Búnaðarfélög / Hreppabúnaðarfélög

Síðast breytt: 2023.10.30
Slóð:
Áætlaður lestími: 8 mín

Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag, síðar nefnt Húss- og bústjórnarfélag Suðuramtsins og loks Búnaðarfélag Suðuramtsins, var stofnað á fundum 28. janúar og 8. júlí árið 1837. Tilgangur félagsins var samkvæmt fyrstu grein félagslaganna að efla velmegun bændastéttarinnar í Suðuramtinu með ritgerðum, peningastyrkjum og verðlaunum til þess að efla og bæta búnaðarhætti amtsbúa til sjós og sveita varðandi jarðyrkju, kvikfjárrækt, fiskafla og vatnaveiðar, handiðnir og góða hússtjórn. En meðan fjárhagur yrði efldur, vildi það einkum efla þúfnasléttun og túngirðingar.1Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Reykjavík 1937, bls. 94–106. Suðuramtið náði frá 1783 til 1893 yfir Skaftafells-, Rangárvalla-, Vestmannaeyja-, Árness-, Gullbringu-, Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur og Reykjavík eða frá Lónsheiði að Hvítá í Borgarfirði. Árið 1893 var Austur-Skaftafellssýsla færð í Austuramtið.

Að frumkvæði Búnaðarfélags Suðuramtsins varð til allsherjar búnaðarfélag á Íslandi árið 1899, Búnaðarfélag Íslands.2Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937, bls. 248–257.

Sagt hefur verið um upphaf landbúnaðarframfara á Íslandi á 19. öld, að helsta leiðin hafi verið sú, að bændur á ákveðnu svæði byndust samtökum um að láta vinna tiltekinn dagsverkafjölda á ári hverju að jarðabótum, hver hjá sér eða í vinnuflokkum, er unnu til skiptis hjá bændum í þeirri röð, sem félag þeirra ákvað á ári hverju. Þannig hafi flest elstu búnaðarfélögin verið stofnuð, en fæst þeirra lifað af harðindi áranna 1858–1870.3Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937, bls. 220–221.

Elsta búnaðarfélagið, sem náði yfir ákveðnar sveitir eða hreppa, var Búnaðarfélag Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshreppa, stofnað árið 1842. Því var skipt eftir hreppum árið 1858 og er Búnaðarfélag Svínavatnshrepps enn við lýði. Á næstu árum og áratugum voru stofnuð ýmis fleiri búnaðarfélög allvíða á Íslandi, en nöfnin voru ekki endilega beintengd búnaði. Má þar nefna tún- og jarðabætur, framskurð og framfarir svo nokkuð sé nefnt. Lífdagar þessara félaga reyndust mislangir, en um 1880 munu þó hafa verið við lýði nokkur sveitabúnaðarfélög og upp úr því fjölgaði félögunum mikið.4Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi, bls. 221–236; Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir. Reykjavík 1937, bls. 186–207; Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987. Reykjavík 1988, bls. 94–103. Í tilvitnuðu riti tíndi Þorkell Jóhannesson saman heimildir um elstu búnaðarfélögin upp úr ýmsum blöðum, sem gefin voru út á 19. öld, en hér verður ekki bent á frekari leitarmöguleika.

Fyrstu fjárlög, sem Alþingi samþykkti eða fyrir árin 1876 og 1877, kváðu á um 2.400 króna styrk til jarðabóta.5Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 62. Á fjárlögum fyrir árin 1878 og 1879 var 5.000 kr. styrkur til jarðræktar og eflingar á sjávarútvegi.6Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 70. Í fjárlögum áranna 1880 og 1881 eru ákvæði um 10.000 kr. styrk til eflingar búnaði og af því allt að helmingur til búnaðarfélaga og búnaðarsjóða.7Stjórnartíðindi 1879 A, bls. 64. Var það samkvæmt frumvarpi, sem fjárhagsnefnd Alþingis samdi. Sagði í athugasemdum, að nefndin vildi gefa búnaðarfélögum og sjóðum kost á að styrkja fyrirtæki og efla framfarir, sem ættu skylt við landbúnað, þótt þær snertu hann ekki beinlínis.8Alþingistíðindi 1879 I, bls. 188, 193.

