Endurritabækur

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Í erindisbréfi biskupa 1. júlí 1746 (31. gr.) var biskupum boðið að láta presta sína halda sérstakar bækur yfir konunglegar tilskipanir, acta synodalia (prestastefnugerninga, sjá Acta synodalia) og umburðarbréf biskupa, sem öll skyldu í heild sinni skráð í sérstakar bækur, sem átti að varðveita með öðrum skjölum viðkomandi kirkju og hver prestur afhenda eftirmanni sínum.1Lovsamling for Island II, bls. 657. Slíkar bækur eru hér nefndar endurritabækur. Þetta er einnig tekið fram í 29. grein erindisbréfsins.2Lovsamling for Island II, bls. 657. Ekki munu prestar hafa bundið sig við biskupsbréf einvörðungu heldur einnig skrifað upp prófastabréf í bækur sínar. Ákvæðum erindisbréfsins hefur fyrir löngu verið breytt, þannig að ekki þarf lengur að halda saman konunglegum tilskipunum eða lagaboðum, sem komu í stað þeirra.

Þessar bækur hafa oft verið nefndar kopíubækur, en það nafn var líka notað um bréfabækur (sérstaklega af æðri stjórnvöldum og veraldlegum embættismönnum, sjá Bréfabók) og í eldri skrám er enginn greinarmunur gerður þar á og blandað saman bréfabókum og endurritabókum, sem skildar eru að í skrá yfir skjalasöfn presta og prófasta.

Færsla endurritabóka mun yfirleitt niður fallin, enda grundvöllur þeirra fyrir löngu brostinn, því að hver prestur fær send afrit af dreifibréfum/umburðarbréfum biskups og öðrum þeim gögnum, sem tilhlýðilegt þykir, að prestar haldi saman og styðjist við í starfi sínu, þó að eftirfarandi klausa úr 31. grein í erindisbréfi biskupa sé enn (2017) í gildi:

Biskup skal sjá um, að prestar haldi réttilega skrá yfir: a. … acta synodalia, umburðarbréf biskupa, er öll skulu í heild sinni skráð.3Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 25. september 2017.

Þess eru dæmi, að endurritabækur komi að góðum notum. Hólabiskupar voru ekki alltaf nákvæmir í embættisfærslu. Leiðbeiningar Jóns Teitssonar um skýrslugerð árið 1781 og leiðbeiningar um færslu prestsþjónustubóka, sem Árni Þórarinsson sendi frá sér árið 1784, eru t.d. ekki færðar í bréfabækur þeirra, en þær má finna í endurritabókum presta á Norðurlandi. Þá má styðjast við endurritabækur, ef menn vilja endurgera glataðar bréfabækur prófasta eða leita heimilda um efni þeirra.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island II, bls. 657.
2 Lovsamling for Island II, bls. 657.
3 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 25. september 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 132