Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Fiskagjald

Sérstakt fiskagjald var til nokkurra kirkna. Skulu nefnd nokkur dæmi:

Árni Helgason Skálholtsbiskup setti Ingjaldshólskirkju vígslumáldaga árið 1317. Bændur frá Gufuskálum inn til Ennis (Ólafsvíkurennis) gáfu kirkjunni vætt skreiðar af hverjum landeiganda ævinlega en leiguliðar hver fyrir sig, meðan hinn sami byggi. Allir, sem ekki hefðu af landi (búleysingjar) en skrift (þ.e. syndajátning fyrir presti) eða þjónustu sæktu til Ingjaldshóls, skyldu greiða fjórðung fiska ella sækja til Saxahólskirkju og prests þar. Ef leiguliðarnir vildu ekki greiða sinn hlut, yrðu þeir að sækja Saxahólskirkju. Prestur skyldi hafa helming fjórðungsins frá landleysingjunum en bóndi helminginn, þar til biskup gerði annað ráð fyrir.1Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 410–411.

Um 1570 hafði konungsvaldið tekið undir sig fiskavætt þá, sem til Ingjaldshólskirkju hafði verið lögð af hverjum bæ fyrir utan Enni. Þegar yfirtakan fór fram, virðist fiskavættin hafa legið til Fróðárkirkju.2Íslenzkt fornbréfasafn XV, bls. 605. Það kemur ekki heim við skipun Páls Stígssonar hirðstjóra um kirkjur og sóknir um Snæfellsnes 27. september 1563, því að Ingjaldshólskirkja skyldi vera eins og hún hefði verið með sinni rentu og við sóknina bætast Saxahóll og Öndverðarnes.3Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá fyrst og fremst bls. 153). Þá var jafnframt ákveðið, að í Lóni (Einarslóni) skyldi byggð sóknarkirkja og allir búðarmenn og útróðrarmenn í Lóni og Dritvík gefa kirkjunni til uppheldis árlega einn fisk hver maður.4Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá fyrst og fremst bls. 153).

Lúðvík Kristjánsson segir nokkuð frá fiskagjöldum til kirkna og presta í riti sínu Íslenzkir sjávarhættir.5Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir III. bindi. Reykjavík 1983, bls. 119–121. Kirkjustærð miðaðist að vonum við mannfjölda í einstökum sóknum. Á kirkjustöðum í nánd við verstöðvar sköpuðust að sjálfsögðu vandræði á vertíðum, þegar fjöldi vermanna sótti kirkju. Þess vegna var t.d. gefin út konungleg tilskipun 1. desember 1752 um, að hver vermaður, sem aflaði eins hundraðs (120) fiska á vetrar- eða vorvertíð, skyldi gjalda einn fisk til prests. En á móti áttu prestarnir að byggja svo stórar kirkjur, að helmingur útróðrarmanna, að minnsta kosti, auk alls sóknarfólks kæmist þar fyrir. Giltu þessi fyrirmæli um Hvalsness- og Útskálakirkjur.6Lovsamling for Island III, bls. 141–143. Kallaðist slíkt gjald sætisfiskur.

Árið 1646 dæmdu níu prestar að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar, að hálfkirkjan í Þorlákshöfn skyldi vera sóknarkirkja vertíðarfólks þar um vertíðartímann. Ætti kirkjan rétt á einum gildum fiski af hverjum mannshlut henni til uppihalds og vegna kostnaðar við vín og bakstur. Prestur skyldi fá annan fisk fyrir sitt ómak.7Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 108–109. Ítrekaði Brynjólfur gjaldskylduna í bréfi til útróðrarmanna árið 1649, annars yrðu þeir að sækja Hjallakirkju.8Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 429–430.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 410–411.
2 Íslenzkt fornbréfasafn XV, bls. 605.
3 Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá fyrst og fremst bls. 153).
4 Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá fyrst og fremst bls. 153).
5 Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir III. bindi. Reykjavík 1983, bls. 119–121.
6 Lovsamling for Island III, bls. 141–143.
7 Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 108–109.
8 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 429–430.