Landshöfðingi skrifaði amtmönnum í ömtunum tveimur (Suður- og Vesturamti og Norður- og Austuramti) 27. janúar 1880 og bað um álit amtsráðanna á skiptingu fjárins.9Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 19–20. Amtmaður í Suður- og Vesturamti skrifaði sýslumönnum 2. febrúar s.á. og bað um upplýsingar um búnaðarfélög eða búnaðarsjóði í sýslum þeirra.10ÞÍ. Suðuramt 0000-263 A/2 (2). Bréfadagbók Suðuramtsins C, nr. 186. Amtsráðið í Norður- og Austuramti treysti sér ekki til þess skipta styrktarfénu milli búnaðarfélaga í amtinu á fundi 26. maí 1880. Taldi það hafa verið ætlun fjárlaganefndar neðri deildar Alþingis árið 1879, að fénu yrði skipt milli Búnaðarfélags Suðuramtsins og búnaðarsjóðanna í Vesturamti og Norður- og Austuramti.11Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 127–128. Landshöfðingi fól því amtmanni í Norður- og Austuramtinu, 17. júní 1880, að skipta þessum 2.000 krónum amtsins milli búnaðarsjóðs amtsins og nokkurra búnaðar- og framfarafélaga, sem amtmaður hafði nefnt í bréfi.12Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 113–114.

Á fundi amtsráðsins í Norður- og Austuramtinu í maí 1881 var af hálfu amtsins álitið, að réttast væri að skipta þeim hluta, sem skyldi ganga til félaga og sjóða, sem mest eftir þeirri reglu, að búnaðarfélögin fengju styrki eftir því sem þau framkvæmdu þá um sumarið. Lagði amtsráðið til, að auglýsing yrði birt sem fyrst, svo að búnaðarfélögin ættu kost á að senda þá um haustið skýrslur um framkvæmdir sínar. Áleit amtið, að þessi tilhögun yrði til þess að vekja keppni milli félaganna um sem mestar framkvæmdir.13Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 136. Landshöfðingi samþykkti þessa tillögu með bréfi 15. júní 1881. Skiptingin færi fram, þegar búnaðarfélögin hefðu sent amtsráðinu skýrslur um framkvæmdir sínar, innan 15. september, og amtsráðið sent landshöfðingja skýrslurnar með áliti sínu og tillögum.14Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 65.

Búnaðarstyrkurinn varð 20.000 kr. á fjárlögum fyrir árin 1882 og 1883. Skyldi landshöfðingi úthluta helmingi til sýslunefnda og bæjarstjórna, að hálfu eftir fólksfjölda og að hálfu eftir samanlagðri tölu jarðarhundraða og lausafjárhundraða, en hinum helmingnum eftir tillögum amtsráðanna, að hálfu millli búnaðarfélaga og búnaðarsjóða.15Stjórnartíðindi 1881 A, bls. 36. Þessi styrkupphæð hélst óbreytt í fjárlögum fyrir árin 1884–1885 og 1886–1887.16Stjórnartíðindi 1883 A, bls. 88; Stjórnartíðindi 1885 A, bls. 72. Upphæðin varð lægri á fjárlögum áranna 1888–1889 og 1890–1891.17Stjórnartíðindi 1887 A, bls. 36; Stjórnartíðindi 1889 A, bls. 46, 48.

