Skylt var við sölu að ganga á merki um land, skóga, engjar, reka, veiði og afrétti, ef til væru, og öll auðæfi (þ.e. ítök eða gæði), sem landinu ætti að fylgja, svo og auðæfa (ítaka), sem aðrir ættu í það land eða ættu að fylgja því í öðrum löndum samkvæmt landbrigðaþætti Grágásar. Ekki var skylt að ganga til merkja, ef firðir lágu fyrir eða ár, sem netnæmir fiskar gengu í, deildu landi, nema ef eyrar (réttara: eyjar) lágu fyrir landi og skyldi kveða á um þær. Sýna skyldi merki í eyjum, sem væru í sameign. Ekki var skylt að ganga á fjöll, þar sem vatnaskil væru milli héraða. Það varðaði fjörbaugsgarð, ef menn leyndu merkjum eða villtu fyrir mönnum eða færðu merkin.1Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Útgefin eptir skinnbókinni í bókasafni konungs á kostnað Fornritafjelags Norðurlanda í Kaupmannahöfn af Vilhjálmi Finsen. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 80–84.
Ákvæði landabrigðabálks Jónsbókar eru efnislega samhljóða en gagnorðari. Merkjaganga var áskilin innan tólf mánaða frá sölu.2Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 154–155. Þar er einnig lýst eignaskiptum á jörðum:
Meður skafti eða taugu á jörðum að skipta innan garðs en sjónhendingum utan garðs. Marksteina skal þar niður setja og grafa sem þeir verða ásáttir og leggja hjá þrjá steina og eru þeir kallaðir lýritar. Svo skulu héraðsmenn jörðum skipta með þeim mönnum öllum er þar eigu hlut í að vel megi hver síns njóta, og engi þeirra þurfi kvikfé sitt heiman yfir annars land að reka. … Um þveran dal skal í sundur skipta ef það er dalland, nema þar falli á sú að eigi gangi kvikfé yfir og sé þeim jafnhægt til, þá er rétt að skipta að endilöngum dalnum.3Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 152–153.
Norsku lög Kristjáns V. segja ekkert um ákvörðun landamerkja nema dómþing skyldi halda í þeirri þingsókn, sem umdeild eign lægi. Hver sem tæki upp, flytti eða setti landamerkjastein eða þoll (þ.e. staur) án löglegrar meðferðar, hann fremdi svik og ætti konungur hönd hans (þ.e. varðaði handarmissi).4Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögd. Hrappsey 1779, 11. og 740. dálkur.
Frumvörp um landamerki komu fram á Alþingi árin 1877 (ekki útrætt), 1879 (fellt) og 1881, sem samþykkt var með breytingum.5Alþingistíðindi 1877, síðari partur, bls. 515–522; Alþingistíðindi 1879, síðari partur, bls. 762–786; Alþingistíðindi 1881, fyrri partur, bls. 43–45, 282–288, 427–429, 489–491, 546–548, 553–555, síðari partur, bls. 408–425. Vísanir til Norsku laga eða Jónsbókar verða þar ekki séðar í fljótu bragði.
Landamerkjasteinar eru vel þekktir í landamerkjalýsingum og þá gjarnan tekið fram, að á þeim sé merkið LM, þ.e. landamerki eða önnur tákn sömu merkingar.
Landamerkjalög nr. 5/1882 voru staðfest 17. mars 1882. Hver landeigandi var skyldur til þess að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sína, hvort sem hann bjó á henni eða ekki. Sama gilti um umsjónarmenn jarða, sem ekki væru eign einstakra manna. Sama regla gilti um afrétti og aðrar óbyggðar lendur, eftir því sem við yrði komið. Þar sem ekki væru glögg landamerki, sem náttúran hefði sett, svo sem fjöll, gil, ár eða lækir, en sjónhending réði, skyldi setja marksteina eða hlaða vörður á merkjum með hæfilegu millibili eða hlaða merkjagarð eða grafa merkjaskurð. Eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldi skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar og geta ítaka eða hlunninda, sem aðrir ættu í land hans, svo og þeirra sem jörð hans ætti í annarra manna lönd. Merkjalýsinguna skyldi hann sýna hverjum, sem ætti land til móts við hann, og eigendum lands, sem hann teldi jörð sína eiga ítak í. Skyldu þeir rita samþykki sitt á lýsinguna, hver fyrir sína jörð. Þegar samþykki hefði verið fengið og áritað, átti að afhenda hana sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi.
