Barnafræðsla, uppeldi og fátækraframfæri

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 8 mín

Fræðsla barna og unglinga í höfuðatriðum lútherskrar trúar var allt frá siðaskiptum ein af helgustu skyldum klerkdómsins.1Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 44.

Í kirkjuskipun Kristjáns III, árið 1537, eru ýmis fyrirmæli um kristindómskennslu, svo og skólahald í kaupstöðum, þar sem kenndur væri lestur.2Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 186, 204, 214–215, 219, 225. Slíkt skólahald var óframkvæmanlegt á Íslandi. Kirkjuskipun Kristjáns IV (1607) lagði mesta áherslu á kristindómsfræðsluna og var þar einkum horft til latínuskóla. Aðeins er vikið að svonefndum skrifaraskólum fyrir drengi og stúlkur og aðra, sem ekki geta lært latínu. Þá verði yfirvöldin að kosta.3Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 4v–7r, 12r–13v, 61r–72r. Í opnu bréfi um barnafræðslu og húsvitjanir 22. apríl 1635 var prestum boðið að fræða börn í kristindómi, yfirheyra þau eftir prédikun og vitja ungra barna á heimilum þeirra.4Lovsamling for Island II, bls. 218–219. Eftirliti með kristindómsþekkingu voru því betri skil gerð í tilskipunum heittrúarstefnunnar um fermingu árin 1736 (send til Íslands árið 1741) og 1744, barnaspurningar árið 1744, húsvitjanir 1746 og húsaga 1746, svo og í erindisbréfi biskupa árið 1746.5Lovsamling for Island II, bls. 227–242, 505–508, 518–523, 566–578, 605–620, 648–652. Þá munu djáknar, sem settir voru á klaustrin, hafa sinnt kristindómsfræðslu, sem boðin var í kirkjuskipuninni árið 1537. Þessir djáknar munu þó aðeins hafa verið á klaustrum norðanlands samkvæmt orðum í fyrirmælum til Skálholtsbiskups 29. maí 1744 um, að framvegis skyldu vera djáknar á klaustrunum í Skálholtsbiskupsdæmi til þess að annast kristindómsfræðslu ungdómsins, svo og við Viðeyjarspítala.6Lovsamling for Island II, bls. 527–529. Í „djákna köllunarformi“ frá árinu 1781, sem er í bréfabók Hólabiskupa 1779–1784 og byggir á fyrirmælum um djákna frá 29. maí 1744, eru ákvæði um kristindómsfræðslu djáknanna, bæði með spurningum í kirkjunni og í heimahúsum.7ÞÍ. Bps. B. V. 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar og Jóns biskups Teitssonar 1779–1784, bls. 116–118; Lovsamling for Island II, bls. 523–527.

Kirkjuskipanirnar og fyrirmælin, sem hér hafa verið talin, virðast gera ráð fyrir lestrarkunnáttu barna. Það er fyrst í 16. og 17. grein tilskipunar um húsvitjanir og 4. grein húsagatilskipunarinnar, báðum frá árinu 1746, sem ákvæði eru um lestrarnám barna, er prestar áttu að hafa eftirlit með, að yrði framfylgt. Þá eru fyrirmæli í 21. grein húsvitjanatilskipunarinnar um, að í sálnaregistri skuli greina frá háttalagi, kristindómsþekkingu og lestrarkunnáttu hvers manns. Biskupabréf, sem fjalla um gerð sóknarmannatala/sálnaregistra, gera ráð fyrir sérstökum dálkum fyrir lestrarkunnáttu fólks.8Lovsamling for Island II, 573–574, 607, 575–576; ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sjá einkum bls. 26–28); ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788 (sjá einkum bls. 783, E-lið).

Fyrirmæli um hjúskaparmálefni og lauslæti, 3. júní 1746, banna giftingu, nema hjónaefnin hafi viðhlítandi kristindómsþekkingu, og að a.m.k. annað hjónaefna sé lesandi, og Finnur Jónsson, biskup í Skálholti, skilgreindi mjög nákvæmlega skoðanir sínar á þessu atriði í bréfi til presta á Vesturlandi 3. janúar 1760.9Lovsamling for Island II, bls. 600–602; ÞÍ. Bps. A. IV, 16, bls. 29–33.

