Visitasíubækur

Síðast breytt: 2021.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 5 mín

Íslensku biskuparnir skyldu árlega fara um biskupsdæmi sín, Hólabiskup um það allt, en Skálholtsbiskup einn fjórðung, og koma í hvern hrepp, svo að menn næðu fundi þeirra, vígja kirkjur, ferma börn og veita mönnum skriftagöngur.1Grágás. Staðarhólsbók. København 1879, bls. 22; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 10, 16. Þetta nefndist að vísitera. Þá átti jafnframt að athuga embættisfærslu presta og kirkjureikninga.2Göran Inger, „Visitation“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XX, dálkar 186–190; Jakob Benediktsson, „Visitation, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XX, dálkur 194; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 26; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 110–114. Prófastar virðast hafa átt að fara einu sinni á ári um sóknir í umdæmi sínu.3Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 466 (12. liður), 472 (12. liður); Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 203. Breytingar urðu á þessu við siðaskipti með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 og síðar með kirkjuskipun Kristjáns IV árið 1607, Norsku lögum Kristjáns V árið 1687 og erindisbréfi biskupa árið 1746.4Lovsamling for Island I, bls. 50–54, 165–168; Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 248–259; Lovsamling for Island II, bls. 649–654 (2.–18. grein); Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls, 136–141. Var fyrst lögð áhersla á eftirlit með prestum og söfnuðum og kirkjueignum og launamálum kirkjunnar manna, en síðar var megináherslan lögð á eftirlit með þekkingu og framferði prests og safnaðar. Þá var ákveðið, að Hólabiskup skyldi fara yfir umdæmi sitt á 3 árum, en Skálholtsbiskup á 5-6 árum. Í Norsku lögum var sagt, að biskupar skyldu árlega koma á kirkjurnar í þeirra stifti, svo margar sem þeir gætu komið við og engin kirkja yrði óvísiteruð í þrjú samfelld ár.5Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkur 251 (9. liður).

Bækur þær, sem í er skráð það, sem fram fer við visitasíu, nefnast visitasíubækur. Þar er fyrst og fremst lýst eignum kirkna, föstum og lausum, og ítökum, eignarbréfum, kirkjuhúsi, skrúða og innanstokksmunum og fylgifé með áorðnum breytingum frá síðustu visitasíu, tekjum og gjöldum, kunnáttu og framferði prests og safnaðar og samkomulagi þeirra. Elstu, íslensku biskupsvisitasíubækurnar eru frá fyrri hluta 17. aldar. Fyrirrennarar þeirra voru máldagabækur, þar sem skráðar voru eignir kirkna og ítök. (Sjá Kirkjustóll eða Skjöl varðandi stað og kirkju).

Prófastar urðu umboðsmenn (þ.e. aðstoðarmenn) biskupa með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537. Þeir áttu að vísitera hverja kirkju í umdæmi sínu árlega, athuga reikninga kirkna, skýra barnalærdóm, veita náðarmeðul, kanna kunnáttu og hegðun sóknarfólks, athuga kirkjur og kirkjugarða og kynna sér launamál presta.6Lovsamling for Island I, bls. 50, 52–53. Síðar var meiri áhersla lögð á könnun andlegs ástands presta og safnaða, einkum æskulýðsins, s.s. í Norsku lögum Kristjáns V árið 1687, í tilskipun um barnaspurningar árið 1744.7Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 244–248; Lovsamling for Island II, bls. 522–523 (15. grein.). Í Norsku lögum er einnig skilið á um kirkjukönnun prófasta.8Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 280–281 (8. og 9. liður). Reglum um visitasíur var breytt í erindisbréfi biskupa árið 1746, svo að prófastar í Múla-, Rangárvalla-, Árness-, Ísafjarðar- og Þingeyjarsýslum máttu taka tvö ár til þess að vísitera umdæmi sín, en aðrir skyldu vísitera árlega með tilheyrandi skýrslugerð.9Lovsamling for Island II, bls. 654–655 (21. grein). Stjórnvöldum virðist hafa verið ljóst, að þetta var misbrestasamt og stiftamtmaður og biskupar fengu fyrirmæli um, að kirkjur á konungsjörðum yrðu vísiteraðar árlega, 5. júlí 1781, og gerð nákvæm grein fyrir göllum og úrbótum. Var vísað til slæms ástands kirkna á Möðruvalla- og Þingeyraklaustrum.10Lovsamling for Island IV, bls. 625. Þetta var ítrekað í kansellíbréfi til stiftamtmanns, Stefáns Þórarinssonar amtmanns og beggja biskupa 5. júní 1784.11Lovsamling for Island V, bls. 85. Biskup og prófastar halda enn visitasíubækur, en vísitera ekki reglubundið, þó eru enn (2017) í gildi áðurnefnd ákvæði erindisbréfs biskupa frá árinu 1746 um visitasíur prófasta.12Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1746017.html, sótt 27. nóvember 2017.