Sýslumaður skyldi kanna á manntalsþingi, hvort þessum ákvörðunum hefði verið fullnægt. Við brotum lágu sektir, sem skyldu renna í sveitarsjóð. Hefðu menn ekki fullnægt ákvæðunum í 5 ár frá gildistöku laganna, átti að tvöfalda sektirnar fyrir hvert ár sem liði úr því. Sýslumaður átti að hafa löggilta landamerkjabók til þess að skrá í allar merkjalýsingar, samninga og dóma um merki, sem væru lesnir á þingi. Í lögunum voru einnig ítarleg ákvæði um ágreiningsmál og merkjadóm.6Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 54–59. Frestur til þess að fullnægja ákvæðum laganna frá 1882 var framlengdur um tvö ár með lögum nr. 31/1887.7Stjórnartíðindi 1887 A, bls. 136–137.
Viðbrögð við þessum lögum þóttu ekki mjög snörp. Árið 1917 var á Alþingi lagt fram frumvarp til merkjalaga en fellt með rökstuddri dagskrá: Næsta mál yrði tekið fyrir í trausti þess, að fram til næsta reglulegs þings rannsakaði ríkisstjórnin nauðsyn á endursamningu laganna og leggði fram frumvarp um það efni, ef nauðsyn virtist vera.8Alþingistíðindi 1917 A, bls. 369–372, 1594. Árið 1919 lagði ríkisstjórnin fram landamerkjafrumvarp, sem Einar Arnórsson lagaprófessor hafði samið ásamt ítarlegri greinargerð hans, eftir að lagadeild Háskóla Íslands hafði farið yfir hvort tveggja.9Alþingistíðindi 1919 A, bls. 165–182. Frumvarpið tók einhverjum breytingum í meðförum Alþingis og var staðfest sem lög um landamerki o.fl. nr. 41/1919, 28. nóvember.10Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 141–146. Eigendum eða fyrirsvarsmönnum jarða var skylt að setja merki milli jarða,– þar sem eigi væru glögg merki af völdum náttúrunnar. Sama gilti um merki milli jarða og afrétta eða óbyggðra lenda, ef sá krefðist, sem land ætti að afrétti eða lendu. Þá varð einnig skylt að setja merki um lönd hjáleigna, húsmannabýla og þurrabúða utan kaupstaða og löggiltra kauptúna, ef skipt land fylgdi þeim, svo og um aðrar lendur eða landhluta, sem skipt væri úr landi jarðar. Merkjaskrá skyldi gera og sýna hverjum, sem ætti land á móti, og aðilum ítaka og hlunninda. Samþykkta merkjaskrá skyldi afhenda hreppstjóra, sem athugaði, hvort allir aðilar hefðu ritað á hana samþykki sitt, og fengi hana síðan sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi. Ekki þyrfti að endurnýja merkjaskrá, sem gerð hefði verið löglega og hún þinglesin. Landeiganda var skylt að halda við löglega settum merkjum. Í hverju lögsagnarumdæmi skyldi vera löggilt landmerkjabók og valdsmaður rita í hana alla þinglýsta gerninga og dóma um landamerki. Jafnframt var valdsmönnum boðið að fylgjast með því, hvort merkjaskrám hefði verið þinglýst og fylgjast með hvort lögunum væri framfylgt. Jafnframt áttu hreppstjórar að hafa gætur á hinu sama.
