Nafnbótarskattur

Síðast breytt: 2021.06.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín
Metorðaskattur (Rangskat)

Ýmis forréttindi aðalsins í Danaveldi voru afnumin eftir einveldistökuna árið 1660. Meðal annars voru gefnar út tilskipanir um nafnbótarraðanir á árunum 1671, 1680 og 1693. Með þessum tilskipunum varð til nýr titla- og embættaaðall og þar með nýtt samfélagslegt stigveldi. Tilskipunin frá árinu 1671 gaf einvaldsstjórninni rétt til þess að veita embættismönnum, sem konungur skipaði, titil og þar með stöðu ofar aðalsmönnum. Með því vildi konungur ýta til hliðar gamla erfðaaðlinum, tengja nýjan nafnbótaraðal fastar við konungsvaldið og fá um leið tækifæri til þess að veita embættismönnum úr borgarstétt tiltölulega háa samfélagslega stöðu. Metorðatilskipunin 11. febrúar 1693 lagfærði fyrri skiptingar í sjö tignarflokka með nákvæmri röðun. Með þessari tilskipun komust fleiri konunglegir embættismenn inn í nafnbótarraðirnar (metorðastigann) og staðfesti þann vilja konungs að koma upp nýrri embættismannastétt í stað gamla aðalsins. Með því varð til nýtt tignarsamfélag, þar sem þjónustumenn konungs stóðu efst í hinu samfélagslega stigveldi.

Nafnbót / tign (rang) táknar þau opinberu virðingarstig, sem tengdust ákveðnum stöðum eða samfélagshópum. Opinberar nafnbætur fengu embættismenn konungs, borgarlegir og úr hernum, ásamt starfsmönnum við hirðina, sem viðurkenningu fyrir trygga þjónustu.

Nafnbótartilskipuninni 1693 var breytt með tilskipunum 11. febrúar 1699, 11. febrúar 1717 og 13. desember 1730. Forréttindi, sem veitt voru í tengslum við nafnbætur, féllu niður með dönsku stjórnarskránni árið 1849 (Grundloven).1danmarkshistorien.dk/leksikon-ogkilder/vis/materiale/rangforordningen-11-februar-1693 Einhverjar fleiri breytingar voru gerðar á nafnbótakerfinu, en ekki verður fjallað um það hér né stigveldi nafnbóta eða allar þær nafnbætur, sem menn gátu fengið. Fáar komu í hlut Íslendinga.

Í tilskipun 7. febrúar 1764 um breytingar á aukaskatti í Noregi, sem ætlaður var til þess að efla herinn.2Sjá Aukaskattur. eru ákvæði um nafnbótarskatt / tignarskatt (rangskat). Allir, sem hefðu fengið nafnbót (rang) eða tengdir/venslaðir þeim, skyldu greiða skatt. Upphæðin fór eftir nafnbótarflokki, en undirforingjar í hernum og ekkjur greiddu minna. Nafnbótarflokkarnir voru níu talsins. Þessi tilskipun var ekki birt á Íslandi en þó beitt við ákveðin flokk embættismanna.3Lovsamling for Island III, bls. 499–500, 7. grein. Tilskipunin fyrir Danmörku var gefin út 17. febrúar 1762 og þá tekið fram, að miðað væri við nafnbótartilskipun frá 14. október 1746.4Chronologisk Register over de Kongelige Forordninger og aabne Breve, samt andre Anordninger, som fra Aar 1670 ere udkomne, IV. deel 1746–1765, bls. 739–742, sjá einkum 8. grein. Þegar aukaskattur var afnuminn á Íslandi með konungsúrskurði 20. mars 1775, fylgdi nafnbótarskatturinn ekki, heldur hélst áfram.5Lovsamling for Island IV, bls. 122–123; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 425 (3. liður).

Í Lovsamling for Island má á nokkrum stöðum finna úrskurði um nafnbótarraðir embættismanna, t.d. amtmanna 4. desember 1804 og dómara í Landsyfirrétti 25. janúar 1805.6Lovsamling for Island VI, bls. 537, 690. Ekkjur voru undanþegnar nafnbótarskatti með konungsbréfi 3. mars 1812.7Lovsamling for Island VII, bls. 410.

