Möllerslestrarfélög

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 4 mín

Jens Møller (1779-1833) var danskur guðfræðingur, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og meðal stofnenda danska biblíufélagsins og útgefandi ýmissa guðfræðitímarita.1Dansk biografisk leksikon XVI. København 1939, bls. 411–415. Árið 1832 sendi hann Steingrími Jónssyni, biskupi, með bréfi dagsettu 14. mars sama ár, 15 Biblíur á hebresku frá biblíufélaginu, 25 Nýjatestamenti á grísku og að auki 100 Nýjatestamenti á dönsku til útdeilingar meðal presta eða fátækra guðfræðistúdenta, auk bókasendingar til biskups sjálfs. Þá var Steingrímur beðinn álits eða tillagna um stofnun guðfræðilegra bókasafna í hverjum landsfjórðungi og stofnunar lestrarfélaga. Lét Jens Møller í ljósi þá von, að honum tækist að útvega árlegan styrk til bókakaupa.2ÞÍ. Bps. C. V, 210. Ýmisleg bréf til biskups frá útlöndum 1804–1859. Mappa merkt „En Möllersku bókasafns- og lestrarfélög geistlegra í 14 prófastsdæmum á Íslandi“, (IBJ, 247–1832). Steingrímur biskup tók að sjálfsögðu fagnandi móti bókagjöfinni og bað um meira, og lestrarfélagsstofnunin var ekki síður talin álitleg.3ÞÍ. Bps. C. III, 20. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1831–1832, bls. 566–568. (Bréf dagsett 30. og 31. ágúst 1832, nr. 484 og 485). Prófessorinn svaraði biskupi um hæl (27. september 1832) og kvaðst ætla að senda tillögu um árlegan styrk til stjórnar Fonden ad usus publicos.4ÞÍ. Bps. C. V, 210 (IBJ, 653b–1832). — Fonden ad usus publicos var sjóður stofnaður með konungsúrskurði 15. júní 1765. Tekjur voru af sérstökum sektum og uppteknu fé (fé teknu í refsingarskyni) og auk þess arfalausu fé samkvæmt úrskurði 12. ágúst 1779.

Í bréfi 25. febrúar 1833 til Jens Møller gerði Steingrímur grein fyrir tillögum sínum um bókasöfn: 1. fyrir Austur-Skaftafells- og bæði Múlaprófastsdæmi, 2. fyrir Norður- (þ.e. Þingeyjar-), Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnsprófastsdæmi, 3. Stranda-, Ísafjarðar- (Norður- og Vestur-) og Barðastrandarprófastsdæmi, 4. Dala-, Snæfellsness-, Hnappadals- og Mýraprófastsdæmi. Þannig yrðu stofnuð 4 bókasöfn og lestrarfélög í landinu. Prófastsdæmin fimm í Suðuramtinu yrðu undanskilin, því að þau hefðu svo góðan aðgang að stiftsbókasafninu í Reykjavík. Bréfinu fylgdu uppköst að reglum fyrir bókasöfnin og lestrarfélögin á Vestfjörðum og Vesturlandi.5ÞÍ. Bps. C. III, 21. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1832–1833, bls. 176–181 (nr. 64–1833). Með vorskipum árið 1833, 23. apríl, sendi Jens Møller bækur til lestrarfélaganna fjögurra, þótt honum þætti Fonden ad usus publicos hafa verið naumur í útlátum, en þaðan fengust aðeins 100 ríkisdalir.6ÞÍ. Bps. C. V, 210 (IBJ, 371–1833).

Jens Møller dó árið 1833. Þá mun hafa þótt þungt fyrir fæti um árlegan styrk utan lands frá. Steingrímur biskup skrifaði próföstum sínum 23. nóvember 1834 og lagði til, að félagsmenn gyldu eitthvert árgjald til félaga sinna til bókakaupa, en var jafnframt með hugleiðingar um umsóknir úr Fonden ad usus publicos.7ÞÍ. Bps. C. III, 22. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1833–1834, bls. 439–447 (nr. 572–575).

