Úttekt, úttektarbækur

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 5 mín

Orðið úttekt táknar í þessu sambandi skoðun og virðingu húsa og mannvirkja, sem jörð fylgja, svo og innstæðukúgilda, ef til eru. Einnig gat verið um að ræða skoðun á landi og landsnytjum. Ástandi alls þessa var lýst í úttekt (úttektargerð) og ákveðið álag vegna galla, þ.e. metið, hvað mundi kosta að koma í lag því, sem ábótavant var. Úttekt á sér fyrst og fremst stað vegna ábúendaskipta á jörð. Einnig getur úttekt farið fram vegna landsskemmda, meðferðar á mannvirkjum og jörð, ellegar vegna breytinga, sem nauðsynlegar eða hagkvæmar teljast.1Magnús Már Lárusson, „Leiglending“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkur 462; Þorvaldur Thoroddsen, Lýsing Íslands III. Kaupmannahöfn 1919, bls. 30–35; Páll Briem, „Erfðaábúð, sjálfsábúð og leiguábúð“, Lögfræðingur III, bls. 126–129, 160–162. Samkvæmt fornum lögum bar leiguliði ekki ábyrgð á fyrningu húsa, hins vegar var hann ábyrgur fyrir handvömmum sínum. Húsum skyldi leiguliði halda uppi, en landsdrottinn leggja til við.2Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 136–137; Grágás. Staðarhólsbók. København 1879, bls. 499–503; Jónsbók. Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1283 og réttarbætr de for Island givne retterbøder af 1294, 1305 og 1314. Köbenhavn 1904, bls. 130–132. Landeigendur gerðust með tímanum iðnir við að koma kostnaði vegna viðhalds húsa og mannvirkja yfir á landsetana. Sýndi konungur og hans menn þar fordæmi, að því er virðist.3Lovsamling for Island I, bls. 126–127, 149–150, 182–183. Eru til ýmsar tilskipanir, sem leggja viðhaldsskyldu á leiguliða. Í tilskipun 29. nóvember 1622 segir m.a., að konungur bjóði strengilega, að bæði ekkjur og aðrir, sem í landinu búa, skuli sjálfir afla sér viðar til að byggja og bæta hús sín.4Lovsamling for Island I, bls. 209–211. Hér er fyrst og fremst átt við konungsjarðir, en aðrir jarðeigendur hafa fylgt eftir. Virðingar sáu nábúar um, fimm eða sex, samkvæmt fornum lögum. Í Norsku lögum er gert ráð fyrir, að sex menn annist úttekt með sýslumanni.5Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 99–100 (1. bók, 16. kafli). Þannig átti að taka út spítalajarðirnar og hjáleigur þeirra eftir spítalatilskipuninni 21. maí 1746 (1. grein).6Lovsamling for Island II, bls. 581. Í tilskipun um ráðstafanir til viðhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir, 24. júlí 1789, sagt, að tveir menn skyldu taka út kirkjur, prestssetur og mensaljarðir (lénsjarðir presta), þegar prestar létust, flyttu eða þörf kallaði og biskup byði.7Lovsamling for Island V, bls. 649–651 (sjá einkum 3. grein). Páll Briem segir í tímaritinu Lögfræðingur:

En seint á 18. öld varð sú breyting á, að tveir eiðsvarnir menn áttu í ýmsum ástæðum að meta landsspjöll, en af því leiddi Magnús Stephensen, að nægilegt væri, að tveir menn framkvæmdu úttektir.8Páll Briem, „Erfðaábúð, sjálfsábúð og leiguábúð“, Lögfræðingur III, bls. 160.

Sá er gallinn, að Magnús Stephensen vitnaði baki brotnu í tilskipanir, sem ekki höfðu verið birtar á Íslandi.9Magnús Stephensen, Hentug handbók fyrir hvörn mann, með útskýringum hreppstjórnar instruxins, innihaldandi ágrip, safn og útlistun helstu gildandi lagaboða um Íslands landbústjórn, og önnur almenning umvarðandi opinber málefni. Leirárgarðar 1812, bls. 270, neðanmáls, g-liður. Hreppstjórainstrúxið 24. nóvember 1809 (53. og 55. grein, 2. töluliður, niðurlag) lagði úttektar- og skoðunargerðarskyldu á herðar hreppstjóra.10Lovsamling for Island VII, bls. 333–334, 336–337. Heildarlagasetning um þessi mál varð til með lögum nr. 1/1884, 12. janúar, um byggingu, ábúð og úttekt jarða. Hafði það lengi verið að velkjast fyrir mönnum.11Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17; Alþingistíðindi 1879 I, bls. 51–53. Nú (2017) eru í gildi ábúðarlög nr. 80/2004, 9. júní. Fjallað er um úttektir jarða í 39.–44. grein laganna og frágang og skil ábúðarjarða, mannvirkja o.fl. í 47. grein.12Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/2004080.html, sótt 27. nóvember 2017.

