tvöfalt réttargjald miðað við það réttargjald, sem átt hefði að greiða við undirréttinn, að undanteknu skrifaragjaldi (skrifarapeningum).6Lovsamling for Island IX, bls. 572, 12 liður. Árið eftir skrifaði rentukammer stiftamtmanni, 12. mars 1831, að framvegis skyldu réttargjöld til Landsyfirréttar afhent landfógeta við árslok og viðeigandi kvittanir lagðar með reikningunum.7Lovsamling for Island IX, bls. 658–659. Áður hafði ritari Landsyfirréttar (dómsmálaritari) átt að annast reikningsskil samkvæmt 5. grein tilskipunar um Landsyfirréttinn frá 11. júli 1800 en slík gjöld höfðu aldrei verið greidd, aðeins skrifaralaunin sem dómsmálaritari fékk í sinn hlut.8Lovsamling for Island VI, bls. 468; Björn Þórðarsons: Landsyfirdómurinn 1800–1919. Reykjavík 1947, bls. 75. Aukatekjur og réttargjöld til Landsyfirréttar voru liður í Jarðabókarsjóðsreikningum landfógeta.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VI, bls. 651–656, 660.
2 Salmonsens konversations leksikon XXI. Köbenhavn 1926, bls. 515.
3 Lovsamling for Island VI, bls. 687–689.
4 Lovsamling for Island VII, bls. 25
5 Lovsamling for Island IX, bls. 590.
6 Lovsamling for Island IX, bls. 572, 12 liður.
7 Lovsamling for Island IX, bls. 658–659.
8 Lovsamling for Island VI, bls. 468; Björn Þórðarsons: Landsyfirdómurinn 1800–1919. Reykjavík 1947, bls. 75.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 127