Lengi eftir siðaskipti héldu biskupar prestastefnur að hætti kaþólskra forvera sinna, án þess að föstum reglum væri bundið, hversu oft þær skyldu háðar. Það hafði einnig tíðkazt frá fornu fari, að prófastar héldu prestastefnur í umboði biskupa, eftrir því, sem verkast vildi. En Oddur biskup Einarsson lagði fyrir prófasta í Skálholtsbiskupsdæmi 1593, að þeir skyldu árlega halda prestastefnur hver í sínu prófastsdæmi.1Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 29–30.
Bæði Brynjólfur biskup Sveinsson og Þórður biskup Þorláksson háðu héraðsprestastefnur, einkum í visitazíuferðum sínum, og létu þar ganga dóma. Ekki sátu veraldlegir valdsmenn þær prestastefnur.2Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 30–31.
Brynjólfur Sveinsson (1639–1674) hélt ýmsar héraðsprestastefnur utan visitasíuferða. Hér skulu nefndar þessar: Vælugerðisdómur árið 1645, þar sem prestar voru dæmdir undan veraldlegum dómum í andlegum málum, var dæmdur á slíkri prestastefnu. Árið 1646 var haldin héraðsprestastefna á Bakkárholti í Ölfusi, þar sem dæmt var um kristileg fríheit hjóna og prestslega þjónustu í Þorlákshöfn um vertíðina.3Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 74–78, 105–109. — Þórður Þorláksson (1674–1697) hélt einnig slíkar prestastefnur utan visitasía.4Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 164–172, 319–325. Hins vegar verður ekki séð að Jón Vídalín (1698–1720) hafði gert slíkt.5Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar. Prestastefnudómar Jóns biskups Vídalíns árin 1698–1720. Már Jónsson og Skúli S. Ólafsson tóku saman. Reykjavík 2006.
Hólabiskuparnir Þorlákur Skúlason (1628–1656) og Gísli Þorláksson (1657–1684) gerðu nokkuð af því að halda prestastefnur fyrir fleiri en eitt prófastsdæmi sameiginlega og einnig fyrir einstök prófastsdæmi. Björn Þorleifsson Hólabiskup (1697–1710) hélt einnig nokkrar héraðsprestastefnur.6Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 31–32. Gísli Þorláksson og prófastar í umboði hans héldu slíkar prestastefnur um hjónabandsmál, umsteypingu kirkjuklukkna, lóðarfiska í Náttfaravíkum, prófastskjör, óvilja til hjónavígslu eftir festar, sakramentisfrávísun, galdramál og framfærslu örvasa prests svo nokkuð sé nefnt.7Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar. Reykjavík 1983, bls. 15–17, 21–22, 36–37, 43–49, 89–95, 104–105.
Þessar svæðisbundnu prestastefnur biskupa munu hafa kallast conventus pastorum8Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 140–141. gagnstætt synodus generalis, almennum prestastefnum, þar sem fulltrúar presta úr hvoru biskupsdæmi fyrir sig áttu að mæta. Héraðsprestastefnur prófasta, synodus provincialis, virðast oft hafa verið nokkurs konar dómþing. Þá munu hafa þurft að mæta a.m.k. sex prestar að prófasti meðtöldum, svo að dómsúrskurður yrði gildur.
Í upphafi voru nefnd fyrirmæli Odds Einarssonar Skálholtsbiskups (1589–1630) um héraðsprestastefnur prófasta. Prestastefnur hans má finna í dómasyrpum á handritadeild Landsbókasafns. Við leit að þeim má styðjast við samantekt Hannesar Þorsteinssonar um Odd í Æfum lærðra manna.9Þjóðskjalasafn Íslands: Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna A/44-1. Allnokkur dæmi um mál, sem tekin voru fyrir á héraðsprestastefnum, má finna í prestastefnubókum Skálholtsbiskupa. Meðal þeirra má nefna: Héraðsprestastefnu árið 1655 um barneign prests, 1656 um ofbeldi prests, viðskilnað prests við prestssetrið 1657, siðferðisbrot prests 1672, hneykslanlega sambúð, 1673, falsbréf 1656.10Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 189, 194, 219–220, 339, 353–355. Héraðsprestastefnur árið 1679 um hjónaskilnað og galdraáburð á prest, 1681 um hórdóm og hjónaskilnað, um uppbyggingu kirkju 1695 og Kríumálið árin 1692 og 1693, en prestur einn hafði ritað nafn konungs Chrian í stað Christian.11Eftir skyldu míns embættis. bls. 87–89, 100, 242, 310, 319–320. Héraðsprestastefnur voru haldnar um vanrækt í sáluhjálparefnum og prestskaup af bændakirkju árið 1711, ofbeldi prests gegn sýslumanni árið 1715, framferði prests árið 1719 og vínbrest kirkju árið 1720.12Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 140–141, 226–227, 240–241, 248. Ýmsar aðrar málagerðir mætti nefna, en flest málin munu varða hórdómsbrot, þegar krafist var hjónaskilnaðar og prestastefna á alþingi kvað upp lokaúrskurð, eða mál, sem tengdust prestum. Vilji menn leita uppi slík mál í prentuðum prestastefnubókum, er helst að svipast eftir atriðisorðunum héraðsprestadómur eða héraðsprestastefna.
