Dómsvald kirkjunnar og réttargæsla

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 8 mín

Dómsvald og réttargæsla – yfirlit

Samkvæmt fornum lögum höfðu biskupar kirkjulegt lögsöguvald í biskupsdæmum sínum. Náði vald þeirra fyrst og fremst til presta. Annars áttu biskupar aðeins íhlutunarrétt, og leita skyldi til veraldlegra dómstóla í stærri málum vegna presta. Á síðari hluta 12. aldar hóf Þorlákur Þórhallsson, Skálholtsbiskup, baráttu fyrir því að koma á almennum rétti kaþólskrar kirkju, sem var með þeim hætti:

að biskup hafi af guði andlegt vald til andlegra hluta, svo sem konungur veraldlegt vald til veraldlegra hluta.1Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“. Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 14–15. — Í þessum kafla er stuðst við inngang Björns K. Þórólfssonar að skrá um biskupsskjalasafn. Er ýmist tekið upp óbreytt orðalag Björns, hnikað til orðum eða dregið saman.

Enn meiri alvara færðist í þá baráttu á 13. öld og með þeim hætti fékk kirkjan dómsvald í öllum málum, er snertu kristinrétt.2Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 9–16, 18–19; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 48–52, 102, 128–132.

Konungur varð æðsti maður kirkjunnar með siðaskiptum og dómsvald færðist frá biskupum til konungs.3Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 80. Kirkjuskipun Kristjáns III bannaði biskupum að dæma í veraldlegum málum, nema til kvaddir af konungi eða hans mönnum.4Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231. Af eðlilegum ástæðum voru dómsmál mjög á reiki fyrst eftir siðaskipti, mörk milli andlegra og veraldlegra mála ekki glögg og lagaboð vantaði. Reyndin varð sú, að dómsvaldið færðist mjög til veraldlegra yfirvalda.5Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 27–34, 56–59.

Með Stóradómi 1564 fluttist dómsvald í skírlífismálum frá biskupum til veraldlegra dómstóla.6Lovsamling for Island I, bls. 84–90; Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 271–276, 357–360; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 94–96. Erindisbréf Knúts höfuðsmanns Steinssonar árin 1555 og 1556 gera ráð fyrir, að prestar séu sóttir fyrir veraldlegum dómstólum í héraði og á alþingi.7Íslenzkt fornbréfasafn XIII, bls. 11–12, 15, 105, 108. Þar var þó mikilvægari alþingissamþykkt frá 1552 um, að mál milli kennimanna og leikmanna skyldu dæmd af hvoru tveggja valdi.8Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 438–440. Í þessari alþingissamþykkt munu vera rætur svonefndra helmingadóma, sem tíðkuðust mjög á síðara hluta 16. aldar og langt fram á 17. öld í málum, sem snertu bæði klerka og leikmenn. Á alþingi nefndu biskupar og lögmenn helmingadóma, oftast aðeins annar biskupa og annar lögmanna sama dóminn, en stundum var helmingadómur nefndur af öðrum biskupnum og báðum lögmönnum, báðum biskupum og öðrum lögmanna eða báðum biskupum og báðum lögmönnum. Fyrir kom, að höfuðsmaður tók þátt í dómnefnu. Í héraði voru helmingadómar nefndir af biskupi, umboðsmanni hans eða prófasti annars vegar og sýslumanni hins vegar.9Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 96.

Það varð stefnumál Brynjólfs biskups Sveinssonar, er hann tók við Skálholtsbiskupsdæmi, að andleg mál ættu að dæmast af andlegu valdi og önnur mál af veraldlegu valdi. Þótti honum helmingadómar fjalla um mál, sem féllu undir andlegt vald eitt. Svonefndur Vælugerðisdómur, sem dæmdur var í Vælugerði í Flóa 3. júní 1645 og samþykktur á prestastefnu þá um sumarið og eins haustið 1646 að fyrirmælum Brynjólfs biskups, dæmdi presta í Skálholtsbiskupsdæmi undan veraldlegu valdi og undir andlegt vald í andlegum málum. Handhafar andlegs valds voru samkvæmt dómnum biskup og prófastar og höfuðsmaður af konungs hálfu. Voru sýslumenn með þessu dæmdir frá andlegu valdi. Í Vælugerðisdómi voru andleg mál presta talin mál, sem snertu embætti presta, jafnt varðandi afsetningu frá embætti sem minni mál. Öll veraldleg mál presta skyldu hins vegar ganga til veraldlegra dómstóla. Með Vælugerðisdómi lögðust helmingadómar niður í Skálholtsbiskupsdæmi, en helmingadóma er getið í Hólabiskupsdæmi til ársins 1663.10Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28–31; Guðs dýrð og sálnanna velferð. [Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar árin 1639–1674]. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls.74–78; Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar. Bjarni Vilhjálmsson og Júníus Kristinsson sáu um útgáfuna. Reykjavík 1983, bls.30-31. Vælugerðisdómur var síðast samþykktur á Staðarstað haustið 1646. Þar var einnig ályktað, að í málum, sem vörðuðu fulla afsetningu frá kennimannlegu embætti, skyldi standa fyrir 12 presta dómur og dæmast inn fyrir biskup og höfuðsmann (biskup og höfuðsmaður voru æðsta dómsvald). Í málum um frávikningu presta um stundarsakir skyldi standa sex presta dómur með prófastinum. En víkja til ráða og atkvæða biskups, ef sérstaklega stæði á.11Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 121.