Í fyrirmælum um tekjur presta og kirkna 17. júlí 1782 er tekið fram, að reikningar kirkna skyldu framvegis færðir í kúrantmynt og prófastar við visitasíur sem og prestar endurskoða reikningana nákvæmlega, áður en þeir yrðu staðfestir. Prestar skyldu fá greiðslu fyrir reikningaskoðun kirkna sinna og prófastar fyrir visitasíur frá hverri kirkju í prófastsdæminu.13Lovsamling for Island IV, bls. 669–670 (16. grein).

Væntanlega hafa prófastar tekið biskupa sér til fyrirmyndar með færslu visitasíubóka. Elsta prófastsvisitasíubókin er „Héraðsbók“ Halldórs Jónssonar í Reykholti fyrir árin 1663-1699. Sú bók er allt í senn: Bréfa-, visitasíu- og máldagabók.14ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1. Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699. Sömu atriði eru tekin til meðferðar í visitasíubókum biskupa og prófasta. Nú er fyrst og fremst lýst kirkjuhúsum, kirkjugripum og kirkjugörðum, greint frá ástandi þeirra, ágöllum, umbótum og viðaukum og aðgerðarþörf. Einnig voru prestsseturshús athuguð og embættisbækur. Að sambandi safnaðar og prests er því aðeins vikið jafnaðarlega, að sérstakar ástæður séu til þess. Hætt er að kanna kunnáttu fermingarbarna, en það fer eftir óskum biskups, hvort þau mæta við visitasíur.

Eftir sameiningu Skálholts- og Hólabiskupsdæma dró mjög úr visitasíum biskupa.15Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 140–141. Steingrímur Jónsson og Hallgrímur Sveinsson voru einu biskuparnir á 19. öld, sem lögðu verulega áherslu á visitasíur. Bættar samgöngur á sjó og landi urðu svo til þess, að biskupar á 20. öld gátu farið yfir biskupsdæmið með skipulegri hætti. Svo virðist sem prófastar hafi dregið mjög úr visitasíum og vísiterað óreglulegar, eftir að farið var að byggja kirkjur úr varanlegu efni og síður þurfti að fylgjast með viðhaldi þeirra. Hugsanlega gæti einnig verið um að ræða afleiðingar þess, að árlega átti að halda héraðsfundi, þar sem málefni hvers prófastsdæmis voru rædd.16Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31 (10. grein); 1907 A, bls. 218–221 (17.–20. grein). (Sjá Sóknarnefndir, safnaðarfundir, héraðsfundir). Þegar kemur fram á fimmta áratug 20. aldar virðist sem prófastsvisitasíur verði næsta tilviljanakenndar í mörgum prófastsdæmum, þótt e.t.v. hafi verið fyrir því einhverjar ástæður, sem alls ekki liggja í augum uppi. Er það álit byggt á athugun á visitasíubókum prófasta. Í starfsreglum prófasta, sem settar voru 10. desember 1998, hljóðar 19. grein svo:

Prófastur vísiterar söfnuði, kirkjur, kirkjugarða og heimagrafreiti reglubundið og þegar þess er óskað svo sem vegna meiri háttar framkvæmda á vegum safnaða eða vegna sérstakra viðburða svo sem kirkjuhátíða.17Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169.

