Nýbýli / Landnám ríkisins

Síðast breytt: 2025.03.13
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Nýbýlatilskipunin 1776 (sjá Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands) var afnumin með lögum um nýbýli nr. 15/1897.1Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 98–101. Samkvæmt þeim mátti stofna nýbýli á eyðijörðum og í öðrum óbyggðum löndum, þar sem enginn gat sannað eign sína. Svo og í afréttum, er sveitarfélög áttu, og í almenningum en þá með leyfi sveitarstjórna, sem ættu afréttina eða hefðu hagsmuni í almenningum. Einnig þurfti samþykki sýslunefndar. Nýbýlingur átti að tilkynna fyrirætlun sína opinberlega. Væri henni ekki mótmælt, átti hann að leita til amtmanns, sem byði hlutaðeigandi sýslumanni að gera áreið á landið með fjórum mönnum, setja glögg landamerki og meta landið til dýrleika. Amtmaður skyldi síðan gefa út nýbýlisbréf. Ekki mátti taka upp nýbýli, sem væri metið minna en 5 jarðarhundruð að dýrleika.

Árið 1936 voru sett lög um nýbýli og samvinnubyggðir, nr. 25.2Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 52–59. Ríkið ætlaði að skapa skilyrði til þess, að sem mest af árlegri fólksfjölgun þjóðarinnar ætti kost á að fá býli í sveitum til ábúðar, þar sem landbúnaður yrði stundaður sem aðalatvinnuvegur. Samvinnubyggðir væru minnst 5 býli, reist í sama hverfi, þar sem allar framkvæmdir við byggingu býlanna yrðu eftir ákveðnu skipulagi. Yfirstjórn allra nýbýlamála yrði í höndum landbúnaðarráðherra, sem skipaði nýbýlastjóra og gæti falið búnaðarmálastjóra starfið. Nýbýlastjóri annaðist allar framkvæmdir í nýbýlamálum. Þriggja manna nefnd, nýbýlanefnd, yrði ráðgefandi um allar framkvæmdir og gerði tillögur um styrkveitingar. Byggingar- og landnámssjóði Búnaðarbanka Íslands skyldi skipt í tvær deildir, önnur veitti lán til endurbygginga á jörðum í ábúð. Hin deildin, nýbýladeild, veitti lán til þess að reisa nýbýli og samvinnubyggðir. Þá féllu úr gildi nýbýlalögin frá árinu 1897. (Sjá Byggingar- og landnámssjóð í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.)

Í stað þessara laga komu lög um Byggingar- og landnámssjóð nr. 76/1938. En IV. kafli þeirra laga fjallar um nýbýli og samvinnubyggðir, stjórn nýbýlamála, réttindi og skyldur ábúenda, framlög ríkissjóðs og lán til nýbýla og samvinnubyggða.3Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118. Þau lög breyttust nokkuð með lögum nr. 68/1941.4Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 92–94. Í stað nýbýlastjóra og nýbýlanefndar kom nýbýlastjórn, skipuð þremur mönnum. Formaðurinn skyldi vera framkvæmdastjóri nýbýlastjórnar og annast daglegar framkvæmdir. Síðar sama ár komu ný heildarlög um Byggingar- og landnámssjóð, nr. 108.5Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 228–237. Hlutverk sjóðsins skyldi vera að stuðla að endurbyggingu íveruhúsa í sveitum og stofnun nýrra býla. Hann átti að starfa í tveimur deildum, Byggingarsjóði og Nýbýlasjóði. Úr Byggingarsjóði átti einungis að lána til byggingar íbúðarhúsa í sveitum en úr Nýbýlasjóði til þess að reisa nýbýli og samvinnubyggðir. Stofna skyldi sérstaka teiknistofu, Teiknistofu landbúnaðarins. (Sjá Teiknistofa landbúnaðarins í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1897 A, bls. 98–101.
2 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 52–59.
3 Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118.
4 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 92–94.
5 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 228–237.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 18