Björn Karel Þórólfsson, skjalavörður á Þjóðskjalasafni, skilgreindi elstu kirknaskjölin svo:
Skjöl þau, sem við kirkjur geymdust, voru lengi fram eftir öldum einkanlega bréf og gjörningar, sem á þurfti að halda til þess að gæta hagsmuna kirknanna.1Björn K. Þórólfsson, „Íslenzk skjalasöfn“, Skírnir 1953, bls. 116.
Elstu skjöl kirkna eru fyrst og fremst máldagar, sem eru skrár yfir gjafir til einstakra kirkna, réttindi þeirra og eignir. Þeir voru skráðir á laus blöð eða auðar síður í bókum kirknanna, án staðfestingar, því að þeim skyldi lýst á þingi og síðan árlega við kirkju. Upplesturinn var löghelgun, sönnunargildi fólst í vitnisburði um upplesturinn. Biskupar fóru þó allsnemma að safna afskriftum og koma upp máldagasöfnum.2Magnús Már Lárusson, „Máldagi“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XI, dálkar 264–266. Einar Arnórsson, lagaprófessor m.m., hefur skilgreint máldaga þannig:
Í fyrri daga gerðu biskupar eða létu gera skrá yfir allar eignir kirkna, bæði innanstokksmuni þeirra og skrautgripi, eignir þeirra í löndum, kúgildum á jörðum og réttindi yfir löndum annarra manna, svo sem ítök, t.d. rekaréttindi, beit, slægjur, veiðirétt, skógarhögg, selför o.s.frv., er kirkjur áttu í lönd annarra manna, gjaldskyldur, er hvíldu á einstökum mönnum eða jörðum til kirkna o.s.frv. Áttu biskupar að gæta að því á yfirreiðum sínum, að fjárréttindum þessum væri ekki fargað frá kirkjum.3Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 162–163.
Nokkur máldagasöfn biskupa hafa verið löggilt til þess að vernda réttindi kirkna, en allir geta notað máldagana sem sönnunargögn, t.d. varðandi réttindi jarða, þótt þær séu komnar úr kirkjueign.4Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 163–164. Máldagar áttu einnig að kveða á um uppihald klerka, ómagaeldi og annað, sem kostað væri af tekjum kirkju. Einnig átti að gera máldaga um ýmsar aðrar gjafir, sem gefnar voru í kristilegum tilgangi.5Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 196–199.
Skjöl varðandi stað og kirkju eru af mörgum toga spunnin. Fyrst og fremst eru það máldagar, visitasíuafrit, gjafabréf, kaup- og makaskiptabréf, landamerkjabréf, áreiðardómar, vitnisburðir af ýmsu tæi, svo sem um gjafir, landamerki, afnotarétt o.fl., lögfestur, þar sem kirkju var helgað allt það, sem gögn voru til um, að hún ætti og stundum reynt að ganga dálítið lengra í von um, að enginn mótmælti og hefðarréttur næðist, úttektir prestssetra og afhendingar þeirra, brauðamöt, skjöl um kúgildi, innistæðufé kirkna og lambseldi, skjöl um reka kirkna og vertolla og fleiri ítök, þar með afréttarmál, skjöl vegna kirkjujarða og lénsjarða prestakalla fyrir utan það, sem felst í áðurtöldu, svo sem byggingarbréf og úttektir, dómar ýmsir og dómsskjöl, reikningar, þar á meðal byggingarreikningar kirkna, skjöl um afnám kirkna og jafnvel prestakalls, tíundaskjöl og gögn safnaða. Er þó alls ekki allt talið.
Sumir prestar hafa afritað eigna- og réttindaskjöl kirkna sinna í sérstakar bækur, og eru þær nefndar ýmsum nöfnum, svo sem máldagabækur eða eignaskjalabækur. Þá skrifuðu ýmsir slík skjöl upp í kirkjustólana, einkum þá fyrstu, og er þannig varðveitt allmikið af skjölum.
Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörður, hóf söfnun eignaskjala kirkna og máldaga og birti skrá yfir þau í Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II.6Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Skjalasöfn klerkdómsins. Reykjavík 1905–1906, bls. 146–152. Einnig er kafli um þessi skjöl í Skýrslu frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík, sem kom út árið 1917.7Skýrsla frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Reykjavík 1917, bls. 65–157. Þessari söfnun var nokkuð haldið áfram, en skráningin varð fremur laustengd, þar eð skjölin voru geymd í sérstakri geymslu („Steinklefa/Steinku“) með öðrum skjölum, er þóttu hafa sérstakt gildi. Þessi skjöl voru raunar kölluð „Kirknaskjöl“ en skráð með öðrum skjölum, sem í geymslunni voru, í sérstaka skrá („Steinkuskjöl“).