Starfsreglur prófasta, sem tóku gildi 1. janúar 2007, segja um þetta efni í 21. grein:

Prófastur vísiterar prestaköll, söfnuði, kirkjur, kapellur, kirkjugarða og grafreiti reglubundið. Við skipulag vísitasía sinna gætir prófastur samræmis við ákvörðun biskupafundar um skipulag á vísitasíum biskups Íslands og vígslubiskupa. Prófastur vísiterar og þegar þess er óskað svo sem vegna meiri háttar framkvæmda á vegum safnaða eða vegna sérstakra viðburða svo sem kirkjuhátíða. Prófastur heldur vísitasíubók sem varðveitir kirkjulýsingar og munaskrá og sendir biskupi endurrit úr henni að lokinni vísitasíu sem og fundargerðir.18Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 27. nóvember 2017.

Kveðið er á um eftirlitsskyldu prófasts með prestssetrum, kirkjum, kirknaeignum og kirkjugörðum í báðum starfsreglunum. Í því felst, að prófastur gæti þess, að réttindi gangi ekki undan, umgengni sé góð og öll meðferð og afnot eigna sé við hæfi og samkvæmt lögum og reglum, og beiti sér fyrir úrbótum, ef annmarkar eru á meðferð réttinda og eigna. Ef tilmælum prófasts er ekki sinnt, á hann að senda hlutaðeigandi stjórnvöldum eða biskupi málið til úrlausnar. Í fyrri reglunum segir, að ekki eigi að líða meira en þrjú ár að jafnaði milli athugunar á réttindum, eignum og kirkjugörðum. Það er hins vegar fellt niður í yngri reglunum.19Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169 (18. grein); Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7 (20. grein), sótt 27. nóvember 2017. Prófastur er skyldugur til þess að varðveita embættisbækur og önnur gögn prófastsdæmisins tryggilega.20Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7 (8. grein, síðasta málsgrein), sótt 27. nóvember 2017.

Starfsreglur fyrir biskup eru ekki til.21Vef. http://kirkjan.is/um/biskup/, sótt 27. nóvember 2017. Engin ákvæði eru um visitasíur biskups í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí.22Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 27. nóvember 2017. Starfsreglur vígslubiskupa frá árinu 2006 segja þá eiga að vísitera prestaköll og söfnuði í umdæmi sínu eftir áætlun biskupafunda.23Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-vigslubiskupa-nr-9682006/, sótt 27. nóvember 2017.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Grágás. Staðarhólsbók. København 1879, bls. 22; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 10, 16.
2 Göran Inger, „Visitation“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XX, dálkar 186–190; Jakob Benediktsson, „Visitation, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XX, dálkur 194; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 26; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 110–114.
3 Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 466 (12. liður), 472 (12. liður); Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 203.
4 Lovsamling for Island I, bls. 50–54, 165–168; Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 248–259; Lovsamling for Island II, bls. 649–654 (2.–18. grein); Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls, 136–141.
5 Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkur 251 (9. liður).
6 Lovsamling for Island I, bls. 50, 52–53.
7 Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 244–248; Lovsamling for Island II, bls. 522–523 (15. grein.
8 Kong Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 280–281 (8. og 9. liður).
9 Lovsamling for Island II, bls. 654–655 (21. grein).
10 Lovsamling for Island IV, bls. 625.
11 Lovsamling for Island V, bls. 85.
12 Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1746017.html, sótt 27. nóvember 2017.
13 Lovsamling for Island IV, bls. 669–670 (16. grein).
14 ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1. Héraðsbók Halldórs Jónssonar í Reykholti 1663–1699.
15 Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 140–141.
16 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31 (10. grein); 1907 A, bls. 218–221 (17.–20. grein).
17 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169.
18 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 27. nóvember 2017.
19 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169 (18. grein); Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7 (20. grein), sótt 27. nóvember 2017.
20 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7 (8. grein, síðasta málsgrein), sótt 27. nóvember 2017.
21 Vef. http://kirkjan.is/um/biskup/, sótt 27. nóvember 2017.
22 Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 27. nóvember 2017.
23 Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-vigslubiskupa-nr-9682006/, sótt 27. nóvember 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 171