Búnaðarfélag Íslands

Síðast breytt: 2023.10.30
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Hugmynd um stofnun allsherjar búnaðarfélags á Íslandi mun fyrst hafa verið hreyft opinberlega árið 1853, en slíkt lá lengi í láginni. Veruleg hreyfing komst á árið 1893 að frumkvæði Búnaðarfélags Suðuramtsins og lög fyrir Búnaðarfélag Íslands voru samþykkt á fundi þess 5. júlí 1899. Tilgangur Búnaðarfélags Íslands var að efla landbúnað og aðra atvinnuvegi landsmanna, er stæðu í nánu sambandi við hann. Félagsmenn gátu allir orðið, sem styðja vildu tilgang félagsins, jafnt einstaklingar og búnaðarfélög, en formenn búnaðarfélaganna voru aðilar gagnvart Búnaðarfélagi Íslands, sem Búnaðarfélag Suðuramtsins rann inn í. Engin samtök hreppabúnaðarfélaga voru þá til, en árið 1903 voru tvö fyrstu búnaðarsamtökin stofnuð og síðan urðu önnur til í áföngum. Búnaðarþing, sem hafði æðsta vald í málum félagsins, skyldi haldið annað hvert ár, þegar reglulegt Alþingi kæmi saman. Fulltrúakosning á Búnaðarþing varð um skeið eitt mesta vandamál Búnaðarfélags Íslands, m.a. vegna þess að búnaðarsambönd skorti framan af og vegna ýmissa ágreiningsmála. Fjölgaði svæðisbundnum búnaðarsamböndum smám saman fram til ársins 1950, oft við skiptingu sambanda. Árið 1987 voru þau 15 talsins. Í ársbyrjun 1995 voru stofnuð Bændasamtök Íslands, þar sem komu saman Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og ýmis búgreinasamtök.1Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987. Reykjavík 1988, bls. 105–150; https://www.althingi.is/altext/118/s/0191.html, sótt 16. október 2023; „Auka-Búnaðarþing 1994“, Búnaðarrit 107. árgangur, bls. 199–220; „Búnaðarþing 1995“, Búnaðarrit 108. árgangur, bls. 157–171.

Búnaðarfélag Íslands og síðar Bændasamtök Íslands gáfu út Búnaðarrit frá árinu 1900 til ársins 2003. Hermann Jónasson, skólastjóri á Hólum í Hjaltadal og alþingismaður, hafði gefið það út frá árinu 1887 og keypti Búnaðarfélagið útgáfuréttinn. Búnaðarblað, sem nefndist Freyr, hóf göngu sína árið 1904. Búnaðarfélag Íslands tók við því árið 1935 og Stéttarsamband bænda kom inn í útgáfuna árið 1946.2Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987, bls. 754–775. Freyr hætti göngu sinni árið 2007. Bændasamtök Íslands gefa út Bændablaðið frá árinu 1995. (Sjá Búnaðarfélög / Hreppabúnaðarfélög í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)

(Heimildir: Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987. Reykjavík 1988; Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 78; Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir. Reykjavík 1937; Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Reykjavík 1937.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987. Reykjavík 1988, bls. 105–150; https://www.althingi.is/altext/118/s/0191.html, sótt 16. október 2023; „Auka-Búnaðarþing 1994“, Búnaðarrit 107. árgangur, bls. 199–220; „Búnaðarþing 1995“, Búnaðarrit 108. árgangur, bls. 157–171.
2 Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987, bls. 754–775.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 8