Prestastefnudómar biskupsdæmanna voru oftast nefndir konsistorial- eða synodalréttur. Þeir höfðu yfirréttarstöðu í málum, sem undir þá bar, og mátti áfrýja dómum þeirra til hæstaréttar en ekki annarra dómstóla. Biskupar og umboðsmenn stiftamtmanns höfðu forsæti í synodalréttunum til ársins 1770, þegar stiftamtmaður tók við forsæti í synodalrétti Skálholtsbiskupsdæmis, og til ársins 1783 í synodalrétti Hólabiskupsdæmis, þegar amtmaður var skipaður nyrðra. Þegar biskupsdæmið varð eitt, árið 1801, voru biskup og stiftamtmaður forsetar. Frá árinu 1872 var amtmaður í Suður- og Vesturamti í forsæti með biskupi til 1904, þegar dómsstjóri Landsyfirréttar tók við af honum, og hélst svo til ársins 1919.12Einar Laxness, Íslandssaga s–ö, bls. 82–83; Lovsamling for Island I, bls. 741 (5. liður), 784 (8. liður); II, bls. 89–91, 120, 177 (6. liður), 544; III, bls. 54–55, 206–208, 286–287, 629–630, 661 (10. liður); IV, bls. 728–740 (ekki er minnst á synodalréttinn beint í þessu erindisbréfi, e.t.v. er átt við hann meðal annars undir 6. lið, bls. 731–733); V, bls. 381–382 (ágreiningur stiftamtmanns og Skálholtsbiskups um, hvor væri æðri í réttinum); VI, bls. 530–531; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III. Kaupmannahöfn 1875, bls. 458 (niðurlag erindisbréfs landshöfðingja 29. júní 1872, amtmaður tók við embættisstörfum stiftsyfirvalda); Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 38–39 (II. kafli, 2. liður. Samkvæmt 3. lið fékk biskup önnur störf stiftsyfirvalda). Var dómsstjóri í forsæti, en með honum skipuðu dóminn biskup og þrír aðrir vígðir menn, sem dómsstjóri og biskup nefndu.13Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 98.

Synodalréttur var rofinn úr tengslum við prestastefnu með lögum um Hæstarétt nr. 22/1919, 6. október.14Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 41 (3. gr.). Sbr. lög um Hæstarétt nr. 75/1973 (3. gr.), Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 238. Var hann nú í raun annar dómstóll en áður, t.d. skipuðu veraldlegir dómarar meirihluta í dómnum. Synodalréttur var eins og áður æðsti dómstóll í málum biskups og annarra embættismanna þjóðkirkjunnar en kirkjudómur undirréttur.15Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 58–59. Synodalréttur hvarf endanlega með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí, sem tóku gildi 1. janúar 1998. Biskup hefur samkvæmt þeim lögum yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og getur gripið til úrræða, sem lög og kirkjuhefð leyfa, vegna agabrota (11. grein). Hægt er að bera mál, sem varða ágreining á kirkjulegum vettvangi, og siðferðis- eða agabrot starfsmanna þjóðkirkjunnar undir úrskurðarnefnd, sem biskup Íslands skipar til fjögurra ára. Er einn nefndarmanna tilnefndur af leikmönnum á kirkjuþingi, annar af prestastefnu, en formaður skipaður án tilnefningar og sé hann löglærður (12. grein). Niðurstöðu úrskurðarnefndar má skjóta til áfrýjunarnefndar, sem skipuð er þremur löglærðum mönnum, sem fullnægja almennum skilyrðum til þess að vera hæstaréttardómarar, allir skipaðir eftirt tilnefningu Hæstaréttar. Við meðferð einstakra mála skal nefndin skipuð að auki tveimur sérfróðum mönnum, sem nefndin kallar sjálf til starfans (13. grein).16Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 242–243. Þessi ákvæði voru enn í gildi haustið 2017.17Vef. https://www. althingi.is/lagas/147/1997078.html, sótt 25. september 2017.

