Húsameistari ríkisins

Síðast breytt: 2025.03.17
Slóð:
Áætlaður lestími: 4 mín

Upphaf embættis Húsameistara ríkisins má rekja til þess, að í fjárlögum fyrir árin 1906–1907 var ákvæði um 800 króna styrk, hvort ár, til byggingarfróðs manns til þess að leiðbeina við húsabyggingar.1Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 74. Í athugasemdum með fjárlagafrumvarpinu sagði, að biskup (þ.e. Hallgrímur Sveinsson) hefði borið sig upp undan því, að hvorki stiftsyfirvöld2Stiftsyfirvöld fóru með yfirstjórn kirkjumála til hausts 1904, sjá Stiftsyfirvöld í Orðabelg Þjóðskjalasafns. eða hann nú hefðu átt kost á auðsynlegri aðstoð manna með verklega sérþekkingu í húsagerð, þegar afgreiða hefði átt, hvort prestar fengju leyfi til þess að taka embættislán upp á prestaköllin til margvíslegra húsabóta á stöðunum (þ.e. prestssetrunum) eins og nú væri farið að tíðkast. Biskup hefði einnig bent á, að hingað til hefði verið stakasta regluleysi á flestum kirkjubyggingum á landinu. Kirkjur væru byggðar að heita mætti eftirlitslaust. Þetta ástand væri óþolandi, þar sem í raun ætti ekki að mega byggja kirkju, nema kirkjustjórnin3Biskup og ráðherra. hefði samþykkt uppdrátt með tilheyrandi skýringum og kostnaðaráætlun. Lagði biskup til, að árlega yrði veittur 1.000–1.200 króna styrkur til byggingarfróðs manns og nefndi Rögnvald Ólafsson4Rögnvaldur Á. Ólafsson húsameistari varð byggingarráðunautur landsstjórnarinnar. sem hæfan mann til þess að vera ráðunautur landsstjórnarinnar í þessum efnum.5Alþingistíðindi 1905 A, bls. 67–68. Sjá og bréf biskups til Stjórnarráðsins 20. febrúar 1905, ÞÍ. Biskupsskjalasafn Bps. C. III. 74, bls. 393–395.

            Átta hundruð króna styrkur hvort ár til byggingarfróðs manns hélst óbreyttur á fjárlögum fyrir árin 1908–1909 en hækkaði upp í 1.600 krónur árlega á fjárlögum 1910–1911 og þá til byggingarfróðs manns til þess að leiðbeina við kirkju- og barnaskólabyggingar, sem einnig hélst á fjárlögum áranna 1912–1913.6Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 104; Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 92; Stjórnartíðindi 1911A, bls. 96. Á næstu fjárlögum, 1914–1915, var styrkurinn orðinn 2.500 krónur til þess að leiðbeina við opinberar byggingar og einnig fékk byggingarfróði maðurinn styrk allt að 400 krónum fyrir skoðanir húsa á prestssetrum.7Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 87. Hvort tveggja hélst óbreytt á fjárlögum áranna 1916–1917 og 1918–1919.8Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 73; Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 192.

            Þessir liðir héldust inni í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1920 og 1921, sem lagt var fyrir Alþingi sumarið 1919, en voru felldir niður í breytingartillögu efri deildar. Vísaði framsögumaður til þess, að fastur byggingarfræðingur væri nú fenginn fyrir ríkið. (Nefndi raunar ranga greinartölu eða 15. grein í stað 16. greinar.) Í nefndaráliti sömu deildar voru þessir liðir taldir óþarfir, því að fullkominn byggingarmeistari væri eða yrði þegar ráðinn í þjónustu landsins, sem tæki laun eftir launalögum, og honum hlyti að verða falin þau störf, sem um ræddi í þessum liðum.9Alþingistíðindi 1919 A, bls. 37, 1604 (49. og 50. liður), 1632–1633; Alþingistíðindi 1919 B, dálkur 430, sbr. dálk 457. — Ekki verður séð, að ráð hafi verið gert fyrir greiðslu til þessa byggingameistara í fjárlögunum sjálfum.