Árið 2000 var staðfest breyting á lögum nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Fasteignamat ríkisins skyldi annast fasteignaskráningu og reka gagna- og upplýsingakerfi, sem nefndist Landskrá fasteigna og væri á tölvutæku formi. Í Landskrána skyldi skrá allar fasteignir í landinu og hún væri grundvöllur skráninga fasteigna, þinglýsingarbókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár Hagstofu Íslands, þjóðskrár og vera þannig að hún nýttist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum.11Stjórnartíðindi 2000 A, bls. 102–105. Lögin um skráningu og mat fasteigna voru gefin út í heild í upphafi næsta árs sem nr. 6/2001 og nokkrum greinum breytt sama ár, lög nr. 61/2001.12Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14, 120–121.
Ýmsum lögum, er varðaði eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipta sameign, landamerki o.fl.) var breytt með lögum nr. 74/2022. Fjallaði III. kafli um breytingu á fyrrnefndum lögum nr. 6/2001. Þar sagði m.a.:
Eigandi skal gera merkjalýsingu um fasteign sína og láta draga upp merkin með hnitum, enda liggi ekki fyrir þinglýst og og glögg afmörkun. Merkjalýsing skal árituð um samþykki eigenda aðliggjandi fasteigna.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu merkjalýsingar sem gerðar hafa verið í samræmi við eldri lög og þinglýst fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu þar til ný merkjalýsing hefur verið gerð, sbr. 6. gr. b.
Í þeim tilfellum þar sem merki eru ekki hnitsett eða glögg frá náttúrunnar hendi er eigendum skylt að viðhalda eldri merkjum eða setja ný.
Einnig segir í lögunum:
Eftirtaldar heimildir skulu skráðar í stofnhluta fasteignaskrár, sbr. 11. gr., og jafnframt birtar í landeignaskrá, sbr. 3. gr. a: [Hér og framvegis í þessari tilvitnun er vísað til laga nr. 6/2001.]
1. Merkjalýsing, sbr. 6. gr. a og 6. gr. d.
2. Lýsing á skiptingu, sameiningu eða öðrum breytingum á merkjum, sbr. 6. gr. b.
3. Sátt fyrir sýslumanni, sbr. 6. gr. g.
4. Dómssátt eða dómur um merki fasteigna, sbr. 6. gr. i.
Í landeignaskrá skal birta vottorð sýslumanns um sáttameðferð, sbr. 6. gr. g, til afmörkunar á þrætusvæði.
Heiti laganna frá 2001 breyttist jafnframt í lög um skráningu, merki og mat fasteigna. En þessi III. kafli skyldi ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2024 og þá falla úr gildi lög um landamerki o.fl. nr. 41/1919 auk ýmissa laga um mælingu og skrásetningu lóða á Akureyri, í kaupstöðum, löggiltum kauptúnum og Reykjavík, sbr. 14. grein laganna nr. 74/2022.13https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.074.html, sótt 4. apríl 2024. Landamerkjalögin frá 1919 eru því fallin úr gildi, þegar þetta er skrifað í apríl 2024.
Landamerkjabækur, sem gerðar hafa verið samkvæmt landamerkjalögunum frá 1882 og 1919, eru varðveittar úr öllum sýslum landsins. Þó skal á það bent, að eldri landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu er ekki eiginleg landamerkjabók heldur afsals- og veðmálabók og flokkast sem slík. Skjalasafn Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem var í vörslu sýslumanns, brann árið 1920. Því voru á næsta ári sett lög um afsals- og veðmálabækur sýslunnar, nr. 72/1921.14Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 273–275. Skyldi sýslumaður gefa út áskorun til allra, sem teldu sig eiga hlutbundin réttindi yfir fasteignum í sýslunni, að skila skjölum um það á skrifstofu sýslumanns innan ákveðins frests og sýslumaður síðan gera afsals- og veðmálabækur að nýju. Sama áskorun gilti um landamerkjaskjöl (8. grein laganna) og skyldi gera landamerkjabækur eftir framkomnum gögnum. Kæmu þau ekki fram, áður en frestur væri liðinn, skyldi ákveða merki samkvæmt landamerkjalögum.