Með húsvitjana- og húsagatilskipunum árið 1746 voru prestum settar ýmsar reglur varðandi eftirlit með uppeldi barna. Beindust þær reglur fyrst og fremst að ögun barnanna í kristindómsnámi, framferði og vinnu. Lítt er þar vikið að meðferð barna, nema mælt er gegn meiriháttar barsmíðum.10Lovsamling for Island II, bls. 570–572, 606–613. Frekari ákvæði um kennslu barna og uppeldi og hlut presta í þeim málum eru í konungsbréfi til Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups 2. júlí 1790.11Lovsamling for Island V, bls. 694–696. Í öðru konungsbréfi til Hannesar frá sama degi er staðfest ákvörðun Hannesar um að sekta tvo presta fyrir að hafa fermt ólæs börn.12Lovsamling for Island V, bls. 696–697.

Yngri ákvæði um hlut presta í uppeldis- og fræðslumálum eru t.d. í bæjarstjórnarlögum fyrir Akureyri og Ísafjörð, lög nr. 22 (13. grein) og 23. (14. grein) 8. október 1883, og Seyðisfjörð, lög nr. 15, 8. maí 1894 (14. grein) þar sem segir:

Í öllum þeim málum, er snerta uppeldi og uppfræðing barna, hefur hlutaðeigandi prestur sæti og atkvæði á fundum bæjarstjórnarinnar.13Stjórnartíðindi 1883 A, bls. 56–57, 72–73; 1894 A, bls. 96–97.

Og lög um uppfræðing barna í skrift og reikningi nr. 2/1880, 9. janúar, mæla svo fyrir í 1. grein:

Auk þeirrar uppfræðsluskyldu, sem prestar hafa, skulu þeir sjá um, að öll börn, sem til þess eru hæf að áliti prests og meðhjálpara, læri að skrifa og reikna.

Jafnframt skyldu prestar rita álit sitt á kunnáttu í húsvitjunarbókina, og prófastur átti að hafa eftirlit með, að það væri gert.14Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 6–9. Áður, eða 30. maí 1879, hafði biskup sent próföstum umburðarbréf til birtingar fyrir prestum, þar sem þess var farið á leit, að prestar hvettu og stuðluðu til þess, að sem flestir unglingar næmu skrift og einfaldan reikning. Þeir gætu haft mikil áhrif á foreldra, húsbændur og börnin sjálf og e.t.v. veitt einhverja tilsögn, sem helst gæfist færi á við húsvitjanir, kirkjufundi og fermingarundirbúning. Ætti vel við að geta þess í húsvitjunarbókum, hver börn væru skrifandi og hvað þau kynnu í reikningi. Slíkt mundi vekja kappgirni barnanna og líka sýna próföstum ástand mála. Einnig var nefnd hugsanleg farkennsla, sem byggðist á efnahag viðkomandi sveitar og menntunaráhuga.15Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 76–77.

Á tímabili færðu því prestar inn í prestsþjónustubækur vitnisburð um kunnáttu fermingarbarna í ýmsum greinum, svo og hegðun. Í sóknarmannatölum eftir 1880 og fram eftir 20. öld eru dálkar fyrir vitnisburði um lestrar-, kristindóms-, skriftar- og reikningskunnáttu barna. (Sjá Sóknarmannatöl).

Fræðslulögin nr. 59/1907, 22. nóvember, fella niður ákvæði um skyldur presta vegna barnafræðslu.16Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 380–397. Þeir munu eftir sem áður hafa tekið virkan þátt í henni, t.d. með setu í fræðslunefndum, kennslu- og prófdómarastörfum. Húsvitjanir voru áfram skylda, og þá bar prestum að kynna sér kunnáttu barna, láta þau lesa o.fl. Er húsvitjanatilskipunin enn í gildi (2017), en þar eru ekki lengur ákvæði um lestur barna.17Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746275.html, sótt 21. september 2017.

