Barnaskólar, sveitakennarar

Síðast breytt: 2021.06.15
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Í kirkjuskipun Kristjáns III, árið 1537, eru ýmis fyrirmæli um kristindómskennslu, svo og skólahald í kaupstöðum, þar sem kenndur væri lestur.1Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 186, 204, 214–215, 219, 225. Kirkjuskipun Kristjáns IV (1607) lagði mesta áherslu á kristindómsfræðsluna og var þar einkum horft til latínuskóla.2Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 4v–7r, 12r–13v, 61r–72r. Í opnu bréfi um barnafræðslu og húsvitjanir 22. apríl 1635 var prestum boðið að fræða börn í kristindómi, yfirheyra þau eftir prédikun og vitja ungra barna á heimilum þeirra.3Lovsamling for Island II, bls. 218–219. Eftirliti með kristindómsþekkingu voru mun betri skil gerð í tilskipunum heittrúarstefnunnar um fermingu árin 1736 (send til Íslands árið 1741) og 1744, barnaspurningar árið 1744, húsvitjanir 1746 og húsaga 1746, svo og í erindisbréfi biskupa árið 1746.4Lovsamling for Island II, bls. 227–242, 505–508, 518–523, 566–578, 605–620, 648–652.

Kirkjuskipanirnar og fyrirmælin, sem hér hafa verið talin, virðast gera ráð fyrir lestrarkunnáttu barna. Ákvæði um lestrarnám barna, er prestar áttu að hafa eftirlit með og sjá um að yrði framfylgt, sjást þó ekki fyrr en í 16. og 17. grein tilskipunar um húsvitjanir og 4. grein húsagatilskipunar, báðum frá árinu 1746. Og í 21. grein húsvitjanatilskipunarinnar eru ákvæði um, að í sálnaregistri skuli greina frá háttalagi, kristindómsþekkingu og lestrarkunnáttu hvers manns. Biskupabréf, sem fjalla um gerð sóknarmannatala/sálnaregistra, gera ráð fyrir sérstökum dálkum fyrir lestrarkunnáttu fólks.5Lovsamling for Island II, 573–574, 607, 575–576; ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sjá einkum bls. 26–28); ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788 (sjá einkum bls. 783, E-lið).

Fyrirmæli um hjúskaparmálefni og lauslæti, 3. júní 1746, bönnuðu giftingu, nema hjónaefnin hefðu viðhlítandi kristindómsþekkingu, og að a.m.k. annað hjónaefna væri lesandi.6Lovsamling for Island II, bls. 600–602. Allt fram á 20. öld var lestrarkunnátta skilyrði fyrir fermingu. Undanþágur fengust þó frá þeirri kunnáttu, því að koma þurfti fólki í fullorðinna manna tölu (vera sjálfstætt) og til þess þurfti fermingu.

Foreldrar eða húsbændur barna urðu fyrrum að annast lestrarkennslu barna eða fá aðra til þess. Eitthvað var um, að komið væri upp einkakennslu og fáeinir barnaskólar urðu til. Fyrsti barnaskólinn, sem auðnaðist framhaldslíf, var stofnaður á Eyrarbakka árið 1852. Landssjóður fór þó ekki að styrkja barmakennslu fyrr en árið 1878 og foreldrar urðu að greiða skólagjöld.

Lög um uppfræðing barna í skrift og reikningi nr. 2/1880, voru staðfest 9. janúar það ár og 1. grein laganna er lýsandi fyrir ástandið í fræðslumálum:

Auk þeirrar uppfræðsluskyldu, sem prestar hafa, skulu þeir sjá um, að öll börn, sem til þess eru hæf að áliti prests og meðhjálpara, læri að skrifa og reikna.

Áttu prestar að rita álit sitt á kunnáttu barna í húsvitjunarbókina, og prófastur skyldi hafa eftirlit með, að það væri gert.7Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 6–9. Í sóknarmannatölum eftir 1880 og fram eftir 20. öld eru dálkar fyrir vitnisburði um lestrar-, kristindóms-, skriftar- og reikningskunnáttu barna. (Sjá: Sóknarmannatöl). Einnig skráðu prestar í prestsþjónustubækur vitnisburði um kunnáttu fermingarbarna í ýmsum greinum, svo og um hegðun. (Nánari umfjöllun um barnakennslu fyrrum: Barnafræðsla, uppeldi og fátækraframfæri; Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 50–51).