Ekki var laust við, að skjöl, sem vörðuðu jörð, sem kirkja stóð á eða hafði staðið á án þess að eiga nokkuð í jörðinni, væru sett í „Kirknaskjöl“. Sama gat átt við um skjöl varðandi bændahlutann í kirkjustað. Sem dæmi um slíkt má benda á skjöl jarðanna Ásgeirsár í Víðidal8Skýrsla frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík, bls. 150–151. og Húsavíkur í Múlaþingi, sem báðar voru bændaeignir, en kirkjan átti aðeins 15 hundruð í Ásgeirsá en aftur á móti helming í Húsavík. Þess háttar skjöl virðast betur eiga heima í „Jarðaskjölum“, sem eru sérstakt safn skjala í Þjóðskjalasafni vegna einstakra jarða um land allt, flokkað eftir sýslum. Einnig eru dæmi þess, að skjöl úr embættisskjalasöfnum, t.d. biskupsskjalasafni, hafi verið sett í þessi kirknaskjöl, þótt þau væru merkt bréfadagbókarnúmerum biskupsskjalasafns. Væntanlega hefur það verið gert til þess að létta heimildaleit vegna ágreinings um landamerki og réttindi jarða og kirkna. Nokkuð hefur verið reynt að greiða úr þessu með því að koma skjölum á sinn fyrri stað, en skilja eftir ljósrit meðal kirknaskjalanna. Ýmis skjöl hafa einnig verið sett í „Jarðaskjöl“, því að þar virtust þau eiga betur heima og auðfundnari þeim, sem þeirra leituðu.
Við flokkun skjalasafna prestakalla lenda skjöl um stað og kirkju í aðalflokki „A. Kirkjan og presturinn“, en það fer að öðru leyti eftir aðalefni þeirra, í hvaða undirflokk þau fara. Skjöl þau, sem Jón Þorkelsson dró saman og síðar aðrir að fordæmi hans, eru skráð sem ein eining í skjalasafni viðkomandi prestakalls, en ekki greind sundur, þar eð hinn upphaflegi uppruni einstakra skjala er óviss.
Í starfsreglum um kirkjur og safnaðarheimili, sem auglýstar voru 8. nóvember 2000 og tóku gildi 1. janúar 2001, segir í 14. grein, að biskup setji hverri kirkju máldaga, kirkjuskrá, þar sem greina skuli eignir kirkju, tekjustofna og réttindi, kvaðir, er á kirkju kynnu að hvíla, sóknarmörk og þjónusturétt, sem sóknin ætti tilkall til. Máldagann og breytingar á honum skyldi skrá í sérstaka bók, máldagbók, löggilta af biskupi. Öðrum guðshúsum skyldi einnig setja máldaga. Sóknarnefnd varðveiti máldagabók og beri ábyrgð á, að máldagi greini jafnan frá eignum og réttindum kirkju. Í máldagabók skyldi einnig skrá eins haldgóðar upplýsingar og völ væri á um kirkjuna, byggingarsögu, endurbætur, viðhald, búnað og kirkjumuni, er kirkjan ætti. Biskup og prófastar eiga að kanna máldaga, þegar þeir vísitera, árita bækurnar og gera athugasemdir, ef þörf krefur. Máldagar, sem nefndir eru í erindisbréfi biskupa 1. júlí 1746 (16. grein) og konungsbréfi 5. apríl 1749, giltu svo sem tíðkast hefði. Eldri máldaga skyldi eftir föngum skrá í máldagabók, sbr. 15. grein sömu starfsreglna.9Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2307–2308; Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2000/12, sótt 29. september 2017. Þessar nýju máldagabækur mundu falla undir sama skjalaflokk og kirkjustólar og skjöl varðandi stað og kirkju. Nokkrar breytingar voru gerðar á þessum starfsreglum árið 2002.10Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2002/13, sótt 27. september 2017.
Tilvísanir
↑1 | Björn K. Þórólfsson, „Íslenzk skjalasöfn“, Skírnir 1953, bls. 116. |
---|---|
↑2 | Magnús Már Lárusson, „Máldagi“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XI, dálkar 264–266. |
↑3 | Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 162–163. |
↑4 | Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 163–164. |
↑5 | Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 196–199. |
↑6 | Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Skjalasöfn klerkdómsins. Reykjavík 1905–1906, bls. 146–152. |
↑7 | Skýrsla frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík. Reykjavík 1917, bls. 65–157. |
↑8 | Skýrsla frá Þjóðskjalasafninu í Reykjavík, bls. 150–151. |
↑9 | Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2307–2308; Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2000/12, sótt 29. september 2017. |
↑10 | Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2002/13, sótt 27. september 2017. |