Byggingarbréf

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Byggingarbréf er samningur landsdrottins og leiguliða. Nú, árið 2017, eru í gildi ábúðarlög nr. 80/2004, 9. júní. Þar er eftirfarandi skilgreining á byggingarbréfi í 8. grein:

Jarðareigandi og ábúandi skulu gera skriflegan samning um ábúð sem nefnist byggingarbréf. Í byggingarbréfi skulu koma fram upplýsingar um nöfn, kennitölur og heimilisföng aðila, ræktun, mannvirki, hlunnindi, greiðslumark, ábúðartíma, upphaf og lok ábúðar, fjárhæð, gjalddaga og greiðslustað jarðarafgjalds, hvort ábúandi skuli setja tryggingu fyrir greiðslu jarðarafgjalds og í hvaða formi, aðra ábúðarskilmála, landamerki jarðar, ítök sem jörðin kann að eiga í öðru landi og á afréttum, kvaðir sem kunna að hvíla á jörðinni svo og upplýsingar um starfsemi ábúanda á jörðinni. Þá skal semja um við hvaða dagsetningu miða skal yfirfærslur greiðslna sem fylgja lögbýli. Einnig skulu koma fram í byggingarbréfi upplýsingar um ástand ræktunar og mannvirkja eða tilvísun til slíkra upplýsinga í úttekt. Gera skal þrjú samhljóða frumrit af byggingarbréfi sem jarðareigandi og ábúandi rita nöfn sín undir í viðurvist tveggja vitundarvotta. Heldur jarðareigandi einu eintaki en ábúandi tveimur sem hann skal þinglýsa.1Vef. , http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html (opens in a new tab)" href="http:// http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html" target="_blank">http:// http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html, sótt 25. september 2017.

Umfjöllun um kúgildi á jörðum hefur verið felld niður í þessum lögum, en slíkt var inni í ábúðarlögum nr. 64/1976, 31. maí, sem giltu til ársins 2004.2Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 153 (I. kafli, 4. gr.).

Fram eftir öldum munu slíkir samningar hafa verið gerðir munnlega fyrst og fremst. Í Jónsbók segir:

Ef maður vill annars jörð leiga undir bú sitt, þá skal hann þá jörð taka með tveggja manna vitni skilríkra eða fleiri.3Jónsbók kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1281 og réttarbætr de for Island givne retterböder af 1294 1294, 1305 og 1314. Udgivet efter haandskrifterne ved Ólafur Halldórsson. København 1904, bls. 130.

Í réttarbót Eiríks Magnússonar 15. júlí 1294 segir:

Með handsölum skal jarðir byggja og svo í borgun ganga.4Jónsbók, bls. 281 (1. liður); Lovsamling for Island I, bls. 17.

Staða leiguliða var að vonum ótrygg með þessum hætti. Í konunglegri tilskipun um afnám ýmissa ósiða á Íslandi, 15. maí 1705, en sú tilskipun laut einkanlega að réttindum leiguliða, var öllum landsdrottnum boðið að láta landseta sína fá byggingarbréf, þar sem tilgreindir væru þeir skilmálar, sem eigandi og ábúandi væru ásáttir um, og landseti væri ekki skyldur til þess að gjalda eða gera annað en í byggingarbréfi stæði.5Lovsamling for Island I, bls. 623–624.

Ákvæði um byggingarbréf voru að sjálfsögðu tekin upp í ábúðarlög, þegar þau voru sett með lögum nr. 1/1884, 12. janúar.6Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17. (Um byggingarbréf er fjallað í 2.–4. grein laganna). Um byggingu jarða og byggingarskilmála, landskuldir, kúgildi og kvaðir fjallar Þorvaldur Thoroddsen í riti sínu Lýsing Íslands.7Þorvaldur Thoroddsen, Lýsing Íslands III. Kaupmannahöfn 1919, bls. 30–65.

Í skjalasöfnum presta má finna allnokkuð af byggingarbréfum, sem von er, þar eð þeir höfðu umsjón og afrakstur kirkjujarða í sínum höndum allt til þess, er prestslaunalög nr. 46/1907, 16. nóvember, voru sett, en þá skyldu hreppstjórar taka við byggingu kirkjujarða, þegar prestar gengjust undir launalögin.8Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–295 (8. og 9. gr.). (Sjá annars Tekjur kirkna og klerka).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Vef. , http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html (opens in a new tab)" href="http:// http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html" target="_blank">http:// http://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html, sótt 25. september 2017.
2 Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 153 (I. kafli, 4. gr.).
3 Jónsbók kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1281 og réttarbætr de for Island givne retterböder af 1294 1294, 1305 og 1314. Udgivet efter haandskrifterne ved Ólafur Halldórsson. København 1904, bls. 130.
4 Jónsbók, bls. 281 (1. liður); Lovsamling for Island I, bls. 17.
5 Lovsamling for Island I, bls. 623–624.
6 Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17. (Um byggingarbréf er fjallað í 2.–4. grein laganna).
7 Þorvaldur Thoroddsen, Lýsing Íslands III. Kaupmannahöfn 1919, bls. 30–65.
8 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–295 (8. og 9. gr.).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 201