Þótt því hafi verið haldið fram, að álögur hafi verið þyngstar á konungslandsetum og kvaðaaukning komið fyrst niður á þeim, bendir ýmislegt til þess, að kirkjan hafi þar ekkert gefið eftir og jafnvel gengið á undan. Sést þetta best með athugun á jarðabókum. Kirkjulög voru það ströng, að biskupar höfðu öruggt taumhald á prestum sínum og undirmönnum, þótt eigendur bændakirkna gætu frekar trassað viðhald og byggingu kirkna sinna. Kirkjum á stöðum varð að halda í góðu lagi og gæta vel eigna þeirra. Því hafa lagst þyngri kvaðir á kirkjulandseta vegna viðhalds kirkna og jarða.

Við siðaskipti tók konungur í sínar hendur eftirlit með kirkjueignum. Kirkjuskipun Kristjáns III, árið 1537, bauð biskupum, að í fyrstu visitasíu heimsæktu þeir allar sóknarkirkjur og skráðu eignir þeirra og tekjur. Skrár þessar skyldu biskupar varðveita en afhenda konungi annað eintak.13Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 233. Kirkjuskipun Kristjáns IV 1607 skipaði prestum að gæta vel prestssetranna, svo að þau misstu einskis af því, sem þau ættu eða hefðu átt.14Lovsamling for Island I, bls. 159. Árið 1596 fól höfuðsmaður biskupum að áminna presta um að láta prestssetur eða kirkjujarðir ekki níðast niður, að viðlögðum embættismissi. Þetta var ítrekað í konungsbréfi til stiftamtmanns árið 1708 og minnt á álitsgerð Þórðar biskups Þorlákssonar og presta hans, að prestum bæri ekki aðeins að halda prestssetrum við heldur bæta þau að auki.15Lovsamling for Island I, bls. 135–136, 654–655.

Í fyrrnefndri tilskipun um ráðstafanir til viðhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir, frá árinu 1789, segir, að það sé ævagömul venja á Íslandi, að prófastar taki út kirkjur, prestssetur, kirkjujarðir og „inventaria“ þeirra við prestaskipti, og þegar þörf krefji. Þar segir ennfremur, að úttektargerðir skuli rita í kirkjubækurnar (þ.e. kirkjustólana), lýsa í þeim ásigkomulagi hvers hlutar og geta breytinga, sem orðið hefðu frá síðustu úttekt, svo og álags, sem gert væri fyrir annmarka og hrörnun. Síðan skyldi gera ráðstöfun til þess að bæta það, sem áfátt væri. Tilskipunin er enn í gildi að allnokkru leyti (2017).16Lovsamling for Island V, bls. 649–651; Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1789247.html, sótt 27. nóvember 2017. Með lagabreytingu nr. 29/1875, 17. desember, var það sett prófasti í vald, hvort og að hve miklu leyti úttekt næði til léns- og kirkjujarða.17 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 128. Það ákvæði missti gildi sitt eftir því sem hreppstjórar tóku við umsjón kirkjujarða, sbr. 8. og 9. grein laga um laun sóknarpresta nr. 46/1907, 16. nóvember.18Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–295. Reglan mun hafa verið sú, að prófastur tilnefndi úttektarmenn og stýrði úttektargerðinni en tók ekki þátt í því að meta gallana og ákveða álagið, það gerðu úttektarmennirnir.19Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 157. Úttektir þessar geta verið færðar í sérstakar bækur, úttektarbækur, visitasíubækur eða laus kver eða blöð, auk kirkjustólanna. Benda má á gamlar úttektir í „Héraðsbókum“ feðganna Halldórs Jónssonar og Hannesar Halldórssonar í Reykholti, frá árunum 1633–1669 og 1704–1731.20ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1–2. Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699, Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1731.

Áðurnefnd tilskipun frá árinu 1789 gerir ráð fyrir úttekt prófasta á kirkjujörðum. Ekki verður séð, að slíkar úttektir hafi yfirleitt farið fram við prestaskipti. Hins vegar er í skjalasöfnum presta og prófasta allnokkuð af úttektum kirkjujarða, sem gerðar hafa verið við ábúendaskipti. Ekki verður séð, að prófastar hafi að jafnaði komið þar við sögu. Prófastar hafa yfirleitt tekið út prestssetur eða prestsbústaði við prestaskipti eða þegar miklar endurbætur eða breytingar hafa orðið, svo og nýjar eða endurbyggðar kirkjur. Í starfsreglum prófasta frá árinu 1998, sem tóku gildi 1. janúar 1999, (17. grein) segir um úttektir:

