Landnám ríkisins

Síðast breytt: 2025.03.13
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Lög um Landnám ríkisins, nr. 58, voru sett árið 1941.1Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 80–81. Þau heimiluðu ríkisstjórninni að láta framkvæma landnám við þorp og kaupstaði og í sveitum. Landnámið væri í því fólgið, að ríkið léti á sinn kostnað undirbúa til ræktunar og rækta land, þar sem góð skilyrði væru til samfelldrar ræktunar og góðrar lífsafkomu. Landnám skyldi fara fram á landi, sem ríkið ætti, og heimilt væri að kaupa land í þessu skyni. Nýbýlastjórn hefði framkvæmdina á hendi með aðstoð Búnaðarfélags Íslands og skipulagsnefndar kauptúna. (Um Nýbýlastjórn sjá 5. grein laga nr. 68/1941 um breytingar á Byggingar- og landnámssjóði.2Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 92–94.) Teiknistofa landbúnaðarins átti að annast aðstoð og eftirlit með byggingaframkvæmdum á býlum, sem reist yrðu samkvæmt lögunum.

Ný, ítarleg lög um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum voru sett árið 1946, nr. 35.3Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 60–69. Nýbýlastjórn, skipuð 5 mönnum kosnum af sameinuðu Alþingi, fór með stjórn landnámsmála undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra og réð sér framkvæmdastjóra, landnámsstjóra (2. grein). Landnám skyldi fara fram á landi, sem væri eign ríkisins, bæjar-, sveitar- eða byggðarfélaga.4Orðið byggðarfélag virðist samkvæmt þessum lögum og reglugerð frá árinu 1950 vísa til þess, að þar sé um að ræða samvinnubúskap. Síðar í sömu lögum (31. grein) er talað um skyldu ábúenda í byggðarhverfi til þess að stofna byggðarfélag. Byggðarhverfi var samkvæmt 27. grein laganna minnst 5 býli, þar sem framkvæmdir við ræktun og byggingar væru gerðar eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Frekari skilgreiningu á byggðarfélagi má finna í 57. grein reglugerðar um framkvæmd laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Sjá Stjórnartíðindi 1950 B, bls. 79–93. Keypt skyldi land, þar sem þess væri þörf, og heimilt að taka jarðir eignarnámi, sem ekki væru í sjálfsábúð eða erfðaábúð, og einnig landspildur af jörðum, sem gætu verið án þeirra (6. grein). Nýbýlastjórn skyldi skipa 3 manna nefnd innan hverrar sýslu, sér og landnámsstjóra til aðstoðar og ráðuneytis (11. grein). Mynda skyldi Byggingarsjóð úr Byggingar- og Nýbýlasjóðum Búnaðarbanka Íslands og Smábýladeild hans, sem lánaði til endurbygginga íbúðarhúsa á sveitabýlum og byggingar íbúðarhúsa og peningshúsa í byggðarhverfum og á nýbýlum. Búnaðarbankinn annaðist framkvæmdastjórn sjóðsins og bankastjórinn ákvæði lánveitingar, III. kafli.

Ný lög um sama efni komu árið 1952, nr. 2.5Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 21–31. Hér verða ekki raktar breytingar, sem þar komu fram. Sams konar lög, nr. 48/1957,6Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 163–178. segja í 4. grein, að stofnun sú og starfsemi, er nýbýlastjórn og landnámsstjóri veiti forstöðu, nefnist Landnám ríkisins. Árið 1962 komu lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 75/1962.7Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–160. (Sjá Stofnlánadeild landbúnaðarins í Orðabelg Þjóðskjalasafns.) Önnur lög um sama efni komu árið 1971, nr. 45.8Stjórnartíðindi 1971 A, bls. 102–114. Þar var verksvið Landnáms ríkisins skilgreint þannig í IV. kafla:

Verkefni Landnáms ríkins eru m.a.: a. Skipulagning byggðar í sveitum landsins. b. Að halda jarðaskrá yfir allar jarðir. c. Að sjá um framkvæmdir í byggðahverfum. d. Að annast eða fylgjast með: 1. Ábúð, sölu og leigu lögbýlisjarða. 2. Félagsræktun. 3. Stofnun nýbýla, endurbyggingu og sameiningu jarða. 4. Stofnun grænfóðurverksmiðja. 5. Úthlutun ríkisframlaga til landbúnaðarins samkvæmt þessum lögum.

Þá skyldi landnámsstjóri, eftir því sem við yrði komið, láta gera uppdrætti af sveitum landsins, þar sem kæmu fram landamerki jarða og flokkun lands þeirra eftir notagildi til ræktunar og beitar. Einnig skyldi landnámsstjóri (VII. kafli) láta árlega gera jarðaskrá fyrir allt landið og fylgjast þannig með ábúð allra lögbýlisjarða. Þar er einnig fjallað um eyðijarðir og byggingarmöguleika jarða.

