Lögmaður

Síðast breytt: 2021.06.23
Áætlaður lestími: 1 mín

Embætti, sem varð til með lögbókinni Járnsíðu, sem var lögtekin árið 1271, þegar embætti lögsögumanns var lagt niður. Lögmaður var forseti lögréttu á alþingi, dómari og gæslumaður réttarfars, uns alþingi var lagt niður árið 1800. Í upphafi var lögmaður einn en síðar tveir, líklega frá 1277. Ísland skiptist í tvö lögdæmi, annars vegar Sunnlendinga- og Austfirðingafjórðunga og hins vegar Norðlendinga- og Vestfirðingafjórðunga. Var talað um lögmann sunnan og austan og lögmann norðan og vestan. Lögmönnum var skylt að sækja alþingi, þeir stjórnuðu öllum þingstörfum, voru forsetar lögréttu og dæmdu þar ásamt lögréttumönnum, skýrðu lög, væri þess óskað og nefndu stundum dóma í héruðum. Frá 1718 skyldu lögmenn dæma einir í málum síns lögdæmis í lögréttu samkvæmt málsmeðferð Norsku laga Kristjáns V., en sú regla komst ekki á að fullu fyrr en eftir 1730.

Lögmenn fengu föst laun af konungstekjum úr hendi hirðstjóra, um 15 hundruð á landsvísu (sennilega frá því á 15. öld), en voru lögákveðin eftir að einveldi komst á árið 1662 og voru á 18. öld 60 ríkisdalir. Árið 1688 var lögboðinn svonefndur lögmannstollur.

Lögmannsembættin voru lögð niður árið 1800 með afnámi alþingis. Í stað lögmanna komu dómarar í Landsyfirrétti.

Heimild

  • Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 343–345 (lögmaður).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 34