Þegar landssjóður fór að styrkja barnaskóla og sveitakennara efldist barnafræðsla mjög, en aðalbreytingin varð með lögum um fræðslu barna nr. 59/1907. Heimilin skyldu annast fræðslu barna til fulls 10 ára aldurs en eftir það var gert ráð fyrir, að börn nytu skólakennslu í heimangöngu-, heimavistar- eða farskólum og lykju prófi 14 ára. Kostnaður væri greiddur úr bæjar-/sveitarsjóðum. Yfirstjórn og umsjón fræðslumála hefði Stjórnarráð Íslands með aðstoð skólafróðs manns, sem annaðist umsjónina fyrir hönd Stjórnarráðsins (fræðslumálastjóri). Lögin öðluðust gildi 1. júní 1908.8Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 380–397. Fræðslumál hafa tekið miklum breytingum síðan, sem ekki verður farið í hér. Brýnt er að hafa í huga, að embætti fræðslumálastjóra var lagt niður árið 1972 og Fræðslumálaskrifstofan sameinuð menntamálaráðuneyti. (Heimild: Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 50–52).

Upplýsinga um kunnáttu barna (og raunar fullorðinna framan af) í lestri og kristindómi er að leita í sóknarmannatölum/húsvitjunarbókum eftir að slíkar bækur voru lögboðnar í erindisbréfi biskupa árið 1746. (Er þó varla að leita fyrir árið 1748). Á árunum 1880–1907 var það hlutverk sóknarpresta að hafa eftirlit með fræðslu barna í lestri, skrift, reikningi og kristindómi og færðu þeir slíkt í sóknarmannatöl sín. Þá færðu prestar upplýsingar í prestsþjónustubækur um kunnáttu barna í lestri og kristindómi svo og um hegðun þeirra, þegar börnin voru fermd. Einnig má finna á stangli heimildir um barnafræðslu í skjalasöfnum prestakalla. Í skjalasöfnum biskups og stiftamtmanns getur verið að leita heimilda um skólamál, ekki síst ef reynt var að kría út styrki, en beita verður hugkvæmni við slíkt. Í skjalasafni stiftsyfirvalda eru umsóknir um styrki til skólahalds eða kennslu barna, og upplýsingar fylgja um skólahaldið eða kennsluna og um nemendur frá árunum 1878–1904, eða eftir að landssjóður fór að veita slíka styrki. Er það í séröskjum fyrir árin 1878–1894, sem merktar eru Barnaskólar og sveitakennarar, en síðan undir undir málsnúmerum: Db.I, nr. 523, 477 og 345 (barnaskólar) og Db.I, nr. 517, 499, 299 (sveitakennarar). Landshöfðingi hafði einnig afskipti af skólamálum og er heimilda að leita undir Skólamál í flokkaskrám bréfadagbóka landshöfðingja. Auk þess eru í skjalasafni landshöfðingja séröskjur merktar:

  1. Skýrslur frá barnaskólum 1900–1903.
  2. Skýrslur um fræðslu barna og unglinga veturinn 1903–1904.
  3. Sveitakennarar 1894–1905.

Eftir það er heimilda að leita í I. skrifstofu Stjórnarráðs Íslands (Barnaskólar, Sveitakennarar) en frá 1908 fyrst og fremst í skjalasafni Fræðslumálaskrifstofunnar. Þó geta áfram leynst gögn í skjalasafni I. skrifstofu Stjórnarráðsins og jafnvel dómsmálaráðuneytis, sem var framhald I. skrifstofu. Þá er ástæða til að skoða gögn menntamálaráðuneytisins eftir að það varð til, sem síðan tók við fræðslumálunum að fullu árið 1972.

Rit um barnafræðslu

  • Loftur Guttormsson: Bernska, ungdómur og uppeldi á einveldisöld. Tilraun til félagslegrar og lýðfræðilegrar greiningar. Reykjavík 1983.
  • Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007. Ritstjóri Loftur Guttormsson. Reykjavík 2008.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 186, 204, 214–215, 219, 225.
2 Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 4v–7r, 12r–13v, 61r–72r.
3 Lovsamling for Island II, bls. 218–219.
4 Lovsamling for Island II, bls. 227–242, 505–508, 518–523, 566–578, 605–620, 648–652.
5 Lovsamling for Island II, 573–574, 607, 575–576; ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sjá einkum bls. 26–28); ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788 (sjá einkum bls. 783, E-lið).
6 Lovsamling for Island II, bls. 600–602.
7 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 6–9.
8 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 380–397.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 2 af 2 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 64