Byggingar- og landnámssjóður varð til með lögum nr. 35/1928, sem tóku gildi í ársbyrjun 1929.1Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 90–95. Í þennan sjóð skyldi árlega leggja 200.000 krónur af tekjum ríkissjóðs. Tilgangurinn var að viðhalda býlum í landinu og fjölga þeim með því að veita lán til þess að: a) endurbyggja íbúðarhús á sveitabýlum, b) byggja upp nýbýli á landi, sem væri í einkaeign eða eign sveitar- eða bæjarfélaga og c) lána bæjarfélögum og kauptúnum, sem mynduðu hreppa, til þess að koma upp byggingum fyrir kúabú á ræktuðu eignarlandi bæjar- eða hreppsfélagsins. Einnig átti að verja fé til þess að byggja upp nýbýli á landi, sem ríkið átti eða keypti í því skyni. Atvinnumálaráðherra skyldi hafa umsjón með sjóðnum.
Byggingar- og landnámssjóður varð deild í Búnaðarbanka Íslands, einni af sex, við stofnun bankans samkvæmt lögum nr. 31/1929. Tilgangur bankans var að styðja viðlandbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunduðu landbúnaðarframleiðslu.2Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 62. grein.
Byggingar- og landnámssjóði Búnaðarbanka Íslands skyldi skipt í tvær deildir eftir 21. grein laga um nýbýli og samvinnubyggðir nr. 25/1936.3Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 56. Önnur deildin veitti lán til endurbygginga á jörðum í ábúð, hin deildin, nýbýladeild, veitti lán til þess að reisa nýbýli og samvinnubyggðir. Í nýjum lögum um sjóðinn, nr. 76/1938, sagði, að tilgangur hans væri að stuðla að endurbyggingu íveruhúsa í sveitum og stofnun nýrra býla. Deildir skyldu vera tvær, byggingarsjóður og nýbýlasjóður. Bent skal sérstaklega á IV. kafla laganna, þar sem fjallað var um nýbýli og samvinnubyggðir. (Sjá Nýbýli Landnám ríkisins í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.) Í sömu lögum (40.–46. grein) voru ákvæði um Teiknistofu landbúnaðarins. (Sjá Teiknistofu landbúnaðarins í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.) Jafnframt voru felld úr gildi lögin frá 1928 um Byggingar- og landnámssjóð og lög um nýbýli og samvinnubyggðir frá 1936.4Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118.
Ný lög um byggingar- og landnámssjóð voru sett árið 1941, nr. 108.5Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 228–237. Hlutverk sjóðsins var að stuðla að endurbyggingu íveruhúsa í sveitum og stofnun nýrra býla. Hann átti að starfa í tveimur deildum, Byggingarsjóði og Nýbýlasjóði. Úr Byggingarsjóði átti einungis að lána til byggingar íbúðarhúsa í sveitum en úr Nýbýlasjóði til þess að reisa nýbýli og samvinnubyggðir. Stofna skyldi sérstaka teiknistofu, Teiknistofu landbúnaðarins.
Í lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum nr. 35/19466Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 60–69. er sérstakur III. kafli um Byggingarsjóð, sem skyldi mynda úr Byggingar- og Nýbýlasjóðum Búnaðarbanka Íslands og Smábýladeild hans, sem lánaði til endurbygginga íbúðarhúsa á sveitabýlum og byggingar íbúðarhúsa og peningshúsa í byggðarhverfum og á nýbýlum. Sjóðirnir tveir voru til samkvæmt áðurnefndum lögum frá 1941, en allt þetta hafði heyrt undir Búnaðarbankann.) Búnaðarbankinn skyldi annaðist framkvæmdastjórn sjóðsins og bankastjórinn ákveða allar lánveitingar hans.
Til varð Byggingarsjóður sveitabæja, deild í Búnaðarbanka Íslands, samkvæmt VII. kafla laga um landnám, ræktun og byggingar í sveitum nr. 48/1957, sbr. VIII. kafla um endurbyggingu íbúðarhúsa.7Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 170–172. Stofnfé var: Byggingarsjóður, Nýbýlasjóður og Smábýladeild Búnaðarbankans eins og þeir sjóðir voru þá. Sjóðurinn veitti lán til endurbyggingar íbúðarhúsa á sveitabýlum, byggingar íbúðarhúsa og peningshúsa á nýbýlum og til byggingar peningshúsa, ef bæjarhús væru flutt úr stað.
Með lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám og ræktun í sveitum nr. 75/19628Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–160. urðu eignir Byggingarsjóðs sveitabæja og Ræktunarsjóður Íslands að stofnfé Stofnlánadeildarinnar. (Stofnlánadeild landbúnaðarins sjá Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)
Tilvísanir
↑1 | Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 90–95. |
---|---|
↑2 | Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 62. grein. |
↑3 | Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 56. |
↑4 | Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118. |
↑5 | Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 228–237. |
↑6 | Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 60–69. |
↑7 | Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 170–172. |
↑8 | Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–160. |