            Stjórnarfrumvarp um laun embættismanna var lagt fyrir Alþingi árið 1919.10Alþingistíðindi 1919 A, bls. 261–299. Ekki var minnst á húsameistara í upphaflega frumvarpinu, en samvinnunefnd beggja deilda gerði þá breytingu við 17. grein frumvarpsins, að í stað: „Vegamálastjóri og vitamálastjóri“ kæmi: Vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari.11Alþingistíðindi 1919 A, bls. 993, 27. liður. Um þetta sagði framsögumaður nefndarinnar:

Hvað 17. gr. viðvíkur er bætt inn nýjum starfsmanni, sem sje húsameistara. Stjórnin hafði ráðið Guðjón Samúelsson, sem fullnuma er í byggingafræði, til að sjá um húsabyggingar ríkisins fyrir þessi laun, og þar sem nefndinni þótti þetta vel ráðið, þegar tekið er tillit til þess, að slík vinna er vel borguð, og hins vegar full þörf hennar, leggur hún til, að stofnað verið fast embætti handa þessum manni, með þeim launum er í greininni segir.12Alþingistíðindi 1919 B, dálkur 1114.

Lög nr. 71/1919 um laun embættismanna voru staðfest 28. nóvember 1919 með ákvæðum um byrjunarlaun og launahækkanir vegamálastjóra, vitamálastjóra og húsameistara, 5.000 krónur á ári.13Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 222, 17. grein.

            Rögnvaldur Á. Ólafsson byggingaráðunautur landsstjórnarinnar lést snemma árs 1917. Aðstoðarmaður hans, Einar Erlendsson, tók þá við embættinu um skeið. Talið er, að jafnframt hafi verið samið við Guðjón Samúelsson um, að hann lyki námi sem arkitekt og yrði þá byggingingarráðunautur stjórnarinnar. Guðjón starfaði sem ráðunautur ríkisins um opinberar byggingar frá 1. maí 1919 og skipaður húsameistari ríkisins 20. apríl 1920.14Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1780–1940, Reykjavík 1998, bls. 157, 195, 344; Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson húsameistari, Reykjavík 2020, bls. 64, 87; ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I, B/247, örk 2.

            Fjáraukalög fyrir árin 1920 og 1921 kváðu á um greiðslu til aðstoðarmanns húsagerðarmeistara 1921 8.312 krónur og 50 aura.15Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 168. Laun húsagerðarmeistara og aðstoðarmanns hans komu síðan fram á fjárlögum fyrir árið 1922.16Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 264. Þessar greiðslur voru undir fjárlagalið, sem nefndist „til verklegra fyrirtækja“, síðast á fjárlögum ársins 1943.17Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 48.

Húsameistari ríkisins fór undir liðinn „Til ýmissa rannsókna í opinbera þágu o.fl.“ af fé því, sem veitt var „Til bókmennta, lista og vísinda“ á fjárlögum fyrir árið 1944.18Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 304. Hélst það til og með fjárlögum ársins 1958.19Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 336. Fjárlög ársins 1959 settu Húsameistara ríkisins undir Dómsmálaráðuneytið og var svo enn í fjárlögum fyrir árið 1970.20Stjórnartíðindi 1959 A, bls. 40; Stjórnartíðindi 1969 A, bls. 470 Embætti Húsameistara ríkisis fór undir Forsætisráðuneytið árið 1970 samkvæmt lögum um Stjórnaráð Íslands nr. 73/1969 og auglýsingu um staðfestingu reglugerðar um Stjórnarráðið birtist í árslok, nr. 96/1969.21Stjórnartíðindi 1969 A, bls. 325–327, 401–407 (2. grein.