Nafnbótarskattur embættismanna og annarra opinberra starfsmanna var afnumin með lögum um launamál slíkra manna 26. maí 1870, 7. grein. Þar segir að enginn embættismaður eða opinber starfsmaður mætti, meðan hann væri í þjónustu ríkisins, hafa annan titil eða metorð en þau, sem fylgdu embætti hans eða væru tengd orðu, sem konungur hefði veitt honum, eða þeir væru innan hirðarinnar. Nafnbótarskattur félli niður af þeim nafnbótum, sem fylgdu embættinu og stöðunni. Skyldi ákveðið með tilskipun, hvernig embættis- og starfsmenn, sem hefðu titil ótengdan embætti eða starfi, ættu að fara að því að losna við þá. Samkvæmt 13. grein laganna náðu þau ekki til andlegra embættismanna eða manna tengdum hernum.8Lovsamling for Island XX, bls. 479, 482. Sú tilskipun var gefin út 2. apríl 1870 og útfærð nánar 17. september sama ár.9Lovsamling for Island XX, bls. 484–485, 580-581. Má sjá, að nokkrir menn sögðu sig frá nafnbótum á næstu árum. (Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 184, 560.))

Landfógeti hélt sérstaka reikninga yfir nafnbótarskatt á árunum 1765–1785. Eftir það var nafnbótarskattur sérstakur liður í Jarðabókarsjóðsreikningum. Nafnbótarskattur var síðast greiddur í Jarðabókarsjóð árið 1882 af Jóni Hjaltalín landlækni  (varð etatsráð árið 1881 en afsalaði sér óðara titlinum) og af Niels Weywadt verslunarstjóra á Djúpavogi (kammerassessor). Skatturinn hélst sem liður í Jarðabókarsjóðsreikningum til ársins 1885, þótt enginn borgaði hann.

Í lögum um laun embættismanna o.fl. nr. 14/1875, 15.október, segir í 5. grein:

Metorðaskattur greiðist eigi af þeirri tign, sem er samfara embætti eður sýslan. Hafi embættismaður eða sýslunarmaður tign, sem bundin er við nafnbót, orðumark eða hirðmannsþjónustu, skal aðeins greiða metorðaskatt af þeirri tign, að svo miklu leyti sem hann við hana kemst í æðri tignarflokk en þann, er embættið eða sýslanin heyrir til. Veitingabréfagjöld falla niður eftirleiðis.10Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 72.

Magnús Stephensen yfirdómari (síðar landshöfðingi) skilgreindi metorðaskatt (nafnbótarskatt) þannig um 1880:

Lögtign er annað hvort samfara embætti, nafnbót, orðumarki eða hirðmannsþjónustu eða hún er veitt sérstaklega með konungsúrskurði. Af allri lögtign ber að greiða skatt, nema þeirri sem er samfara embætti. Hafi embættismaður tign af nafnbót, orðumarki eða hirðmannsþjónustu, á hann það aðeins að greiða metorðaskatt af þeirri tign, að hann fyrir hana fái sæti í æðri tignarflokki en embætti hans á sæti í, eða lög um laun íslenskra embættimanna 15. október 1875, 5. gr. Embættismenn, sem fá lausn í náð frá embætti sínu, halda tign þeirri, sem var samfara embættinu, og hefur stjórnin haldið þeirri skoðun fram, að þeir eigi að greiða skatt af tigninni, nema þeir afsali sér henni sbr. rhbr. [ráðherrabréf] 9. ágúst 1872; en í dómi 15. október 1875 hefur hæstiréttur komist að gagnstæðri niðurstöðu. Ekkjur halda tign manns síns, en eru undanþegnar metorðaskatti.

Öllum tignum mönnum í ríkinu, sem ekki eru konungbornir, er raðað í 9 tignarflokka og er metorðaskatturinn. Í 1. flokki 160 kr. á ári, í 2. flokki 140 kr. á ári, í 3. flokki 80 kr. á ári, í 4. flokki 48 kr. á ári, í 5. flokki 36 kr. á ári, í 6. flokki 30 kr. á ári, í 7. flokki 24 kr. á ári, í 8. flokki 16 kr. á ári, í 9. flokki 12 kr. á ári.11Magnús Stephensen yfirdómari: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags I. árgangur 1880, bls. 171–172.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 danmarkshistorien.dk/leksikon-ogkilder/vis/materiale/rangforordningen-11-februar-1693
2 Sjá Aukaskattur.
3 Lovsamling for Island III, bls. 499–500, 7. grein.
4 Chronologisk Register over de Kongelige Forordninger og aabne Breve, samt andre Anordninger, som fra Aar 1670 ere udkomne, IV. deel 1746–1765, bls. 739–742, sjá einkum 8. grein.
5 Lovsamling for Island IV, bls. 122–123; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 425 (3. liður).
6 Lovsamling for Island VI, bls. 537, 690.
7 Lovsamling for Island VII, bls. 410.
8 Lovsamling for Island XX, bls. 479, 482.
9 Lovsamling for Island XX, bls. 484–485, 580-581.
10 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 72.
11 Magnús Stephensen yfirdómari: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags I. árgangur 1880, bls. 171–172.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 88