Kirkjuhaldarar þurftu að standa biskupi og viðtakanda kirkju (nýjum presti eða nýjum eiganda bændakirkju) reikning á tekjum (fyrst og fremst kirkjutíund) og gjöldum kirkna sinna. Má í því sambandi minna á andsvör Norðlendinga til Ólafs biskups Rögnvaldssonar árið 1482 um skyldur presta og kirkna, einkum um tíundarreikning af hálfkirkjum og um biskupsgistingar.1Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 458–468. Gátu bændur misst kirkjustaði í hendur biskupi ef þeir stóðust ekki reikningskil. Þannig var t.d. með Ríp í Hegranesi, en Jón Vilhjálmsson Hólabiskup tók eiganda Rípur til próventu upp á það, sem jörðin var dýrari en kirkjureikningnum nam.2Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 444–445. Þetta hefur gerst um 1420, því að árið 1431 var kvittað fyrir próventuna, en próventugjaldið hafði þótt of lítið í upphafi. Annað nafn á kirknareikningum er portionsreikningar. Kirkjutíund kallaðist gjarnan portion (portio ecclesiae) en kirkjutíund var aðaluppistaðan í tekjum kirkna.3Magnús Stefánsson, „Tiend, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291.
Kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 gerir ráð fyrir því, að gerðir séu kirkjureikningar árlega. Virðist það fyrst og fremst miðað við kirkjur í kaupstöðum. Áttu prófastar að skoða reikningana við visitasíu hvert ár.4Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 225, 236. Eitt atriði samþykktar konungsfógeta, presta beggja og alls almúga í Vestmannaeyjum 11. október 1606 var svohljóðandi:
Item skulu kirkjuverjararnir af sínum eigin peningum láta kaupa og gjöra eina kirkjubók, hvar inni að árliga skal skrifast, hvað kirkjan verður kirkjuverjurunum skyldug eður þeir og henni skyldugir, svo að allir hlutir verði hvert ár réttiliga af konglig maystatis fóvita í kirkjubókina innskrifað, hvað kirkjunni með réttu viðkemur.5Alþingisbækur Íslands IV, bls. 29.
Í kirkjuskipun Kristjáns IV, 2. júlí 1607, sem löggilt var fyrir Ísland 29. nóvember 1622, var boðið að halda bækur yfir kirkjujarðir, árlegar tekjur kirkna, svo og gripi þeirra, og gera reikning hvert ár. Þessar bækur kirknanna voru nefndar kirkjustólar.6Lovsamling for Island I, bls. 160–161. (Sjá umfjöllun um Kirkjustóla). Einnig má benda á tilskipun 6. maí 1684 um kirknareikninga, biskupsbréf um sama efni frá sama ári, Norsku lög Kristjáns V, konungsbréf um bændakirkjureikninga 6. maí 1740 og 15. grein erindisbréfs biskupa 1. júlí 1746.7Lovsamling for Island I, bls. 425–426; Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 43–44; Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 283–285 (14. og 15. liður); Lovsamling for Island II, bls. 315–318, 652–653.
Meðal fjölmargra lagaboða um kristnihald og kirkju, sem fylgdu í kjölfar sendiferðar Ludvigs Harboe árin 1741–1746, var tilskipun um gegnumdregnar kirkjubækur (þ.e. löggiltar) 19. maí 1747. Í slíka bók átti að færa meðal annars allar tekjur og gjöld viðkomandi kirkju og sóknarprestur að undirrita.8Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 589–591; Lovsamling for Island II, bls. 693–694. Þessi tilskipun féll úr gildi með lögum um skipan prestakalla nr. 62/1990, 17. maí.9Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 128 (49. grein). Í 16. grein tilskipunar 17. júlí 1782, birtri á á alþingi árið 1783, eru ákvæði um, að prófastar, ásamt prestum, endurskoði kirknareikninga við visitasíur. Skyldi prestur fá 16 skildinga fyrir endurskoðunina, en greiðsla til prófasts vera falin í ríkisdalnum, sem hann fékk fyrir visitasíuna.10Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 141.