Gera verður mun á synodus generalis, almennum prestastefnum, sem biskupar héldu og fulltrúar presta úr öllum prófastsdæmum áttu að mæta, og synodus provincialis, héraðsprestastefnum, þar sem prestar úr viðkomandi prófastsdæmi mættu, stundum einnig úr öðrum prófastsdæmum til uppfyllingar vegna dómsmannafjölda.
Ef ráða má af Héraðsbók Halldórs Jónssonar prests og prófasts í Reykholti (1657–1704), hefur hann ekki gert mikið af því að halda héraðsprestastefnur: Árið 1673 stefndi hann prestum til fundar um hneykslanlegar samvistir fólks, árin 1677 og 1684 um hórdómsmál.13ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1, Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699, bl. 184r, 208v–209v, 215r og 282r–283v. Hannes Halldórsson, einnig prestur og prófastur í Reykholti (1704–1731), hélt héraðsprestastefnu til prófastskosningar 1704. Árin 1705, 1706 og 1715 stefndi hann prestum til prestastefnu í Mýraprófastsdæmi til þess að fylla dómsmannatölu vegna þess að prestar voru við málin riðnir, árin 1712 og 1715 stefndi hann saman prestum vegna tregðu manns við að ganga í hjónaband, árin 1714 og 1731 vegna hórdóma og hjónaskilnaða, árin 1727–1728 vegna ágreinings manns og prests hans.14ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1748, bl. 1r–2r, 14v–15r, 44v–45r, 108r–v, 115v–116r, 200r–201v, 300v–301v, 310r–311v, 354v–355r. Samvistamálið frá 1673 kom fyrir alþingisprestastefnu vegna heimildar hinna seku til altarisgöngu.15Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 353–355. Vegna eiðfalls karlmannsins fór hórdómsmálið árið 1677 fyrir alþingisprestastefnu og hann dæmdur þar undir opinbera aflausn.16Eftir skyldu mín embættis, bls. 66–68. Hórdómsmálið 1684 kom einnig fyrir alþingisprestastefnu, eiginkonan krafðist skilnaðar. 17Eftir skyldu mín embættis, bls. 120–121. Málin úr Mýraprófastsdæmi árin 1705 og 1715 voru tekin fyrir á alþingisprestastefnum, prestar voru aðilar beggja mála.18Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 104, 207–209. Giftingartregðumálið frá árunum 1712 og 1715 kom einnig fyrir alþingisprestastefnur.19Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar bls. 176–177, 207. Hórdómsmálið frá 1714 fór fyrir alþingisprestastefnu, væntanlega vegna skilnaðarkröfu og sömuleiðis málið frá 1731.20Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 196; ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, bl. 373v.
Um dómsvald klerka í hjúskaparmálum segir í Dómsvald kirkjunnar og réttargæsla í Orðabelg Þjóðskjalasafns:
Kaþólska kirkjan samþykkti ekki hjónaskilnaði, en afstaða kirkjunnar varð önnur við siðaskipti. Kirkjuskipun Kristjáns III. kveður svo á, að biskupar megi vísa frá sér hjúskaparmálum fyrir konung eða lénsmann hans m.a., ef dóm yrði að nefna út um það.21Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231. Í skipun um hjúskaparmálefni 1587 er gert ráð fyrir, að hjúskaparmál komi fyrir konsistorialrétt eða einhvern veraldlegan dóm.22Lovsamling for Island I, bls. 124.
Sú venja mun hafa gilt á Íslandi, að synodalréttir biskupsdæmanna og prófastsdómur í héraði dæmdu í hjúskaparmálum, uns þær reglur voru settar með konungsbréfi 15. febrúar 1788, að framvegis skyldu hjúskaparmál dæmast af sýslumanni, prófasti og tveimur prestum í heimahéraði sækjanda sakar.23Lovsamling for Island V, bls. 508–510 (sjá einnig bls 353–354); Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 56.
