Dómsmálasjóður

Síðast breytt: 2021.06.03
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín
Justitskassen

Dómsmálasjóður var stofnaður með tilskipun 16. nóvember 1764. Úr sjóðnum skyldi greiða kaup lögréttumanna, en þeim var jafnframt fækkað úr 84 í 20. Skyldu þeir mæta á alþingi til skipti annað hvert ár, 10 í hvert sinn. Einnig skyldi sjóðurinn greiða kostnað, sem skipaðir sækjendur hefðu haft af málarekstri, og loks átti sjóðurinn að bera kostnað af byggingu og viðhaldi lögréttuhúss.1Lovsamling for Island III, bls. 519–523. Þá fengu dómarar í yfirdómi á alþingi laun úr sjóðnum.2Lovsamling for Island IV, bls. 402–403. Í sjóðinn skyldi renna allt þingfararkaup lögréttumanna, gjald, sem nýskipaðir, konunglegir embættismenn áttu að greiða, sektir fyrir óþarfa málsýfingu og fleira.

Með tímanum breyttust nokkuð tekju- og gjaldaliðir Dómsmálasjóðsins. Þannig féllu til hans hórsektir, og þegar sakeyrissjóðir sýslnanna, sem stofnaðir höfðu verið árið 1808, voru lagðir niður, runnu þeir og tekjustofnar þeirra til Dómsmálasjóðs.3Lovsamling for Island IV, bls. 483–484, 522–523; Lovsamling for Island VII, bls. 196–200; Lovsamling for Island VIII, bls. 434–436; Lovsamling for Island XI, bls. 149–171 (íslenskur texti bls. 160–171), 608–609. Á árunum 1806–1813 fékk Dómsmálasjóður aukatekjur og þjónustugjöld (t.d. fyrir skjalaafrit) frá undirdómaraembættum.4Lovsamling for Island VI, bls. 687–689; Lovsamling for Island VII, bls. 25. En árið 1814 varð að endurgreiða Jarðabókarsjóði það fé. Eitthvað vafðist sú reikningfærsla fyrir landfógeta samanber bréf rentukammers til stiftamtmanns 30. apríl 1816.5Lovsamling for Island VII, bls. 593–594. (Sjá: Aukatekjugjöld).

Útgjöld sjóðsins urðu mörg. Þannig skyldi greiða úr honum laun skrifara í yfirrétti á alþingi og launaviðbót alþingisskrifara. Ef skipuðum sækjendum og verjendum voru ekki dæmd laun frá þeim, sem málinu tapaði, skyldi Dómsmálasjóður annast greiðslurnar, sama gilti um laun settra dómara. Dómari í Landsyfirrétti skyldi annast þýðingu málsskjala fyrir Hæstarétti Danmerkur gegn ákveðinni, árlegri greiðslu úr Dómsmálasjóði. Úr sjóðnum fengu yfirdómarar í Landsyfirrétti launaviðbót árið 1848. Þá bættist við kostnaður við flutning fanga frá Kaupmannahöfn og laun fangavarðar, þegar fangelsi var stofnað aftur í Reykjavík árið 1838, og uppbygging fangelsisins. Á árunum 1858–1871 greiddi sjóðurinn laun málaflutningsmanna við Landsyfirrétt, og að sjálfsögðu bar sjóðurinn kostnað við dómshúsið meðan Landsyfirrétturinn starfaði.6Lovsamling for Island III, bls. 724–725; Lovsamling for Island VI, bls. 258, 473; Lovsamling for Island VII, bls. 622–623; Lovsamling for Island VIII, bls. 320–321; Lovsamling for Island X, bls. 477–479; Lovsamling for Island XI, bls. 172–174; Lovsamling for Island XIII. bls. 338; Lovsamling for Island XIV, bls. 115–116; Lovsamling for Island XVII, bls. 292–297; Lovsamling for Island XXI, bls. 59–63.

Oft safnaðist Dómsmálasjóði nokkurt fé, sem leyft var að leggja á vöxtu í Kaupmannahöfn. Þannig fékk sjóðurinn nokkrar tekjur og árið 1844 var leyft að lána fé sjóðsins gegn öruggu veði í fasteign.7Lovsamling for Island V, bls. 514–515; Lovsamling for Island XIII, bls. 129–130. Má því telja Dómsmálasjóð með fyrstu íslensku lánastofnunum.

Dómsmálasjóður var lagður niður með konungsbréfi 7. nóvember 1873 og eignir hans runnu til Jarðabókarsjóðs.8Lovsamling for Island XXI, bls. 723–724. Viðlagasjóður tók við lánum, sem veitt höfðu verið úr Dómsmálasjóðum gegn tryggingum í jörðum og húseignum.

Reikningsár Dómsmálasjóðs var að jafnaði miðað við almanaksárið. Reikningar hans og endurskoðunarskjöl eru varðveitt í skjalasafni landfógeta í Þjóðskjalasafni Íslands.

Heimild

Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904. Þjóðskjalasafn Íslands Reykjavík 1986.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island III, bls. 519–523.
2 Lovsamling for Island IV, bls. 402–403.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 483–484, 522–523; Lovsamling for Island VII, bls. 196–200; Lovsamling for Island VIII, bls. 434–436; Lovsamling for Island XI, bls. 149–171 (íslenskur texti bls. 160–171), 608–609.
4 Lovsamling for Island VI, bls. 687–689; Lovsamling for Island VII, bls. 25.
5 Lovsamling for Island VII, bls. 593–594.
6 Lovsamling for Island III, bls. 724–725; Lovsamling for Island VI, bls. 258, 473; Lovsamling for Island VII, bls. 622–623; Lovsamling for Island VIII, bls. 320–321; Lovsamling for Island X, bls. 477–479; Lovsamling for Island XI, bls. 172–174; Lovsamling for Island XIII. bls. 338; Lovsamling for Island XIV, bls. 115–116; Lovsamling for Island XVII, bls. 292–297; Lovsamling for Island XXI, bls. 59–63.
7 Lovsamling for Island V, bls. 514–515; Lovsamling for Island XIII, bls. 129–130.
8 Lovsamling for Island XXI, bls. 723–724.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 46