Prófastur annast þær úttektir í prófastsdæminu sem hér greinir:
a) úttekt á nýbyggðri kirkju og eignum hennar svo og þegar kirkja hefur verið endurbyggð
b) úttekt á kirkju, þegar hún hefur verið afhent söfnuði, sbr. lög um umsjón og fjárhald kirkna nr. 22 16. nóvember 1907
c) úttekt á prestssetri við starfslok sóknarprests og við afhendingu prestsseturs til viðtakandi sóknarprests eða prestssetrasjóðs, sbr. lög um prestssetur nr. 137 31. desember 1993
d) úttekt á prestssetri þegar gagngerðar endurbætur hafa farið fram eða þegar þess er óskað af lögbærum aðilum, sbr. lög um prestssetur nr. 137 31. desember 1993
e) úttekt á bókasafni prestakalls, sbr. lög nr. 17 6. júlí 1931
f) úttekt á kirkju, sem lögð er niður eða réttarstöðu hennar er breytt.21Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168.

Í sömu reglum (18. grein) segir m.a., að prófastur hafi tilsjón með prestssetrum, kirkjum, kirknaeignum og kirkjugörðum og grafreitum. Í því felist, að hann gæti þess, að réttindi gangi ekki undan, umgengni sé góð, rekstur, öll meðferð og afnot eigna sé við hæfi og samkvæmt lögum og reglum. Ef tilmælum prófasts um úrlausn annmarka sé ekki sinnt, sendi hann hlutaðeigandi stjórnvöldum eða biskupi málið til úrlausnar.22Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169. Starfsreglur prófasta voru endurskoðaðar árið 2006. Þá urðu áðurnefndar greinar að nr. 19 og 20, en efnisatriði breyttust ekki.23Vef. https://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 27. nóvember 2017.

Auglýsing um starfsreglur kirkjuþings um prestssetrasjóð frá 15. nóvember 1999 kveður á um úttektir (9. grein), um hlutverk prófasta varðandi eftirlit með prestssetrum (10. grein) og um stjórn úttekta (12. grein).24Stjórnartíðindi 1999 B, bls. 2552–2553. Nýjar starfsreglur voru auglýstar 8. nóvember 2000, sem giltu frá 1. janúar 2001.25Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2315–2319. Þar eru ákvæði um, hvenær prestssetur skyldi tekið út og að prófastur stýrði úttekt og boðaði fulltrúa stjórnar prestssetrasjóðs til úttektarinnar (9. grein), viðkomandi vígslubiskup og prófastur hefðu eftirlit með prestssetri, en prófastur gætti sérstaklega að hvers konar réttindum, sem tilheyrðu prestssetrinu, sbr. eldri lög (10. grein).26Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2317.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Már Lárusson, „Leiglending“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkur 462; Þorvaldur Thoroddsen, Lýsing Íslands III. Kaupmannahöfn 1919, bls. 30–35; Páll Briem, „Erfðaábúð, sjálfsábúð og leiguábúð“, Lögfræðingur III, bls. 126–129, 160–162.
2 Grágás. Elzta lögbók Íslendinga. Síðari deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 136–137; Grágás. Staðarhólsbók. København 1879, bls. 499–503; Jónsbók. Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa altinget 1283 og réttarbætr de for Island givne retterbøder af 1294, 1305 og 1314. Köbenhavn 1904, bls. 130–132.
3 Lovsamling for Island I, bls. 126–127, 149–150, 182–183.
4 Lovsamling for Island I, bls. 209–211.
5 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 99–100 (1. bók, 16. kafli).
6 Lovsamling for Island II, bls. 581.
7 Lovsamling for Island V, bls. 649–651 (sjá einkum 3. grein).
8 Páll Briem, „Erfðaábúð, sjálfsábúð og leiguábúð“, Lögfræðingur III, bls. 160.
9 Magnús Stephensen, Hentug handbók fyrir hvörn mann, með útskýringum hreppstjórnar instruxins, innihaldandi ágrip, safn og útlistun helstu gildandi lagaboða um Íslands landbústjórn, og önnur almenning umvarðandi opinber málefni. Leirárgarðar 1812, bls. 270, neðanmáls, g-liður.
10 Lovsamling for Island VII, bls. 333–334, 336–337.
11 Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 2–17; Alþingistíðindi 1879 I, bls. 51–53.
12 Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/2004080.html, sótt 27. nóvember 2017.
13 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 233.
14 Lovsamling for Island I, bls. 159.
15 Lovsamling for Island I, bls. 135–136, 654–655.
16 Lovsamling for Island V, bls. 649–651; Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1789247.html, sótt 27. nóvember 2017.
17 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 128.
18 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–295.
19 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 157.
20 ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1–2. Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699, Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1731.
21 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2168.
22 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169.
23 Vef. https://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 27. nóvember 2017.
24 Stjórnartíðindi 1999 B, bls. 2552–2553.
25 Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2315–2319.
26 Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2317.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 111