Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Bændakirkja

Bændakirkja er kirkja, sem taldist eign bónda, þ.e. bóndi eða einhver einstaklingur átti a.m.k. helming jarðarinnar, sem kirkjan stóð á, og fékk tekjur kirkjunnar en annaðist viðhald hennar og rekstur. Hann var jafnframt eigandi jarða kirkjunnar og fasteignaréttinda hennar og bar ábyrgð á þeim og mátti ekki selja undan henni, en gat selt allar eignirnar í einu lagi og fylgdi kaupahluti jarðarinnar og ábyrgð á kirkjunni kaupinu.1Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 176–178.

Kirkjur, sem voru á konungseignum (síðar landssjóðseignum), svo sem Bessastaðakirkja, Langholtskirkja í Meðallandi og Þykkvabæjarklausturskirkja, mundu því væntanlega falla undir bændakirkjur. Hvanneyrarkirkja í Borgarfirði, sem er ein fárra núverandi bændakirkna, er eign íslenska ríkisins, því að hún fylgdi Bændaskólanum á Hvanneyri sem jarðeiganda. (Sjá Tekjur kirkna og presta). Sjá einnig tilvísun til skilgreiningar í auglýsingu um starfsreglur Kirkjuþings um kirkjur og safnaðarheimili 8. nóvember 2000.2Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2305 (1. grein, f-liður).

Sóknarprestur hafði ekki afskipti af bændakirkjum eða eignum þeirra en átti þó að gæta að reikningum fyrir tekjum og útgjöldum og árita þá.3Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 138–139.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 176–178.
2 Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2305 (1. grein, f-liður).
3 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 138–139.