Engin ákvæði eru í sveitarstjórnarlögum nr. 43/1905, 10. nóvember, um aðild presta að sveitarmálefnum.18Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 232–263. Hins vegar var í 50. grein fátækralaga nr. 44/1905, 10. nóvember, kveðið á um skyldur sóknarpresta varðandi eftirlit með meðferð barna, jafnt niðursetninga, annarra þurfamannabarna, munaðarleysingja og barna, sem væru í foreldrahúsum án styrks. Yrði prestur var misbresta og gæti ekki bætt úr með umvöndun, skyldi hann kæra það fyrir lögreglustjóra, sem ætti að halda fátækrastjórninni til þess að gæta skyldu sinnar.19Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 282–283. Áþekk ákvæði voru í 38. grein fátækralaga nr. 43/1927, 31. maí, en í framfærslulögum nr. 135/1935, 31. desember, 44. grein, segir, að sóknarprestar, kennarar og héraðslæknar skuli líta eftir því, að vel sé farið með alla framfærsluþurfa í umdæmum þeirra. 40. grein framfærslulaga nr. 80/1947 var í meginatriðum samhljóða umgetinni grein frá 1935 með áorðnum orðalagsbreytingum og viðaukum.20Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 126; 1935 A, bls. 345; 1947 A, bls. 267. Giltu þau lög til ársins 1991, þegar við tóku lög nr. 40/1991, 27. mars, um félagsþjónustu sveitarfélaga, en þar segir í 31. grein, að

Félagsmálanefnd er skylt, í samvinnu við foreldra, forráðamenn og aðra þá aðila sem hafa með höndum uppeldi, fræðslu og heilsugæslu barna og ungmenna, að gæta velferðar og hagsmuna þeirra í hvívetna.21Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 268.

Koma því prestar nú aðeins með óbeinum hætti að eftirliti með meðferð barna.

Í skjalasöfnum presta og prófasta er lítið af skjölum, sem varða barnafræðslu, en engin, sem eru um barnauppeldi sérstaklega. Benda má t.d. á barnaprófsskjöl úr Rangárvalla- og Borgarfjarðarprófastsdæmum. Þá getur verið vikið að þesum atriðum á ýmsum stöðum, s.s. í bréfabókum presta og prófasta. Í sóknarmannatali Hvamms í Dölum 1895–1900 eru skráðar barnaprófseinkunnir 1896–1908.22ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Dölum BC/11. Sóknarmannatal 1895–1899. Barnaprófseinkunnir 1896–1908. Bókin nýtt áfram, þótt önnur væri komin fyrir sóknarmannatöl. Enn má geta skólaskjala úr Ólafsvík og skýrslna um farskóla, þ.e. nemendur, námstíma, námsefni, stundaskrá, skólastaði og próf, t.d. úr Landeyjaþingum. Í skjalasafni Árnesprófastsdæmis er bók með rithöndum ungmenna 1897–1907.23ÞÍ. Kirknasafn. Rangárvallaprófastsdæmi H/1. Barnaprófsskýrslur 1896–1908; ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi H/1. Barnaprófsskýrslur 1890–1895; ÞÍ. Kirknasafn. Nesþing E/1. Skjöl um stofnun barnaskóla í Ólafsvík 1856–1875; ÞÍ. Kirknasafn. Landeyjaþing E/1. Skýrslur um farskóla í Austur-Landeyjafræðsluhéraði 1909–1922; ÞÍ. Kirknasafn. Árnesprófastsdæmi H/1. Skýrsla um unglingapróf í Árnesprófastsdæmi 1893. Rithendur ungmenna við prófastsvisitasíur 1897–1907. Að auki eru ýmis skjöl önnur ótalin, sem eru í viðeigandi flokkum innan einstakra prestakalla og prófastsdæma.