Landamerkjaskjöl má finna í fjölmörgum söfnum. Landamerkjabækur eru í Þjóðskjalasafni Íslands, en þar má einnig leita í ýmsum skjölum og skjalaflokkum, svo sem jarðaskjölum og kirknaskjölum (sjá t.d. Skjöl varðandi stað og kirkju í Orðabelg Þjóðskjalasafns) auk ýmissa annarra skjala í söfnum presta og prófasta og biskupa, skjalasöfnum umboða (t.d. klaustra), dómsskjölum í skjalasöfnum sýslumanna og víðar, heimildir má finna í fasteignamötum og einkaskjalasöfnum. Í héraðsskjalasöfnum munu landamerkjaskjöl án efa liggja í ýmsum einkaskjalasöfnum, sem þar eru varðveitt. Í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns eru slík skjöl á víð og dreif tengd eigendum eða afhendendum skjalanna og er einnig að leita í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða Árnastofnun. Þá má nefna prentaðar bækur svo sem Íslenzkt fornbréfasafn og Alþingisbækur Íslands.
Í ábúðarlögum nr. 1/1884 segir í 3. grein, að í byggingarbréfi skuli greina landamerki jarðar og geta ítaka, sem jörðin ætti í annarra manna lönd, og kvaða og ískyldna á henni.15Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17. Landamerkja- og ítakaákvæði hafa síðan haldist í ábúðarlögum. Nú (2024) eru í gildi ábúðarlög nr. 80/2004.16https://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html, sótt 3. apríl 2024. Sjá Byggingarbréf í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands. (Mætti gera miklu ítarlegri. Gert 2017 og vitnað í ábúðarlög frá 2004.)
Þegar hugað er að landamerkjum, þarf einnig að hafa veiðirétt í hugam
, en þess eru dæmi, að veiðiréttur hafi verið seldur undan jörðum. Í landbrigðaþætti Grágásar segir, að hver maður eigi að veiða fugla og fiska í sínu landi.17Grágás. Elzta lögbók Íslendinga, bls. 122–1234. Búnaðarbálkur Jónsbókar kveður svo á:
Hver maður á vötn og veiðistöð fyrir sinni jörðu og á, svo sem að fornu hefir verið, nema að lögum sé frá komið.18Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 195–196.
Áþekk ákvæði eru í Norsku lögum Kristjáns V.19Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögd, 616. dálkur. Gefin var út tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849.20Lovsamling for Island XIV, bls. 307–321. Þá voru afnumin gildandi lög um fugla-, dýra- og selveiðar, en allar greinar um fiskveiðar, sem ekki væri breytt í tilskipuninni, og um hvalveiðar skyldu fyrst um sinn standa óraskaðar (21. grein). Árið 1886 voru staðfest lög um friðun á laxi, nr. 5/1886.21Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 24–29. Þar sagði í 10. grein, að ákvarðanir í 56. kafla landsleigubálks Jónsbókar um veiði í ám væru numdar úr lögum. Í þessum kafla er áðurnefnd tilvitnun um eignarhald á vötnum og veiðistöðum og svo virðist sem eignarhaldsákvæðið hafi verið virt.
Ýmis dæmi eru um sölu á veiðirétti undan jörðum, en í vatnalögum nr. 15/192322Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 29–72. segir í 121. grein, XIII. kafla, Almenn ákvæði um veiði í vötnum:
1. Landeiganda og þeim, sem hann veitir heimild til, er einum heimil veiði í vatni á landi sínu.
2. Eigi má skilja veiðirjett að nokkru leyti eða öllu við landareign, nema um tiltekið árabil, eigi lengra en 10 ár í senn, nema leyfi ráðherra komi til eða önnur hlunnindi komi á móti, er þeirri landareign sje ekki metin minna verð en veiðirjetturinn.