Brátt komu upp tillögur um uppskipti á lestrarfélögunum, þau þóttu ná yfir allt of stór svæði. Í bréfi til kansellísins 17. desember 1838 lýsti Steingrímur Jónsson biskup gangi mála, sagði frá stofnun lestrarfélaga og bókakaupum í einstökum prófastsdæmum og lagði áherslu á, að stofnuð yrðu lestrarfélög í öllum þeim 14 prófastsdæmum, sem voru í landsfjórðungunum þremur (Suðurlandi var sleppt eins og áður sagði), og sótti um styrk til þeirra úr Fonden ad usus publicos. Einnig gat biskup þess í bréfi sínu, að andlegrar stéttar menn í Rangárvallasýslu hefðu stofnað lestrarfélag þar í sýslu8Í Þjóðskjalasafni er bókaskrá félagsins, skráð af Markúsi og Ásmundi Jónssonum. ÞÍ. Kirknasafn. Rangárvallaprófastdæmi I/1. Bækur Rangárvallaprófastsdæmi tilheyrandi. og að sagnfræðilegu lestrarfélagi hefði verið komið á fót í Vestur-Skaftafellssýslu.9ÞÍ. Bps. C. III, 26. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1838–1839, bls. 387–390 (nr. 690). Styrkur að upphæð 300 ríkisdalir var veittur í eitt skipti fyrir öll 24. ágúst 1839 og skipt milli lestrarfélaganna fjórtán 4. febrúar 1840.10ÞÍ. Bps. C. V, 8B, Konungs- og stjórnarbréf til biskups 1837–1846 (IBJ, 728–1839); ÞÍ. Bps. C. III, 27. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1839–1840, bls. 432 (nr. 12).

Þótt Steingrímur biskup geti þess ekki í bréfi sínu frá árinu 1838, var stofnað lestrarfélag í Mýra-, Snæfellsness- og Dalasýslum árið 1883 og síðan sérstakt lestrarfélag í Mýrasýslu árið 1836.11ÞÍ. Kirknasafn. Mýraprófastsdæmi I/1. Bréfa- og endurritabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1833–1850, bls. 3–10, 22–25. Heimildir um Mýrasýslufélagið eru allgóðar í Þjóðskjalasafni og heildstæðari en gerist um sambærileg félög, sem safninu hafa borist gögn um. Þar kemur í ljós, að fljótlega gerðust aðrir en prestar og stúdentar félagsmenn, og bókakaupin voru eingöngu guðfræðirit eins og sjá má af bókaskrám félagsins. Auk þess barst félaginu allmikið af gjafabókum, t.d. frá Prentfrelsisfélaginu danska og Landbúnaðarfélaginu, auk þess gáfu félagsmenn bækur, sem komu upp í félagsgjöld. Á áttunda tug 19. aldar dró mjög úr starfsemi þess, fundir ekki haldnir vegna illviðra eða mannfæðar. Gerð var tilraun til þess að reisa það úr rústum árið 1881, því voru sett ný lög og ákveðið nýtt starfssvæði. Hélt það eitthvað áfram störfum næstu árin.12ÞÍ. Kirknasafn. Mýraprófastsdæmi I/1–5. Bréfa- og endurritabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1833–1850, Bréfabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1851–1883, Fundabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1837–1881, Bókaprótokoll Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1840–1869 með prentuðum bókaskrám 1851 og 1860, Skjöl og reikningar Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1851–1883.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir hefur skrifað MA-ritgerð um lestrarfélög presta, Hin Möllersku bókasafns- og lestrarfélög geistlegra í 14 prófastsdæmum á Íslandi. Síðar birti hún greinina „Lestrarfélög presta“ í tímaritinu Ritmennt, sem byggðist á hluta úr MA-ritgerðinni.13Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Hin Möllersku bókasafns- og lestrarfélög geistlegra í 14 prófastsdæmum á Íslandi. Reykjavík 1996. (Varðveitt á Landsbókasafni – Háskólabókasafni); Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, „Lestrarfélög presta. Athugun á aðföngum, bókakosti og útlánum Möllersku lestrarfélaganna“, Ritmennt. Ársrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 4 1999, bls. 57–83.