Prestum var boðið í húsagatilskipuninni 27. maí 1746 (19. grein) að líta eftir við húsvitjanir, hvernig fátækratíund væri skipt milli fátækra í sveitinni eða sókninni, og minna jafnframt þá efnuðu á að hjálpa þurfandi í sókninni með lánum eða ölmusu. Áttu prestar að gefa þar gott fordæmi, eftir efnum og ástæðum.24Lovsamling for Island II, bls. 575.

Að frumkvæði Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups sendi Levetzow stiftamtmaður síðla árs 1785 dreifibréf til sýslumanna og presta og bauð, að í hverjum hreppi yrði haldin bók, greidd af fátækrasjóði og árituð af sýslumanni. Í hana átti að færa nöfn hreppsómaga, ástand þeirra og framfærsla, sömuleiðis tekjur fátækrasjóðs og meðferð þeirra, auk þess allt um stjórn fátækramála í hreppnum. Hreppstjórar og prestur áttu að færa reikningana og undirrita en prestur geyma bókina. Þetta fyrirkomulag var staðfest af kansellíi í bréfi til stiftamtmanns og Skálholtsbiskups 11. júlí 1789.25Lovsamling for Island V, bls. 644–645. (Sjá Sveitarbók). Slíkar bækur finnast ekki í skjalasöfnum presta, en ljóst er, að þetta hafa a.m.k. einhverjir prestar gert.26Við biskupsvisitasíu í Garði í Kelduhverfi árið 1794 var meðal embættisbóka „Sveitar protocoll“. ÞÍ. Kirknasafn. Garður í Kelduhverfi AA/3. Kirkjustóll Garðs 1748–1852, bl. 35r.

Ýmis ákvæði um afskipti presta af sveitarmálefnum eru í hreppstjórainstrúxi frá 24. nóvember 1809.27Lovsamling for Island VII, bls. 305–340. Þeir áttu að koma ómögum fyrir og úthluta fátækratillögum ásamt hreppstjórum (2. grein). Afgang af útsvari til fátækraframfærslu skyldi hreppstjóri geyma eftir úthlutun í októberlok undir eigin innsigli svo og sóknarprests og meðhreppstjóra og aðeins opna í viðurvist prestsins (19. grein). Aukaútsvar skyldi hreppstjóri reikna út með aðstoð og ráði sóknarprestsins, sem væri falin umsjón með fátækum og framfæri þeirra samkvæmt köllunarbréfi prests, 19. grein tilskipunar 27. maí 1746, kansellíbréfi 11. júlí 1789 og fyrirmælum yfirvalda, og deila því niður á hreppsbúa (20. grein).

Árið 1834 var gefin út reglugerð fyrir fátækramálefnalögun og -stjórn, 8. janúar.28Lovsamling for Island X, bls. 410–434, íslenskur texti bls. 423–434. Þar segir í annarri grein, að hreppstjóri stjórni fátækramálum, en með aðstoð sóknarprests. Prestur eigi bæði að gefa hreppstjóra ráð og leitast við að leiðrétta yfirsjónir hans, annað hvort með fortölum eða leita til yfirmanns hreppstjórans (sýslumanns). Væru tveir hreppstjórar í sama hreppi og gætu ekki komið sér saman, kæmi sóknarprestur til skjalanna. Dómkirkjupresturinn átti sæti í fátækranefnd Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps, sem var sameiginleg fyrir bæði sveitarfélögin. Þá var það hlutverk presta ásamt hreppstjórum (4. grein) að fá efnaða ættingja til þess að annast náskylda, ef foreldrar eða afkomendur gætu það ekki. Ef örbirgð orsakaðist af leti, eyðslusemi, lostasemi og löstum, var það skylda hreppstjóra og prests að reyna að koma þessu í lag með því að halda fólki til iðjusemi og fá það til þess að bæta lífernismátann (5. grein). Prestar áttu sérstaklega að skipta sér af uppfræðingu barna á ómagaframfæri og hreppstjórar máttu ekki líta fram hjá áliti þeirra vegna vistferla slíkra barna. Sýslumenn skyldu útkljá ágreiningsmál, sem þó mátti vísa til amtmanns (9. grein). Þá átti prestur, samkvæmt 15. grein, að endurskoða fátækrareikning og staðfesta áður en reikningurinn væri sendur sýslumanni.