Tillögur um styrki til búnaðarfélaga voru gerðar á amtsráðsfundum og eru fundargerðirnar prentaðar í B-deild Stjórnartíðinda og skráðar sem sérstakur liður í efnisyfirlitum. Verður að leita tillagna samkvæmt því. Sömuleiðis má finna yfirlit um þessa styrki í B-deild Stjórnartíðinda (t.d. vegna fjárlaga áranna 1890–1891, Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 158–160). Þetta fyrirkomulag breyttist með auglýsingu um skilyrði og reglur um styrkveitingu úr landssjóði til búnaðarfélaga árið 1891. Var hún samkvæmt ályktunum, sem samþykktar voru í báðum deildum Alþingis það ár. Þar segir m.a., að bónarbréf skuli stíluð til landshöfðingja og þeim fylgi reikningur næsta árs á undan yfir tekjur og gjöld búnaðarfélagsins, sem sæki um styrk. Einnig skýrsla um unnin störf, gefin út af skoðunarmanni, sem sýslunefnd eða bæjarstjórn hafi útnefnt.18Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 191–192. Eftir það komu amtsráðin ekki að úthlutun styrkja til búnaðarfélaga. Slíkt heyrði undir landshöfðingja.

Styrkir til búnaðarfélaga urðu sérstakur liður í fjárlögum áranna 1892–1893.19Stjórnartíðindi 1891 A, bls. 88, 90. Hélst sá liður inni í nokkra áratugi, síðast í fjárlögum ársins 1928.20Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 98.

Ljóst er, að þessir styrkir hafa orðið mikill hvati að stofnun hreppabúnaðarfélaga. Má t.d. sjá það af yfirliti um hreppabúnaðarfélög, stofnár þeirra, skýrslugjöf, jarðabætur og styrki, sem birtist árið 1937.21Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir, bls. 190–207. Það yfirlit er samt ekki örugg heimild um upphaf slíkra félaga.

Staða og hlutverk hreppabúnaðarfélaga breyttist með jarðræktarlögum nr. 43/1923.22Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 179–186. Æðsta stjórn ræktunarmálefna var á hendi atvinnumálaráðuneytisins samkvæmt 1. grein, en Búnaðarfélag Ísland annaðist framkvæmd eða umsjón með ræktunarmálum, sem veitt voru lán eða styrkir úr ríkissjóði eða öðrum sjóðum eða stofnunum, sem væru eign ríkisins (2. grein). Búnaðarfélag Íslands hafði heimild til þess að velja trúnaðarmann í hverjum hreppi og átti að setja honum ítarlegt erindisbréf, en laun áttu hreppabúnaðarfélögin að greiða. Væru þau ekki til, áttu þeir, sem trúnaðarmennirnir unnu fyrir, að borga launin (6. grein). — Búnaðarþing 1925 samþykkti fyrirmyndir að lögum fyrir hreppabúnaðarfélög sem ætlaðar voru til þess, að félögin samræmdu lög sín, svo að tryggt yrði, að þau samrýmdust lögum viðkomandi búnaðarsambands, enda þyrfti það að staðfesta lögin.23Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987, bls. 140–141. Búnaðarþing hafði æðsta vald í málum Búnaðarfélags Íslands og lagði línur um starfsemi þess og var jafnframt ráðgefandi samkoma, sem túlkaði viðhorf bændastéttarinnar til mála, sem hana vörðuðu.

Ekki mun hafa krafist aðildar að hreppabúnaðarfélögum, nema menn óskuðu eftir styrkjum. Slíkt kom inn með jarðræktarlagabreytingu nr. 40/1928.24Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 99–102. Varð þá til ný 6. grein (1. grein nýju laganna), þar sem ákveðið var, að allir, sem ættu rétt til þess að fá styrk af opinberu fé samkvæmt þessum lögum, yrðu að vera félagar í búnaðarfélagi hrepps eða bæjar. Búnaðarfélag Íslands átti að hafa eftirlit með öllum jarðræktarfyrirtækjum, sem unnin væru samkvæmt þessum lögum. Eftirlitið væri falið trúnaðarmönnum, sem Búnaðarfélag Íslands skipaði í samráði við búnaðarsamböndin. Laun fengju þeir frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi eða hreppsbúnaðarfélagi. Stjórn hvers hreppsbúnaðarfélags skyldi árlega færa inn á skrá allar jarðabætur á félagssvæðinu. — Jarðræktarlög nr. 101/193625Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 377–389. kváðu á um það í 5. grein, að í hverjum hreppi eða bæjarfélagi skyldi vera eitt búnaðarfélag. Heimild var þó fyrir tveimur félögum í hreppi, ef sérstakar ástæður mæltu með því og Búnaðarfélag Íslands samþykkti. Stjórn búnaðarfélags var skylt að halda skýrslur og reikninga eftir fyrirmælum stjórnar Búnaðarfélags Íslands og senda af þeim samrit til hlutaðeigandi búnaðarsambands. — Þessi ákvæði voru endurtekin í 6. grein jarðræktarlaga nr. 45/195026Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 129–136. að því viðbættu, að búnaðarsamböndin skyldu árlega senda Búnaðarfélagi Íslands skýrslur um jarðræktarframkvæmdir innan síns umdæmis og afrit af reikningum sínum. Einnig var tekið fram, að hver, sem vildi njóta ríkisframlags samkvæmt þessum lögum, yrði að vera félagsmaður í hlutaðeigandi búnaðarfélagi.

