Þing gátu verið ýmiss konar: 1) Samkoma, sem sinnti löggjöf og dómsvaldi auk ýmissa annarra starfa. 2) Umdæmi, sem samkoman náði yfir, þ.e. þingháin. Eftir gildistöku lögbókanna Járnsíðu, 1271–1773, og Jónsbókar, 1281, urðu slík þing fastákveðin, landfræðileg löggæsluumdæmi, síðar sýslur. Þá var notað eintöluorðið þing (í Kjalarnesþingi t.d.). Orðið þinghá gat einnig verið haft í merkingunni hreppur, svo sem Hjaltastaðaþinghá í Norður-Múlasýslu og Eiðaþinghá í Suður-Múlasýslu. 3) Prestakall / kirkjusókn, þar sem prestur hafði ekki fasta búsetu á kirkjustað, því að hann var bændaeign (bændakirkja gagnstætt lénskirkja), heldur sat á einhverri jörð í prestakallinu. Þá var notað fleirtöluorðið þing (í Seltjarnarnesþingum t.d.), sjá þing, þingabrauð.
Upp úr 930 voru haldin þrenns konar þing: 1) Alþingi, 2) vorþing (sóknar- og skuldaþing) og 3) leiðarþing (haustþing). Um 965 var landinu skipt í fjórðungsþing til dómsagnar og fjórðungsþingum komið á. Fjórðungsþing urðu ekki reglubundin og hafa sennilega starfað um mjög skamman tíma. Sameinuðust þau síðar alþingi, þar sem fjórðungsdómum var komið á.
Þá hafa verið haldin ýmiss konar þing í aldanna rás, svo sem regluleg þing hreppsbænda, manntalsþing og dómþing, sem sýslumenn héldu og stundum lögmenn.
(Heimildir: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 568–569.)