Hundur hljóp í presta, þegar þessi reglugerð kom út. Þeir höfðu áður stýrt fáækramálefnum en töldu sig nú undanþegna þátttöku, einkum við skiptingu tíundar, ákvörðun aukaútsvars og reikningagerð og önnur ritarastörf, eins og kemur fram í kansellíbréfi til amtmanns í Vesturamti 30. júlí 1836. Sagði kansellíið presta alls ekki undanþegna stjórn fátækramálefna og lagði sérstaka áherslu á þátttökuskyldu þeirra ásamt hreppstjórum vegna áðurnefndra atriða og í því, hvernig farið skyldi með sveitarómaga. Í bréfinu segir um undanfærslu prestanna:

hvilket har meget skadelig virkning, da repstyrerne sjeldent ere istand til paa egen haand og alene at bestyre fattigvæsenet, og besörge det skriverie og den regnskabsförelse, som dermed er i forbindelse.29Lovsamling for Island X, bls. 764–766.

Árið 1846, 27. nóvember, var gefin út reglugerð um stjórn bæjarmálefna í kaupstaðnum Reykjavík og fátækramálefni kaupstaðarins og Seltjarnarneshrepps aðskilin. Dómkirkjuprestur skyldi áfram sitja í fátækrastjórn Reykjavíkur, en í Seltjarnarneshreppi gilda sömu reglur og í öðrum hreppum samkvæmt reglugerðinni frá árinu 1834.30Lovsamling for Island XIII, bls. 505–535, íslenskur texti bls. 522–535 (sjá sérstaklega 1. grein, bls. 522–523). Þegar Akureyri var gerð að kaupstað með reglugerð frá 29. ágúst 1862, var sett þar inn svohljóðandi ákvæði:

15. gr. Í öllum þeim málum, er snerta þurfamenn, uppeldi og uppfræðing barna, hefir hlutaðeigandi prestur sæti og atkvæði á fundum fulltrúanna.31Lovsamling for Island XVIII, bls. 395.

Það var álit Jóns Péturssonar, yfirdómara, að lægi prestakall í fleiri en einum hreppi, þyrfti presturinn að hafa afskipti af fátækramálum í þeim öllum. Tæki hreppurinn yfir fleiri en eitt prestakall, hlyti hver prestur að hafa lögboðin afskipti af hreppsstjórn í þeim hluta hreppsins, sem lægi í prestakalli hans.32Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 141–142.

Tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi var gefin út 4. maí 1872. Þar sagði í 14. grein, að hreppsnefndir skyldu framvegis stjórna fátækramálum hreppanna samkvæmt fyrirmælum reglugerðar 8. janúar 1834 og seinni tilskipunum, en sóknarprestur hafa þá tilsjón um uppfóstur og uppeldi barna, sem hann ætti að hafa eftir gildandi lögum. Gæti hreppsnefndin ekki orðið prestinum samdóma um þau mál, skyldi hún, án tillits til atkvæðafjölda (prestur gat setið í hreppsnefndinni), taka uppástungu prestsins til greina, a.m.k. þangað til úrskurður sýslunefndar fengist um ágreininginn.33Lovsamling for Island XXI, bls. 360–361. Fátækranefnd í Reykjavík var lögð niður með tilskipun 20. apríl 1872 og bæjarstjórnin átti að taka við störfum hennar (13. grein). Sóknarprestur skyldi taka þátt í umræðum um mál, er snertu uppeldi og kennslu fátækra barna og hafa þar atkvæði. Féllist bæjarstjórnin ekki á álit hans, hvar koma ætti þessum börnum fyrir, mátti hann skjóta ályktuninni, sem gerð hefði verið, til landshöfðingja.34Lovsamling for Island XXI, bls. 248. Seinna á árinu 1872, 9. október, var fátækranefnd komið á fót innan bæjarstjórnar Reykjavíkur. Dómkirkjuprestur átti sæti og atkvæði á fundum nefndarinnar við alla meðferð á fé, sem veitt yrði úr Thorkillisjóði, sem og í öllum öðrum málum, er snertu uppeldi og kennslu fátækra barna (4. grein). Og samkvæmt 5. grein tilskipunarinnar skyldi sóknarprestur eiga sæti í skólanefnd, sem sett væri til þess að hafa umsjón með skólakennslunni og embættisverkum skólans.35Lovsamling for Island XXI, bls. 467–468.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 44.
2 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 186, 204, 214–215, 219, 225.
3 Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 4v–7r, 12r–13v, 61r–72r.
4 Lovsamling for Island II, bls. 218–219.
5 Lovsamling for Island II, bls. 227–242, 505–508, 518–523, 566–578, 605–620, 648–652.
6 Lovsamling for Island II, bls. 527–529.
7 ÞÍ. Bps. B. V. 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar og Jóns biskups Teitssonar 1779–1784, bls. 116–118; Lovsamling for Island II, bls. 523–527.
8 Lovsamling for Island II, 573–574, 607, 575–576; ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sjá einkum bls. 26–28); ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788 (sjá einkum bls. 783, E-lið).
9 Lovsamling for Island II, bls. 600–602; ÞÍ. Bps. A. IV, 16, bls. 29–33.
10 Lovsamling for Island II, bls. 570–572, 606–613.
11 Lovsamling for Island V, bls. 694–696.
12 Lovsamling for Island V, bls. 696–697.
13 Stjórnartíðindi 1883 A, bls. 56–57, 72–73; 1894 A, bls. 96–97.
14 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 6–9.
15 Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 76–77.
16 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 380–397.
17 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746275.html, sótt 21. september 2017.
18 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 232–263.
19 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 282–283.
20 Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 126; 1935 A, bls. 345; 1947 A, bls. 267.
21 Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 268.
22 ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Dölum BC/11. Sóknarmannatal 1895–1899. Barnaprófseinkunnir 1896–1908. Bókin nýtt áfram, þótt önnur væri komin fyrir sóknarmannatöl.
23 ÞÍ. Kirknasafn. Rangárvallaprófastsdæmi H/1. Barnaprófsskýrslur 1896–1908; ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi H/1. Barnaprófsskýrslur 1890–1895; ÞÍ. Kirknasafn. Nesþing E/1. Skjöl um stofnun barnaskóla í Ólafsvík 1856–1875; ÞÍ. Kirknasafn. Landeyjaþing E/1. Skýrslur um farskóla í Austur-Landeyjafræðsluhéraði 1909–1922; ÞÍ. Kirknasafn. Árnesprófastsdæmi H/1. Skýrsla um unglingapróf í Árnesprófastsdæmi 1893. Rithendur ungmenna við prófastsvisitasíur 1897–1907.
24 Lovsamling for Island II, bls. 575.
25 Lovsamling for Island V, bls. 644–645.
26 Við biskupsvisitasíu í Garði í Kelduhverfi árið 1794 var meðal embættisbóka „Sveitar protocoll“. ÞÍ. Kirknasafn. Garður í Kelduhverfi AA/3. Kirkjustóll Garðs 1748–1852, bl. 35r.
27 Lovsamling for Island VII, bls. 305–340.
28 Lovsamling for Island X, bls. 410–434, íslenskur texti bls. 423–434.
29 Lovsamling for Island X, bls. 764–766.
30 Lovsamling for Island XIII, bls. 505–535, íslenskur texti bls. 522–535 (sjá sérstaklega 1. grein, bls. 522–523).
31 Lovsamling for Island XVIII, bls. 395.
32 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 141–142.
33 Lovsamling for Island XXI, bls. 360–361.
34 Lovsamling for Island XXI, bls. 248.
35 Lovsamling for Island XXI, bls. 467–468.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 2 af 2 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 229