Skjala Möllerslestrarfélaga er helst að leita í skjalasöfnum prófasta, en einnig í söfnum einstakra prestakalla, þar sem þau hafa dagað uppi, svo sem í Selárdal í Barðastrandarsýslu. Þá getur verið, að eitthvað af slíkum skjölum finnist í héraðsskjalasöfnum.

Lög um bókasöfn prestakalla nr. 17/1931 eru frá 6. júlí 1931 og standa enn að mestu óbreytt (2017).14Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 24–26; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1931017.html, sótt 27. september 2017. Í 1. grein eru ákvæði um að stofna megi bókasöfn fyrir prestaköll með bókagjöfum og bókakaupum, svo sem nánar væri tiltekið í lögunum. Bókasöfnin eigi að geyma á heimilum prestanna og tilheyri ekki skjalasöfnunum. Engin ákvæði eru í lögunum um meðferð bókasafnanna við niðurlagningu prestakalla. Álíta verður bókasöfnin aðskilin frá skjalasöfnum presta og því ekki skilaskyld til Þjóðskjalasafns Íslands, en hins vegar má telja bókaskrár og skjöl varðandi bókakaup og meðferð safnanna hluta af skjalasafni prestakallsins/prestsins.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Dansk biografisk leksikon XVI. København 1939, bls. 411–415.
2 ÞÍ. Bps. C. V, 210. Ýmisleg bréf til biskups frá útlöndum 1804–1859. Mappa merkt „En Möllersku bókasafns- og lestrarfélög geistlegra í 14 prófastsdæmum á Íslandi“, (IBJ, 247–1832).
3 ÞÍ. Bps. C. III, 20. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1831–1832, bls. 566–568. (Bréf dagsett 30. og 31. ágúst 1832, nr. 484 og 485).
4 ÞÍ. Bps. C. V, 210 (IBJ, 653b–1832). — Fonden ad usus publicos var sjóður stofnaður með konungsúrskurði 15. júní 1765. Tekjur voru af sérstökum sektum og uppteknu fé (fé teknu í refsingarskyni) og auk þess arfalausu fé samkvæmt úrskurði 12. ágúst 1779.
5 ÞÍ. Bps. C. III, 21. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1832–1833, bls. 176–181 (nr. 64–1833).
6 ÞÍ. Bps. C. V, 210 (IBJ, 371–1833).
7 ÞÍ. Bps. C. III, 22. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1833–1834, bls. 439–447 (nr. 572–575).
8 Í Þjóðskjalasafni er bókaskrá félagsins, skráð af Markúsi og Ásmundi Jónssonum. ÞÍ. Kirknasafn. Rangárvallaprófastdæmi I/1. Bækur Rangárvallaprófastsdæmi tilheyrandi.
9 ÞÍ. Bps. C. III, 26. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1838–1839, bls. 387–390 (nr. 690).
10 ÞÍ. Bps. C. V, 8B, Konungs- og stjórnarbréf til biskups 1837–1846 (IBJ, 728–1839); ÞÍ. Bps. C. III, 27. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1839–1840, bls. 432 (nr. 12).
11 ÞÍ. Kirknasafn. Mýraprófastsdæmi I/1. Bréfa- og endurritabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1833–1850, bls. 3–10, 22–25.
12 ÞÍ. Kirknasafn. Mýraprófastsdæmi I/1–5. Bréfa- og endurritabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1833–1850, Bréfabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1851–1883, Fundabók Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1837–1881, Bókaprótokoll Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1840–1869 með prentuðum bókaskrám 1851 og 1860, Skjöl og reikningar Möllers lestrarfélags í Mýrasýslu 1851–1883.
13 Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Hin Möllersku bókasafns- og lestrarfélög geistlegra í 14 prófastsdæmum á Íslandi. Reykjavík 1996. (Varðveitt á Landsbókasafni – Háskólabókasafni); Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, „Lestrarfélög presta. Athugun á aðföngum, bókakosti og útlánum Möllersku lestrarfélaganna“, Ritmennt. Ársrit Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 4 1999, bls. 57–83.
14 Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 24–26; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1931017.html, sótt 27. september 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 60