Lénsprestur (beneficiatus/beneficiator) var prestur, sem hafði (varðveitti) kirkjulén (beneficium) eða stað, eins og kirkjulén fóru að kallast á 16. öld, og var því staðarhaldari. Orðið kirkjulén vísar til kirkju, sem stendur á eignarjörð sinni, og allra eigna hennar, svo sem jarða, ítaka og hlunninda og allra tekna. Lénsprestur sat á staðnum og annaðist kirkjulénið og naut eignateknanna. Lénsprestur bar ábyrgð á viðhaldi kirkjunnar og eigna hennar. Hann skyldi sjá til þess, að ekkert glataðist af því, sem kirkjan á staðnum átti og honum hafði verið falið á hendur eða kirkjan eignast, meðan hann varðveitti hana.
Lénsprestar áttu að hverfa úr sögunni með lögum um laun sóknarpresta nr. 46/1907, sem tóku gildi 6. júní 1908.1Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–307. Þá áttu sóknarprestar að verða launamenn en halda ábúðarrétti á prestssetrum og njóta afgjalda eftir þau, lóðargjalda á landi þeirra og arðs af ítökum, sem þeir notuðu sjálfir, þ.e. tóku hluta launanna undir sjálfum sér. Hreppstjórar tóku við umsjón kirkjueigna í hreppum þeirra. Prestar, sem voru í embætti, þegar lögin tóku gildi, gátu valið um, hvort þeir tóku laun eftir eldra fyrirkomulagi eða hinu nýja. Má því segja, að lénsprestar hafi haldist enn um sinn, þótt margir þeirra muni fljótlega hafa horfið að hinu nýja launakerfi, enda fyrirhafnarminna.
Sjá: Lénskirkja, kirkjulén, beneficium, Tekjur kirkna og presta og beneficiatus í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.
(Heimildir: Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 172–185; Hilding Johansson og Magnús Már Lárusson, „Beneficium“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 455–458; Magnús Stefánsson, „Kirkjuvald eflist“, Saga Íslands II. Reykjavík 1975, einkum bls. 98–104; Magnús Stefánsson, „Frá goðakirkju til biskupskirkju“, Saga Íslands III. Reykjavík 1978, einkum bls. 111–257; Magnús Stefánsson, Staðir og staðamál. Bergen 2000. Þar má einkum benda á bls. 11–36 vegna orðanna beneficium, beneficiatus, lensprest og staður.)
Tilvísanir
↑1 | Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–307. |
---|