Prófastsdómur var eins konar undirréttur og var í hverju máli sérstaklega fyrirskipaður af biskupi. Prófastur þess héraðs, þar sem ákærði átti heima, hélt réttinn ásamt meðdómendum, sem hann kvaddi til, og voru það ávallt prestar, að jafnaði héraðsprestar prófasts þess, er var forseti réttarins. Samkvæmt konungsbréfi 20. janúar 1736 var prófastsdómur löglega skipaður, ef meðdómendur voru tveir.18Lovsamling for Island II, bls. 242–244.

Prófastsdómur gat ekki kveðið upp fullnaðardóma, en hafði aðallega rannsóknarvald, þangað til fastri skipan var komið á lögsögu hans með konungsbréfi 1. september 1741, sem upphaflega mun hafa verið gefið út fyrir Danmörku og Noreg, en var látið ná til Íslands.19Lovsamling for Island II, bls. 371–373. Samkvæmt því bréfi átti prófastsdómur að kveða upp dóm í hverju máli, sem höfðað væri gegn andlegrar stéttar manni út af yfirsjónum, sem snertu embætti hans, áður en það mál mætti koma fyrir synodalrétt. Reglur settar í þessu bréfi voru látnar gilda um meðferð allra mála, sem „geistlegir“ dómstólar áttu um að fjalla.

Í tilskipun 27. nóvember 1816 er tekið fram, að mál, sem ekki snerti embættisskyldur andlegrar stéttar manna eða hegðun þeirra í embættisfærslu, skuli ekki teljast andleg mál, heldur eigi að flytja þau og dæma fyrir veraldlegum dómstólum. Þá skyldi héraðsdómari sitja prófastsdóm í „geistlegu“ máli ásamt prófasti og vera skrifari réttarins.20Lovsamling for Island VII, bls. 640–642. Síðar sátu héraðsdómari og prófastur einir prófastsdóma.21Lovsamling for Island VIII, bls. 444–445.

Vald biskups til þess að fyrirskipa prófastsdóm í málum embættismanna andlegrar stéttar hvarf til landshöfðingja með auglýsingu um verksvið landshöfðingja 22. febrúar 1875.22Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 6–7 (4. gr.). Þetta vald féll undir ráðherra árið 1904 með stjórnskipunarlögum nr. 16/1903, 3. október, og lögum nr. 17/1903, 3. október, um aðra skipun á æðstu umboðsstjórn Íslands.23Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 68–77. Dómsmálaráðherra tók við, þegar ráðherrarnir urðu þrír árið 1917.24Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 3. Prófastsdómur var lagður niður með lögum um meðferð opinberra mála nr. 27/1951, 5. mars. Í staðinn kom kirkjudómur, sem tók yfir öll sams konar mál og áður lágu undir prófastsdóm. Dóminn skipuðu héraðsdómari (í Reykjavík sakadómari) og tveir þjónandi þjóðkirkjuprestar.25Stjórnartíðindi 1951 A, bls. 46 (7. gr.). Sbr. lög nr. 74/1974, 21. ágúst (7. gr), Stjórnartíðindi 1974 A, bls. 334. Ákvæði um kirkjudóm héldust óbreytt, þegar gerður var aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði með lögum nr. 92/1989, 1. júní, (9. grein).26Stjórnartíðindi 1989 A, bls. 460. Hann var úr sögunni með lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem tóku gildi 1. júlí 1992, en þar er ekki minnst á kirkjudóm.27Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 40–82.

Um kirkjudóm og synodalrétt segir Páll Sigurðsson, prófessor, í greininni „Straumhvörf í kirkjurétti“, sem birtist í bók hans Lagaslóðir árið 2005:

