Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Heytollur

Um heytoll hefur verið sagt:

En prestur hafði einnig vísar aukatekjur, svonefndan heytoll. Þetta var skattur sem í fyrstu var lagður á öll lögbýli í hverri sókn, en í byrjun 16. aldar felldu tólf menn, jafnt lærðir sem leikir, í umboði Skálholtsbiskups þann úrskurð að allir sem einhverja grasnyt hefðu skyldu greiða heytoll. Skatturinn var réttlættur með þeim rökum að jafnt fátækir sem ríkir þyrftu Guðs við, og ættu þess vegna allir að bera sinn hluta kostnaðarins þegar prestur færi að vitja sóknarbarna sinna. Heytollur var einn hestburður af heyi, og munu bændur sjálfir hafa átt að flytja það til prestssetursins, í síðasta lagi á Maríumessu hinni síðari (8. september). Einnig kom til greina að bóndi tæki lamb í fóður og sparaði þannig presti eða kirkjubónda heygjöf eða hann greiddi skattinn með einhverjum gjaldgengum varningi, tíu fiska virði.1Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 185. Sjá og Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 229–230, Björn Þorsteinsson, „Tollr“. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454. — Athugandi er, að í Vilkinsmáldaga er ekki minnst á heytolla kirkna á Austurlandi. (Ekki hefur verið gerð frekari könnun í máldögum á þessari tollaskyldu).

Prestar í Hólabiskupsdæmi skyldu njóta heytolls eins og þeir hefðu gert frá fornu fari samkvæmt konungsboði frá 21. mars 1575.2Lovsamling for Island I, bls. 101–104 (sjá einkum bls. 101–102). Síðar mun tollurinn hafa snúist upp í lambseldi eingöngu og kallaðist slíkt lamb prestslamb.

Lög nr. 16/1900, 3. apríl segja hvern, sem hefði til afnota jörð eða jarðarhluta, sem metin væru til dýrleika, eiga að fóðra lamb fyrir prestinn. Sömuleiðis hvern sem hefði grasnytjar af slægjulandi, hvort sem hann ætti það eða leigði, ef það gæfi af sér minnst tvö kýrfóður. Einnig húsmaður, þótt hann hefði ekki til umráða ákveðinn jarðarhluta eða afmarkað slægjuland, ef hann hefði svo miklar grasnytjar, að hann framfleytti þremur hundruðum kvikfénaðar.3Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–89 (3. grein). (Átt er við verðmat á kvikfénaði, ekki fjölda).

Prestslömb voru afnumin með lögum um sóknargjöld nr. 40/1909, 30. júlí.4Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203 (1. grein).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 185. Sjá og Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 229–230, Björn Þorsteinsson, „Tollr“. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454. — Athugandi er, að í Vilkinsmáldaga er ekki minnst á heytolla kirkna á Austurlandi. (Ekki hefur verið gerð frekari könnun í máldögum á þessari tollaskyldu).
2 Lovsamling for Island I, bls. 101–104 (sjá einkum bls. 101–102).
3 Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–89 (3. grein).
4 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203 (1. grein).