Lögréttumaður

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín
Lögréttumenn, lögréttumannalaun, þingfararkaup.

Sýslumenn eða sóknarmenn (fulltrúar sýslumanna) nefndu menn úr röðum betri bænda til alþingisfarar um óákveðinn tíma samkvæmt ákvæðum lögbókanna Járnsíðu (1271–1273) og Jónsbókar (1281). Úr þeim hópi völdu lögmenn þrjá úr hverju þingi (síðar sýslu) til dóma- og löggjafarstarfa í lögréttu. Þeir voru hinir raunverulegu lögréttumenn, aðrir voru nefndarmenn en oft titlaðir lögréttumenn. Nefndarmenn til alþingisfarar voru 140 samkvæmt Járnsíðu en fækkað í 84 eftir Jónsbók og voru 36 til starfa í lögréttu.

Eftir 1718 áttu lögmenn að dæma einir í málum og lögréttumenn urðu aðeins þingvottar og þeim fækkað í 16. Með tilskipun árið 1764 skyldi tilnefna 20 nefndarmenn (úr Árness-, Gullbringu- og Kjósarsýslum). Af þeim skyldu tíu sækja alþingi árlega, átta sitja í lögréttu en tveir vera til vara. Árið 1777 var boðið, að lögmenn nefndu fimm lögréttumenn sem þingvotta og árið 1796 urðu þeir fjórir. Eftir stofnun yfirréttar á alþingi árið 1593 voru lögréttumenn kvaddir til setu í réttinum.

Sýslumenn áttu að greiða lögréttumönnum þingfararkaup, auk þess nutu þeir nokkurra fríðinda, m.a. skattfrelsis. Eftir 1764 var þingfararkaupið goldið í peningum, 24 skildingar á dag, en þá skiluðu sýslumenn þingfararkaupi í Dómsmálasjóð, sem var í umsjón landfógeta. Úr þeim sjóði tóku lögréttumenn laun sín. Innheimta þingfararkaups hélst til ársins 1877, þegar hið forna skattkerfi var að mestu lagt niður, þótt alþingi væri lagt niður árið 1800.

Heimild

  • Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 347 (lögréttumenn), 569–570 (þingfararkaup)).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 89