Kirkjudómur var að nafni til í lögum þar til hann var aflagður með tilkomu laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 7. gr. laga um sama efni nr. 74/1974, eins og hún hljóðaði eftir breytingu með lögum 92/1989, skyldi hlutverk kirkjudóms vera það að fara með refsimál vegna afbrota biskups og presta Þjóðkirkjunnar út af hneykslanlegu framferði þeirra í embættisathöfnum eða einkalífi, enda væri ekki um almenn refsiverð brot að tefla. Forseti kirkjudóms skyldi vera dómstjóri hlutaðeigandi héraðsdóms eða héraðsdómari þar sem dómstjóri væri eigi, en til meðdómenda átti hann að kveðja tvo þjónandi þjóðkirkjupresta. Dómum kirkjudóms mátti skjóta til synódalréttar, sem var æðsti dómstóll í málum, sem að lögum lágu undir kirkjudóm í héraði. Samkvæmt 3. gr. laga 75/1973 um Hæstarétt Íslands, sem var hið síðasta lagaákvæði sem gilti um þennan sérdómstól, skyldu fimm dómarar skipa hann, þ.e. forseti Hæstaréttar sem formaður, tveir hæstaréttardómarar, hinir elstu að embættisaldri, og tveir guðfræðingar, er Hæstiréttur skyldi kveðja til. (Samkvæmt eldri lagafyrirmælum átti biskup einnig sæti í synódalrétti). Með síðari lagabreytingu var synódalréttur lagður niður. Skemmst er frá því að segja, að þessir sérdómstólar í málefnum kirkjunnar þjóna höfðu í reynd verið óvirkir um langa hríð áður en þeir voru formlega aflagðir. Hlutverki þeirra verður heldur ekki, nema að litlu leyti, jafnað til verkefna úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar, sem nú starfa samkvæmt þjóðkirkjulögunum enda skulu þær fjalla um ‘ágreining á kirkjulegum vettvangi’ engu síður en þau mál er varða siðferðis- og agabrot starfsmanna Þjóðkirkjunnar (kirkjudómur skyldi einvörðungu fjalla um mál biskups og presta en ekki annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar). Að sjálfsögðu eru úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd stjórnsýslunefndir en ekki dómstólar — og dómstólaleiðin stendur málsaðilum vitanlega opin eftir sem áður, innan sinna marka.28Páll Sigurðsson, Lagaslóðir. Greinar um lög og rétt. Reykjavík 2005, bls. 193, neðanmáls.

Dómsvald klerka í hjúskaparmálum

Kaþólska kirkjan samþykkti ekki hjónaskilnaði, en afstaða kirkjunnar varð önnur við siðaskipti. Kirkjuskipun Kristjáns III kveður svo á, að biskupar megi vísa frá sér hjúskaparmálum fyrir konung eða lénsmann hans m.a., ef dóm yrði að nefna út um það.29Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231. Í skipun um hjúskaparmálefni 1587 er gert ráð fyrir, að hjúskaparmál komi fyrir konsistorialrétt eða einhvern veraldlegan dóm.30Lovsamling for Island I, bls. 124.

Sú venja mun hafa gilt á Íslandi, að synodalréttir biskupsdæmanna og prófastsdómur í héraði dæmdu í hjúskaparmálum, uns þær reglur voru settar með konungsbréfi 15. febrúar 1788, að framvegis skyldu hjúskaparmál dæmast af sýslumanni, prófasti og tveimur prestum í heimahéraði sækjanda sakar. Málum mátti áfrýja til yfirdóms, sem annars vegar sátu í stiftamtmaður, Skálholtsbiskup og tveir prestar, skipaðir af stiftamtmanni, hins vegar sátu í yfirdómi amtmaður í Norður- og Austuramti, Hólabiskup og tveir prestar, tilnefndir af amtmanni. Þaðan mátti áfrýja til hæstaréttar.31Lovsamling for Island V, bls. 508–510 (sjá einnig bls. 353–354); Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 56.

Hjúskaparmál voru með öllu færð undan dómsvaldi andlegrar stéttar og til veraldlegra dómara með tilskipun 1. desember 1797.32Lovsamling for Island VI, bls. 310–312.

Skiptamál klerka

Hér á landi, sem í öðrum löndum Danakonungs, var sérstakur geistlegur skiptaréttur, þar sem prófastar voru skiptaráðendur. Þessi skiptaréttur tók til dánarbúa presta og prófasta og prestsekkna, sem dóu í ekkjudómi. Synodalréttur hafði dómsvald í málum, sem risu út af slíkum skiptum. Geistlegur skiptaréttur var afnuminn með tilskipun 27. nóvember 1816. Skyldu skipti eftir andlegrar stéttar menn fara fram sem önnur skipti framvegis, þegar þáverandi prófastar létu af embætti eða óskuðu að losna við skiptastörf.33Lovsamling for Island VII, bls. 640–642; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 57.

Svo er að sjá sem margir prófastar hafi skilað skiptabókum sínum til sýslumanna, er skiptaréttarvaldið færðist milli embætta. Voru skipti eftir andlegrar stéttar menn færð inn í þessar bækur fyrst eftir að þau skiptamál voru komin í hendur sýslumanna, a.m.k. á stundum.