Kirkjureikningar voru áður færðir í kirkjustóla, en nú er þá helst að finna í skjalasöfnum prófasta, þar sem þeir voru endurskoðendur og stýrðu héraðsfundum. Voru ákvæði um það í 11. grein laga nr. 5/1880, 27. febrúar, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda, að forseti (þ.e. héraðsprófastur) leggði fram endurskoðaða reikninga kirkna í héraðinu næstliðið fardagaár til umræðu og úrskurðar.11Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31.
Með lögum um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, var ákveðið, að fjárhaldsmaður kirkju fæli sóknarnefnd innheimtu kirkjutekna, ef hún vildi taka það að sér. Reikningsár skyldi vera 1. janúar til 31. desember eða almanaksárið. Reikninga átti hlutaðeigandi prestur að endurskoða, en væri hann féhirðir kirkjunnar, átti safnaðarfulltrúi að annast endurskoðun. Kirkjureikninga skyldi, fyrir lok maímánaðar ár hvert, afhenda prófasti til rannsóknar og til þess að leggja fram á héraðsfundi. Ef prófastur og héraðsfundur álitu kirkjureikning réttan, var það fullnaðarúrskurður, en væri ágreiningur milli prófasts og héraðsfundar, lagði biskup úrskurð á reikninginn. Samkvæmt lögunum skyldi stofna almennan kirkjusjóð, sem stiftsyfirvöld Íslands hefðu umsjón yfir og ábyrgð á. Allt fé, sem kirkjur ættu afgangs útgjöldum, skyldi láta á vöxtu í Hinum almenna kirkjusjóði. Lögin náðu ekki til bændakirkna nema kirkjuráðendur veittu til þess samþykki sitt.12Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87. Lög þessi eru að mestu leyti enn í gildi (2017).13Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1890020.html, sótt 25. september 2017. Í stað stiftsyfirvalda hefur biskup Íslands umsjón með sjóðnum samkvæmt tilskipun nr. 12/1904, 23. ágúst.14Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 36–39, II. kafli, 3. liður.
Kirkjureikninga má einnig finna í skjalasöfnum Biskupsstofu og Ríkisendurskoðunar, en samkvæmt starfsreglum prófasta frá 10. desember 1998 (15. grein) áttu þeir að heimta og fara yfir ársreikninga sókna, kirkna og kirkjugarða og leggja fram á héraðsfundi og sjá til þess, að reikningarnir væru jafnframt sendir Biskupsstofu og Ríkisendurskoðun og koma jafnframt athugasemdum á framfæri, væri þess talin þörf.15Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168. Ekki er minnst á þessa endurskoðunar- og eftirlitsskyldu í starfsreglum prófasta frá árinu 2006.16Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-profasta-nr-9662006, sótt 25. september 2017. Hins vegar segir í starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir frá sama ári (5. gr., fimmti liður), að reikninga sókna og kirkjugarða skuli leggja fram á árlegum héraðsfundi, sem prófastur stýrir.17Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-heradsfundi-og-heradsnefndir-nr-9652006/, sótt 25. september 2017.
Sjá annars Kirkjustóll og Tekjur kirkna og presta um reikningsskil af kirkjum.
Tilvísanir
↑1 | Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 458–468. |
---|---|
↑2 | Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 444–445. Þetta hefur gerst um 1420, því að árið 1431 var kvittað fyrir próventuna, en próventugjaldið hafði þótt of lítið í upphafi. |
↑3 | Magnús Stefánsson, „Tiend, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291. |
↑4 | Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 225, 236. |
↑5 | Alþingisbækur Íslands IV, bls. 29. |
↑6 | Lovsamling for Island I, bls. 160–161. |
↑7 | Lovsamling for Island I, bls. 425–426; Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 43–44; Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 283–285 (14. og 15. liður); Lovsamling for Island II, bls. 315–318, 652–653. |
↑8 | Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 589–591; Lovsamling for Island II, bls. 693–694. |
↑9 | Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 128 (49. grein). |
↑10 | Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 141. |
↑11 | Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31. |
↑12 | Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87. |
↑13 | Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1890020.html, sótt 25. september 2017. |
↑14 | Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 36–39, II. kafli, 3. liður. |
↑15 | Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168. |
↑16 | Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-profasta-nr-9662006, sótt 25. september 2017. |
↑17 | Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-heradsfundi-og-heradsnefndir-nr-9652006/, sótt 25. september 2017. |