Landnám ríkisins, auk Búnaðarfélags Íslands, átti að annast athuganir og mat vegna jarðakaupa og jarðasölu Jarðeignasjóðs ríkisins, sem varð til árið 1967 með lögum nr. 54.9Stjórnartíðindi 1967 A, bls. 79–81. Jarðeignasjóði var ætlað að kaupa jarðir, sem ekki seldust með eðlilegum hætti, ef eigandi varð að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu, jarðir, sem höfðu óhagstæð búskaparskilyrði eða nutu ekki framlaga eða styrkja til umbóta eða voru afskekktar og lágu illa við samgöngum, einnig jarðir, sem líkur væru á, að ekki yrðu nýttar til búrekstrar en hefðu sérstakt notagildi fyrir sveitarfélag eða ríki.

Síðar varð Landnám ríksins samþykktar- og staðfestingaraðili, þegar taka átti landbúnaðarland til annarra nota, svo og við skiptingu á landi jarða eða sameiningu jarða, sömuleiðis þegar leggja ætti lönd eða jarðir til afrétta samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976. Einnig var stofnun nýrra býla háð staðfestingu Landnáms ríkisins. Sjá 11. og 12. grein jarðalaganna.10Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 161–172.

Um 1960 var ákveðið að ráðast í fóðurframleiðslu og frærækt í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Landnámsstjóra var falið með bréfi 16. maí 1961 að hafa umsjón með fyrirhuguðum framkvæmdum. Reglur (ekki reglugerð eins og sagt hefur verið) um fóðurframleiðslustöð í Gunnarsholti voru settar 25. mars 1963. Fóður- og fræframleiðslan í Gunnarsholti var sjálfseignarstofnun, en landnámsstjóri og fulltrúi hans munu hafa haft umsjón með stöðinni til ársins 1973, þegar sérstakur framkvæmdastjóri var skipaður, en Landnámið mun hafa komið að stjórn stöðvarinnar áfram.11ÞÍ. Landbúnaðarráðuneytið 2001–BA/132 (örk 5); Vef. https://www.brink.is/wp-content/uploads/2018/01/14.-Gunnarsholt-á-Rangárvöllum.pdf, sótt 16. janúar 2024.

Landnám ríkisins var lagt niður árið 1984 með lögum nr. 90/1984 um breytingu á jarðalögunum frá 1976.12Stjórnartíðindi 1984 A, bls. 181–184. Landbúnaðarráðherra tók við hlutverki Landnáms ríkisins og landnámsstjórnar. Landbúnaðarráðuneytið skyldi leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þegar sótt væri um stofnun nýrra býla til búvöruframleiðslu.

Landnám rikisins tók formlega til starfa árið 1947 og við það ár miðast skjalasafn þess.

Skjöl um nýbýli, sem kynnu að hafa verið stofnuð eftir nýbýlalögunum frá 1897, ættu helst að finnast í skjalasöfnum sýslumanna (t.d. afsals- og veðmálabókum), amtmanna, Búnaðarfélags Íslands og e.t.v. II. skrifstofu Stjórnarráðsins.

Skjala um stofnun nýbýla samkvæmt lögum um nýbýli og samvinnubyggðir, nr. 25/1936, þangað til Landnám ríkins varð til árið 1947, er væntanlega helst að leita í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands (í Þjóðskjalasafni Íslands) og Stofnlánadeildar landbúnaðarins en einnig í skjalasafni Dómsmálaráðuneytisins vegna nýbýla á kirkjujörðum og þjóðjörðum. Skjalasafn Landnáms ríkisins er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands en gagna mun einnig að leita í skjalasafni Landbúnaðarráðuneytisins, sem er að einhverju leyti í Þjóðskjalasafni en að öðru leyti í skjalasafni Matvælaráðuneytisins (2024).

(Heimild um Landnám ríkisins: https://is.wikipedia.org/wiki/Landnám_ríkisins, sótt 9. janúar 2024.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 80–81.
2 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 92–94.
3 Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 60–69.
4 Orðið byggðarfélag virðist samkvæmt þessum lögum og reglugerð frá árinu 1950 vísa til þess, að þar sé um að ræða samvinnubúskap. Síðar í sömu lögum (31. grein) er talað um skyldu ábúenda í byggðarhverfi til þess að stofna byggðarfélag. Byggðarhverfi var samkvæmt 27. grein laganna minnst 5 býli, þar sem framkvæmdir við ræktun og byggingar væru gerðar eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Frekari skilgreiningu á byggðarfélagi má finna í 57. grein reglugerðar um framkvæmd laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Sjá Stjórnartíðindi 1950 B, bls. 79–93.
5 Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 21–31.
6 Stjórnartíðindi 1957 A, bls. 163–178.
7 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 146–160.
8 Stjórnartíðindi 1971 A, bls. 102–114.
9 Stjórnartíðindi 1967 A, bls. 79–81.
10 Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 161–172.
11 ÞÍ. Landbúnaðarráðuneytið 2001–BA/132 (örk 5); Vef. https://www.brink.is/wp-content/uploads/2018/01/14.-Gunnarsholt-á-Rangárvöllum.pdf, sótt 16. janúar 2024.
12 Stjórnartíðindi 1984 A, bls. 181–184.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 3