Þá virðist sem prófastar hafi fyrrum haldið uppboð, þegar eigur presta voru seldar, því að 13. janúar 1792 fengu stiftamtmaður og báðir biskupar konungleg fyrirmæli um, að framvegis skyldu sýslumenn halda slík uppboð, en Hannes Finnsson, Skálholtsbiskup, hafði spurst fyrir um slíkt hjá kansellíinu.34Lovsamling for Island VI, bls. 3–4.

Skjalatitlar, sem falla undir áðurtalin atriði, þ.e. varða dóms- og skiptamál klerka, eru t.d.:

  • Dómabók klerkdóms.
  • Dómabók klerkdóms, skiptabók og úttekta.
  • Dómsskjöl klerkdóms.
  • Prófastsdómar.
  • Hjónaskilnaðardómar.
  • Hjónabandsmáladómabók.
  • Skiptabók klerkdóms.
  • Skiptaskjöl.

Að auki má telja málsskjöl, sem eru undir ýmsum nöfnum, sér í lagi Skjöl varðandi stað og kirkju í söfnum einstakra prestakalla.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“. Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 14–15. — Í þessum kafla er stuðst við inngang Björns K. Þórólfssonar að skrá um biskupsskjalasafn. Er ýmist tekið upp óbreytt orðalag Björns, hnikað til orðum eða dregið saman.
2 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 9–16, 18–19; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 48–52, 102, 128–132.
3 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 80.
4 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231.
5 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 27–34, 56–59.
6 Lovsamling for Island I, bls. 84–90; Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 271–276, 357–360; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 94–96.
7 Íslenzkt fornbréfasafn XIII, bls. 11–12, 15, 105, 108.
8 Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 438–440.
9 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 96.
10 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 28–31; Guðs dýrð og sálnanna velferð. [Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar árin 1639–1674]. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls.74–78; Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar. Bjarni Vilhjálmsson og Júníus Kristinsson sáu um útgáfuna. Reykjavík 1983, bls.30-31.
11 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 121.
12 Einar Laxness, Íslandssaga s–ö, bls. 82–83; Lovsamling for Island I, bls. 741 (5. liður), 784 (8. liður); II, bls. 89–91, 120, 177 (6. liður), 544; III, bls. 54–55, 206–208, 286–287, 629–630, 661 (10. liður); IV, bls. 728–740 (ekki er minnst á synodalréttinn beint í þessu erindisbréfi, e.t.v. er átt við hann meðal annars undir 6. lið, bls. 731–733); V, bls. 381–382 (ágreiningur stiftamtmanns og Skálholtsbiskups um, hvor væri æðri í réttinum); VI, bls. 530–531; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III. Kaupmannahöfn 1875, bls. 458 (niðurlag erindisbréfs landshöfðingja 29. júní 1872, amtmaður tók við embættisstörfum stiftsyfirvalda); Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 38–39 (II. kafli, 2. liður. Samkvæmt 3. lið fékk biskup önnur störf stiftsyfirvalda).
13 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 98.
14 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 41 (3. gr.). Sbr. lög um Hæstarétt nr. 75/1973 (3. gr.), Stjórnartíðindi 1973 A, bls. 238.
15 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 58–59.
16 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 242–243.
17 Vef. https://www. althingi.is/lagas/147/1997078.html, sótt 25. september 2017.
18 Lovsamling for Island II, bls. 242–244.
19 Lovsamling for Island II, bls. 371–373.
20 Lovsamling for Island VII, bls. 640–642.
21 Lovsamling for Island VIII, bls. 444–445.
22 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 6–7 (4. gr.).
23 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 68–77.
24 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 3.
25 Stjórnartíðindi 1951 A, bls. 46 (7. gr.). Sbr. lög nr. 74/1974, 21. ágúst (7. gr), Stjórnartíðindi 1974 A, bls. 334.
26 Stjórnartíðindi 1989 A, bls. 460.
27 Stjórnartíðindi 1991 A, bls. 40–82.
28 Páll Sigurðsson, Lagaslóðir. Greinar um lög og rétt. Reykjavík 2005, bls. 193, neðanmáls.
29 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231.
30 Lovsamling for Island I, bls. 124.
31 Lovsamling for Island V, bls. 508–510 (sjá einnig bls. 353–354); Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 56.
32 Lovsamling for Island VI, bls. 310–312.
33 Lovsamling for Island VII, bls. 640–642; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 57.
34 Lovsamling for Island VI, bls. 3–4.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 3 af 3 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 155