Í 6. grein nýrra jarðræktarlaga nr. 22/196527Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 65–74. voru sömu ákvæði og áður um búnaðarfélag í hverjum hreppi eða bæjarfélagi. En þar var heimilað, að búnaðarfélag næði yfir stærra svæði en einn hrepp, svo og að tvö félög væru í sama hreppi eða einstakir menn væru í búnaðarfélagi annars hrepps, ef sérstakar landfræðilegar ástæður væru fyrir hendi. Hreppabúnaðarfélögum var skylt að vera í búnaðarsambandi viðkomandi héraðs. Hver, sem vildi njóta ríkisframlags samkvæmt lögunum, var skyldur til þess að vera í búnaðarfélagi byggðarlagsins. Þessi ákvæði héldust óbreytt í 6. grein jarðræktarlaga nr. 79/1972.28Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 133–140.

Allmiklar breytingar urðu með jarðræktarlögum nr. 56/1987,29Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 184–189. sem sögðu í 3. grein:

Hver sá, sem stundar búskap á lögbýli og búvöruframleiðslu til sölu á almennum markaði, á rétt til að vera félagsmaður í búnaðarfélagi. Í hverju sveitarfélagi þar sem búvöruframleiðsla er stunduð skal vera starfandi búnaðarfélag og starfssvæði þess að jafnaði miðað við viðkomandi sveitarfélag, enda séu fullgildir félagsmenn ekki færri en sex að tölu.

Verði fullgildir félagar í búnaðarfélagi fimm eða færri skal búnaðarfélagið sameinast búnaðarfélagi nærliggjandi sveitar eftir tillögum hlutaðeigandi búnaðarsambands.

Heimilt er þó að einstakir menn séu í búnaðarfélagi annars sveitarfélags ef sérstakar landfræðilegar ástæður eru fyrir hendi og enn fremur að búnaðarfélag nái yfir tvö sveitarfélög eða fleiri þar sem það þykir henta. …

Heimilt er að halda félagssvæði búnaðarfélags óbreyttu þótt skipan sveitarfélaga breytist.

Búnaðarfélögum er skylt að vera í búnaðarsambandi hlutaðeigandi héraðs. [Þá koma ákvæði um skýrslu- og reikningshald og árlega skýrslugjöf búnaðarsambandanna til Búnaðarfélags Íslands um jarðabætur og afrit af ársreikningum.]

Jarðræktarlögin voru numin úr gildi með búnaðarlögum nr. 70/1998,30Stjórnartíðindi 1998 A, bls. 283–288. en 5. liður 1. greinar þeirra laga hljóðar þannig:

Búnaðarfélag er félag bænda á ákveðnu svæði, óháð þeim búrekstri sem þeir stunda.

Samkvæmt 5. grein laganna átti hver sá, sem stundaði búrekstur í atvinnuskyni, rétt á aðild að búnaðarsambandi síns héraðs gegnum búnaðarfélag, búgreinafélag eða með beinni aðild eftir samþykktum viðkomandi búnaðarsambands. Sama búnaðarsamband gæti náð yfir fleiri héruð eða sýslu. Þessi ákvæði gilda enn haustið 2023.31https://www.althingi.is/lagas/153c/1998070.html, sótt 11. október 2023.