Reglugerð fyrir Húsameistara ríkisins var sett 16. ágúst 1973. Verksviðið var annars vegar umsjón með tilteknum opinberum byggingum, hins vegar frumathugun og áætlunargerð varðandi opinberar byggingar, eftir því sem um semdist milli Húsameistaraembættisins og eignaraðila.22Stjórnartíðindi 1973 B, bls. 494.

Eftir þetta hélst Húsameistari ríkisins undir Forsætisráðuneytið á fjárlögum, meðan embættið starfaði. Reglugerðin um Húsameistara ríkisins var numin úr gildi frá og með 1. janúar 1997.23Stjórnartíðindi 1997, bls. 55.

Skjala- og teikningasafn Húsameistara ríkisins er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.

Teikningar frá Rögnvaldi Á. Ólafssyni byggingarráðunaut landsstjórnarinnar má finna í Teikninga- og kortasafni Þjóðskjalasafns Íslands.

Einnig skal bent á heimildir um Húsameistara ríkisins í skjalasafni I. skrifstofu Stjórnarráðsins í Þjóðskjalasafni Íslands. Þar er rangt farið með í skráningunni 0–010 B/247 (örk 2), þegar sagt er, að skjölin séu frá árunum 1923–1924, þau ná allt frá árinu 1919. Þá má finna skjöl tengd Húsameistara ríkisins í skjalasafni Fjármálaráðuneytisins í Þjóðskjalasafni Íslands: ÞÍ. Húsameistari ríkisins 1997-72.

(Heimildir: Björn G. Björnsson, Fyrsti arkitektinn: Rögnvaldur Á. Ólafsson og verk hans, Reykjavík 2016; Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1780–1940, Reykjavík 1998; Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson húsameistari, Reykjavík 2020.)

Árið 2015 var komið upp ráðuneytisstofnuninni Húsameistari ríkisins í Forsætisráðuneytinu. Skyldi hún annast fasteignir Stjórnarráðsins, fasteignir Forsætisráðuneytisins og embættis forseta Íslands. — Það er allt önnur saga, sem hér verður ekki fjallað um.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 74.
2 Stiftsyfirvöld fóru með yfirstjórn kirkjumála til hausts 1904, sjá Stiftsyfirvöld í Orðabelg Þjóðskjalasafns.
3 Biskup og ráðherra.
4 Rögnvaldur Á. Ólafsson húsameistari varð byggingarráðunautur landsstjórnarinnar.
5 Alþingistíðindi 1905 A, bls. 67–68. Sjá og bréf biskups til Stjórnarráðsins 20. febrúar 1905, ÞÍ. Biskupsskjalasafn Bps. C. III. 74, bls. 393–395.
6 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 104; Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 92; Stjórnartíðindi 1911A, bls. 96.
7 Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 87.
8 Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 73; Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 192.
9 Alþingistíðindi 1919 A, bls. 37, 1604 (49. og 50. liður), 1632–1633; Alþingistíðindi 1919 B, dálkur 430, sbr. dálk 457.
10 Alþingistíðindi 1919 A, bls. 261–299.
11 Alþingistíðindi 1919 A, bls. 993, 27. liður.
12 Alþingistíðindi 1919 B, dálkur 1114.
13 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 222, 17. grein.
14 Hörður Ágústsson, Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1780–1940, Reykjavík 1998, bls. 157, 195, 344; Pétur H. Ármannsson, Guðjón Samúelsson húsameistari, Reykjavík 2020, bls. 64, 87; ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I, B/247, örk 2.
15 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 168.
16 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 264.
17 Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 48.
18 Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 304.
19 Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 336.
20 Stjórnartíðindi 1959 A, bls. 40; Stjórnartíðindi 1969 A, bls. 470
21 Stjórnartíðindi 1969 A, bls. 325–327, 401–407 (2. grein.
22 Stjórnartíðindi 1973 B, bls. 494.
23 Stjórnartíðindi 1997, bls. 55.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 5