Heimildir um héraðsprestastefnur í skjalasöfnum prófasta eru heldur óljósar. Sérstakar dómabækur og dómsskjöl eru varðveitt úr nokkrum prófastsdæmum. Meðal skjala og skjalabóka, þar sem leita má heimilda um héraðsprestastefnur og héraðsprestastefnudóma og önnur mál, sem prófastar komu að, eru þessi, talin eftir prófastsdæmum:
Rangárvallaprófastsdæmi: EA/1–3: Dómabók klerkdóms 1751–1797, dómabók klerkdóms, skiptabók og úttekta 1740–1782, dómsskjöl klerkdóms 1751–1819.
Borgarfjarðarprófastsdæmi: AC/1–2: Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699, Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti og endurrita- og bréfabók Finns Jónssonar 1704–1748.
Mýraprófastsdæmi EA/1: Prófastsdómar 1732, 1777 og 1798.
Dalaprófastsdæmi EA/1–2: Dómsskjöl klerkdóms 1752–1781. (Þar er í um mál séra Ólafs Gíslasonar), skjöl í málum séra Eggerts Jónssonar á Ballará 1820–1843.
Barðastrandarprófastsdæmi EA/1: Dómabók klerkdóms 1790–1787.
Vestur-Ísafjarðarprófastsdæmi AC/1–2: Skjalabók prófastanna Jóns Jónssonar og Sigurðar Jónssonar í Holti í Önundarfirði, er inniheldur forn bréf, máldaga, visitasíur og gerninga 1333–1708, Skjalabók Sigurðar Jónssonar í Holti í Önundarfirði, er inniheldur forn bréf, máldaga, visitasíur og gerninga 1484–1731.
Skagafjarðarprófastsdæmi EA/1: Dómabók klerkdóms 1771–1785.
Eyjafjarðarprófastsdæmi EA/1: Hjónaskilnaðardómar 1753–1782.
Þingeyjarprófastsdæmi AA/7: Visitasíu- og synodalbók 1756–1760 (byrjar sem synodi provincialis dómabók árið 1756).
EA/1 Norðursýslu hjónabandsmáladómabók 1790–1794.
Þá má nefna héraðsprestastefnur í:
Skjalasafn Öxarárþings: Thott 2110 4to. Þar eru dómar í hjónabandsmálum úr Húnaþingi frá árunum 1734 og 1735.
Vilji menn gera frekari leit að héraðsprestastefnum, a.m.k. þeim, þar sem málin fóru til almennrar prestastefnu (synodo generali), er helst að bera niður í prestastefnubókum Skálholts- og Hólabiskupa, bréfabókum þeirra og bréfum til þeirra.
Tilvísanir
↑1 | Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 29–30. |
---|---|
↑2 | Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 30–31. |
↑3 | Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 74–78, 105–109. |
↑4 | Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 164–172, 319–325. |
↑5 | Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar. Prestastefnudómar Jóns biskups Vídalíns árin 1698–1720. Már Jónsson og Skúli S. Ólafsson tóku saman. Reykjavík 2006. |
↑6 | Björn Karel Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 31–32. |
↑7 | Prestastefnudómar og bréfabók Gísla biskups Þorlákssonar. Reykjavík 1983, bls. 15–17, 21–22, 36–37, 43–49, 89–95, 104–105. |
↑8 | Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 140–141. |
↑9 | Þjóðskjalasafn Íslands: Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna A/44-1. |
↑10 | Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 189, 194, 219–220, 339, 353–355. |
↑11 | Eftir skyldu míns embættis. bls. 87–89, 100, 242, 310, 319–320. |
↑12 | Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 140–141, 226–227, 240–241, 248. |
↑13 | ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1, Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699, bl. 184r, 208v–209v, 215r og 282r–283v. |
↑14 | ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1748, bl. 1r–2r, 14v–15r, 44v–45r, 108r–v, 115v–116r, 200r–201v, 300v–301v, 310r–311v, 354v–355r. |
↑15 | Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 353–355. |
↑16 | Eftir skyldu mín embættis, bls. 66–68. |
↑17 | Eftir skyldu mín embættis, bls. 120–121. |
↑18 | Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 104, 207–209. |
↑19 | Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar bls. 176–177, 207. |
↑20 | Í nafni heilagrar guðdómsins þrenningar, bls. 196; ÞÍ. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2, bl. 373v. |
↑21 | Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 231. |
↑22 | Lovsamling for Island I, bls. 124. |
↑23 | Lovsamling for Island V, bls. 508–510 (sjá einnig bls 353–354); Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 56. |