Lénsmaður

Síðast breytt: 2025.12.09
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Lénsmaður var æðsti embættismaður konungs á Íslandi eftir siðaskipti og fram til 1683 þegar við tóku embætti stiftamtmanns og amtmanns. Lénsmenn voru ýmist danskir, norskir eða þýskir aðalsmenn og var landið þá ýmist haldið sem afgjaldslén, reikningslén eða þjónustulén. Lénsmaðurinn átti að kunngera fyrirskipanir konungs, sjá um að þeim væri framfylgt og innheimta tekjur af eignum konungs í léninu. Hann hafði eftirlit með réttarfarinu, innheimtu sakeyris og að réttri kirkjuskipan væri fylgt. Hann hafði rétt til að setja menn í embætti og átti að hafa eftirlit með versluninni. Jafnframt hafði hann sérstaklega umsjón með konungsgarðinum Bessastöðum og Viðey, auk Arnarstapa í Snæfellsnessýslu frá árinu 1565 en þá lögðust jarðir Helgafellsklausturs til Arnarstapa sem varð þá sérstakt umboð sem átti að skila reikningi til Bessastaða.

Önnur embættisheiti á lénsmanni eða konunglegum fógeta í íslenskum heimildum eru hirðstjóri, lénsherra, befalingsmaður, umboðsmaður, höfuðsmaður, junker og fógeti. Þessi fjölbreytni í embættisheitum er sambærileg því sem tíðkaðist í öðrum lénum Danakongs annars staðar í ríkinu.

Heimild

Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 19–20.

Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 15