Þá voru numin úr gildi þau ákvæði landsleigubálks Jónsbókar, sem greindu um meðferð vatns og veiði í vötnum. Lög þessi eru mjög ítarleg og að mörgu leyti enn (2024) í gildi með áorðnum breytingum.23https://www.althingi.is/lagas/154a/1923015.html, sótt 12. apríl 2024. Kaflinn Almenn ákvæði um veiði í vötnum féll úr gildi með lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/1932.24Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 29–72. En þar segir m.a. 2. grein í II. kafla, Um veiðirétt:
1. Landeiganda er einum heimil veiði í vötnum á landi sínu.
4. Eigi má skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma, sbr. þó 2. málsgr. 55. gr. Þó má skilja rétt til stangarveiði við landareign um tiltekið tímabil, er eigi má vera lengra en 10 ár, nema leyfi ráðherra komi til, og mæli veiðimálastjóri og veiðimálanefnd með því að leyfið sé veitt.
Nú (2024) eru í gildi lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.25https://www.althingi.is/lagas/154a/2006061.html, sótt 12. apríl 2024. Um veiðirétt segir í 5. grein, II. kafla Um veiðirétt:
Eignarlandi hverju fylgir veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum.
Í þjóðlendum er íslenska ríkið eigandi veiðiréttar samkvæmt lögum þessum með þeim takmörkunum sem leiðir af veiðirétti afréttareigenda, sbr. ákvæði 7. gr.
Sjá einnig Landskipti / Landskiptabækur í Orðabelg Þjóðskjalasafns.
(Umfjöllun um landamerki: Ölvir Karlsson, Landamerki jarða. 30 eininga ritgerð sem er hluti af Magister Legis gráðu í lögfræði. Leiðbeinandi Árni Pálsson, hrl. Lagadeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri Akureyri, júní 2015. Sjá: https://skemman.is/bitstream/1946/21997/1/%C3%96lvir%20Karlsson.%20MLritger%C3%B0.%20Lokaskjal.%20skemman.pdf, sótt 2. apríl 2024.
Umfjöllun um veiðirétt: Pétur Örn Pálmarsson, Meginreglan um að eignarhald á landi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi. BA–ritgerð í lögfræði við Háskólann í Reykjavík 2012. Leiðbeinandi Kristín Haraldsdóttir, https://skemman.is/bitstream/1946/12326/1/SKILAEINTAKpdf.pdf, sótt 8. apríl 2024.)
Tilvísanir
↑1 | Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Útgefin eptir skinnbókinni í bókasafni konungs á kostnað Fornritafjelags Norðurlanda í Kaupmannahöfn af Vilhjálmi Finsen. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 80–84. |
---|---|
↑2 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 154–155. |
↑3 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 152–153. |
↑4 | Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögd. Hrappsey 1779, 11. og 740. dálkur. |
↑5 | Alþingistíðindi 1877, síðari partur, bls. 515–522; Alþingistíðindi 1879, síðari partur, bls. 762–786; Alþingistíðindi 1881, fyrri partur, bls. 43–45, 282–288, 427–429, 489–491, 546–548, 553–555, síðari partur, bls. 408–425. |
↑6 | Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 54–59. |
↑7 | Stjórnartíðindi 1887 A, bls. 136–137. |
↑8 | Alþingistíðindi 1917 A, bls. 369–372, 1594. |
↑9 | Alþingistíðindi 1919 A, bls. 165–182. |
↑10 | Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 141–146. |
↑11 | Stjórnartíðindi 2000 A, bls. 102–105. |
↑12 | Stjórnartíðindi 2001 A, bls. 7–14, 120–121. |
↑13 | https://www.althingi.is/altext/stjt/2022.074.html, sótt 4. apríl 2024. |
↑14 | Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 273–275. |
↑15 | Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17. |
↑16 | https://www.althingi.is/lagas/nuna/2004080.html, sótt 3. apríl 2024. |
↑17 | Grágás. Elzta lögbók Íslendinga, bls. 122–1234. |
↑18 | Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578, bls. 195–196. |
↑19 | Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögd, 616. dálkur. |
↑20 | Lovsamling for Island XIV, bls. 307–321. |
↑21 | Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 24–29. |
↑22 | Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 29–72. |
↑23 | https://www.althingi.is/lagas/154a/1923015.html, sótt 12. apríl 2024. |
↑24 | Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 29–72. |
↑25 | https://www.althingi.is/lagas/154a/2006061.html, sótt 12. apríl 2024. |