Starfsemi hreppabúnaðarfélaga fólst einkum í því að kaupa jarðyrkjuverkfæri til sameiginlegra nota fyrir félagsmenn. Stundum mynduðu þau vinnuflokka og réðu menn til jarðyrkjustarfa. Búnaðarsambönd, sem hreppabúnaðarfélög mynduðu á afmörkuðum svæðum, tóku síðan að halda út vinnuflokkum til jarðræktarstarfa og jafnvel húsbygginga. Síðar komu einnig ræktunarsambönd til sögunnar. Ýmsir aðrir þættir gátu komið inn í starfsemi búnaðarfélaga. Hér skal bent á 100 ára afmælisrit Búnaðarfélags Andakílshrepps, en félagið rak t.d. vélaverkstæði um skeið.32Bjarni Guðmundsson, Búnaðarfélag Andakílshrepps og annar búnaðarfélagsskapur þar frá 1850. Hvanneyri 1921. Landbúnaðarháskóli Íslands. Rit LbhÍ, 1670–5785; 145. Rafrænt. Að vonum urðu miklar breytingar á störfum félaganna í áranna rás, ekki síst vegna byggðaþróunar og breytingar á búháttum en árið 2023 var lýsingin þannig:

Starfsemi hreppabúnaðarfélaga er nokkuð mismunandi frá einu félagi til annars en víðast eru þau grunneiningar búnaðarsambandanna og þar með lykillinn að aðild hvers bónda að félagskerfi landbúnaðarins. Helstu verkefni hreppabúnaðarfélaganna hafa að öðru leyti verið að halda fræðslufundi, eiga og reka tæki, s.s. áburðardreifara og jarðvinnsluvélar, innheimta fyrir búnaðar- og ræktunarsambönd, útborgun jarðabótaframlaga, dreifing búfræðirita og fræðslu- og kynningarferðir.33https://www.bondi.is/adildarfelog, sótt 4. október 2023.

Heimildir um búnaðarfélög

Heimilda um starfsemi búnaðarfélaga verður að leita víða. Mörgum félögum hefur haldist vel á gögnum sínum og komið þeim í héraðsskjalasöfn eða varðveita þau jafnvel enn þá sjálf. Önnur hafa glatað skjölum, einkum þeim elstu. Hér má nefna sem dæmi frumskjöl Búnaðarfélags Lundarreykjadalshrepps í Borgarfirði, sem vantar frá fyrstu áratugum félagsstarfsins. Hefur verið haft á orði, að þau kynnu að hafa verið brennd við sótthreinsun á heimili formanns félagsins, sem sýktist af berklum. Í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands og síðar Bændasamtaka Íslands, sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands, má finna ýmsar heimildir svo sem skýrslur félaganna, en hér á eftir skal bent á nokkur skjalasöfn, þar sem finna má skjöl frá síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum tuttugustu aldar:

Á amtsráðsfundum voru gerðar tillögur um styrki til búnaðarfélaga eins og fyrr hefur verið getið. Því má finna heimildir um tilurð og starfsemi búnaðarfélaga í skjalasöfnum amtanna/amtsráðanna. Þeirra er helst að leita undir eftirtöldum skráningarorðum: Fjárveitingar til eflingar búnaði, sjá ÞÍ. Suðuramt BB/62; Styrkveitingar til eflingar búnaði, sjá ÞÍ. Vesturamt B/315; Fé til búnaðar, sjá ÞÍ. Norður- og Austuramt FB/7, 9, 10, 12.

Eitt og annað um hreppabúnaðarfélög og styrki til búnaðarframfara og til einstaklinga má finna í skjalasafni landshöfðingja eftir 1880. Er þá helst að bera niður í efnisyfirliti bréfadagbóka landshöfðingja undir orðinu landbúnaður og leita síðan eftir bréfanúmerum með stuðningi af skjalaflutningaskrá, sem fylgir þessu skjalasafni.

Frá og með árinu 1888 má finna tillögur amtsráðanna um úthlutanir styrkja til hreppabúnaðarfélaga í bréfasafni landshöfðingja. Árið 1888 liggja þær undir númerunum LhNJ 1888, 458, 459 og 488. Þar má finna ýmsar upplýsingar um starfsemi búnaðarfélaga, jafnvel yfir nokkur ár, og stundum fylgja heimildir um tilurð félaganna. Upplýsingar um hið sama frá árunum 1889 og 1890 má einnig finna í bréfasafni landshöfðingja. Gögnum frá árunum 1891–1898 um hreppabúnaðarfélög hefur verið smalað saman í skjalaflokkinn Búnaðarfélög, skýrslur um jarðabætur, reikningar, umsóknir um styrki 1891–1898, alls 10 öskjur, undir liðnum Sérmál í skjalasafni landshöfðingja. Gögn frá árunum 1898–1904 má einnig finna undir málsnúmerinu 351 aftast í bréfasafni landshöfðingja, en þau eru fremur fátækleg.

Eftir að landshöfðingjaembættið var lagt niður árið 1904, eru heimildir um búnaðarfélög og styrki til þeirra í skjalasafni II. skrifstofu Stjórnarráðsins, meðan styrkir til búnaðarfélaga voru sérstakur liður á fjárlögum eins og áður var nefnt. Þar mun styrkjum hvers árs hafa verið haldið út af fyrir sig. Verður að giska á málsheiti í bréfadagbókunum hverri fyrir sig. Í fyrstu bréfadagbókinni er það Styrkveitingar til búnaðarfélaga, sjá ÞÍ. Stjr. Ísl. II. Db. 1, nr. 223. (Sjá Búnaðarfélag Íslands í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Reykjavík 1937, bls. 94–106.
2 Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937, bls. 248–257.
3 Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937, bls. 220–221.
4 Þorkell Jóhannesson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarsamtök á Íslandi, bls. 221–236; Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir. Reykjavík 1937, bls. 186–207; Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987. Reykjavík 1988, bls. 94–103.
5 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 62.
6 Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 70.
7 Stjórnartíðindi 1879 A, bls. 64.
8 Alþingistíðindi 1879 I, bls. 188, 193.
9 Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 19–20.
10 ÞÍ. Suðuramt 0000-263 A/2 (2). Bréfadagbók Suðuramtsins C, nr. 186.
11 Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 127–128.
12 Stjórnartíðindi 1880 B, bls. 113–114.
13 Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 136.
14 Stjórnartíðindi 1881 B, bls. 65.
15 Stjórnartíðindi 1881 A, bls. 36.
16 Stjórnartíðindi 1883 A, bls. 88; Stjórnartíðindi 1885 A, bls. 72.
17 Stjórnartíðindi 1887 A, bls. 36; Stjórnartíðindi 1889 A, bls. 46, 48.
18 Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 191–192.
19 Stjórnartíðindi 1891 A, bls. 88, 90.
20 Stjórnartíðindi 1927 A, bls. 98.
21 Sigurður Sigurðsson, Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning. Búnaðarhagir, bls. 190–207.
22 Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 179–186.
23 Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Afmælisrit Búnaðarfélags Íslands 1837–1987, bls. 140–141.
24 Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 99–102.
25 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 377–389.
26 Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 129–136.
27 Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 65–74.
28 Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 133–140.
29 Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 184–189.
30 Stjórnartíðindi 1998 A, bls. 283–288.
31 https://www.althingi.is/lagas/153c/1998070.html, sótt 11. október 2023.
32 Bjarni Guðmundsson, Búnaðarfélag Andakílshrepps og annar búnaðarfélagsskapur þar frá 1850. Hvanneyri 1921. Landbúnaðarháskóli Íslands. Rit LbhÍ, 1670–5785; 145. Rafrænt.
33 https://www.bondi.is/adildarfelog, sótt 4. október 2023.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 18