Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Jarðabókarsjóðsreikningar

Jordebogskasseregnskaber

Jarðabókarsjóðsreikningar voru að stofni til lénsreikningar Íslands, sem einkum náðu yfir tekjur af fasteignum konungs.

Umboðsmaður konungs, höfuðsmaður, eða umboðsmaður hans, fógeti, og síðar landfógeti, átti að gera skýrslur um fasteignir konungs og tekjur af þeim, jarðabók, og standa skil á tekjunum. Þannig varð Jarðabókarsjóðsnafnið til.

Konungstekjur greindust í tvennt, vissar og óvissar tekjur. Vissar tekjur (sem raunar gátu verið ærið breytilegar) voru: Manntalsbókargjöld, sem sýslumenn innheimtu og skiluðu til landfógeta, þ.e. skattur, gjaftollur, manntalsfiskur, konungstíund og lögmannstollur. Óvissar tekjur voru: Sakeyrir, afgjöld af jörðum og ítökum, tekjur af verslun og ýmsir skattar, sem lagðir voru á af sérstöku tilefni, svo sem heimanfylgja prinsessu, en sá skattur var lagður á einu sinni, um 1750.

Siðaskiptin gerbreyttu tekjustofnum konungs. Ber þar einkanlega að nefna jarðeignir klaustranna, sem konungur lagði undir sig, auk annarra tekna, sem hann náði frá kirkjunni. Manntalsbókargjöldin (önnur en skattur) urðu til eftir siðaskipti eða komu frá kirkjunni, og sakeyrishluti konungs jókst mjög af sömu ástæðu.

Ýmsir skattar bættust við frá því, að landfógetaembættið var stofnað árið 1683 og þangað til Alþingi fékk fjármál Íslands í sínar hendur og nýtt skattkerfi varð til með lögum árið 1877. Þá féllu manntalsbókargjöldin niður. Meðal þeirra skatta voru: Aukaskattur, nafnbótarskattur, prósentu- eða hundraðsskattur, erfðafjárskattur, aukatekjugjöld, fasteignasölugjöld, leyfisbréfagjöld, skipagjöld, alþingistollur og áfengistollur. Jarðabókarsjóður varð fyrir miklum tekjumissi, þegar sala konungsjarða hófst, en féð rann ekki til hans heldur í danska ríkissjóðinn.

Úr Jarðabókarsjóði voru greidd laun embættismanna og eftirlaun, kostnaður nokkur vegna heilbrigðismála og ýmsir styrkir.

Skil milli Jarðabókarsjóðs og ríkissjóðs voru að ýmsu leyti óljós vegna mikilla millifærslna, en ýmsar greiðslur voru lagðar í Jarðabókarsjóðinn og greiddar úr úr honum fyrir aðra, og af því risu m.a. miklar deilur um fjárhagsskipti Danmerkur og Íslands.

Með stöðulögunum árið 1871 varð Jarðabókarsjóður sjálfstæður í stað þess að vera undirdeild danska ríkissjóðsins og varð þá að landssjóði Íslands. 1Lovsamling for Island XXI, bls. 82–84. Millifærslur héldust þó áfram.

Dómsmálasjóður var sameinaður Jarðabókarsjóði árið 1873 og hlutverk hans yfirtekið. Sama var gert við Læknasjóð árið 1876.

Eins og áður sagði voru ný skattalög samþykkt árið 1877 og nýir skattar komu til sögunnar. 2Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 88–111. Einnig var farið að leggja á ýmsa tolla. Samfara skattalögunum var ákveðið, að sýslumenn hættu að taka sýslur á leigu og yrðu þess í stað launþegar.

Reikningsár Jarðabókarsjóðsreikninga var framan af miðað við Jónsmessu, 24. júní (St. Hans dag). Árið 1737 var tekið að miða við almanaksár, en á árinu 1788 hófst reikningsárið með ágústbyrjun. Enn varð breyting árið 1850 og farið að miða við 1. apríl. 3Lovsamling for Island XIV, bls. 422–430. Samfara því urðu nokkrar breytingar á starfi landfógeta, m.a. varðandi eftirlit með reikningum og skilum sýslumanna og uppsetningu Jarðabókarsjóðsreikninga. Raunar var þó sérstakur reikningur haldinn fyrir tímabilið apríl – júní 1852, en Vilhjálmur Finsen tók við landfógetaembættinu þá um sumarið. Næsta breyting var gerð árið 1873, þá endaði Jarðabókarsjóðsreikningurinn 31. desember og fylgdi eftir það almanaksárinu.

Síðasti landfógetinn, Árni Thorsteinson, lét af embætti 1. október 1904 og sérstök deild í Landsbankanum tók við störfum hans, gjaldkeri landssjóðs/landsféhirðir. Þá urðu Jarðabókarsjóðsreikningar í raun úr sögunni.

Notkun Jarðabókarsjóðsreikninga

Jarðabókarsjóðsreikningar og fylgiskjöl þeirra eru varðveitt í þremur skjalasöfnum: Skjalasafni landfógeta, skjalasafni rentukammers og skjalasafni umboðslegrar endurskoðunar. Jarðabókarsjóðsreikningar í skjalasafni landfógeta eru ekki heppilegir til notkunar. Fylgiskjölin í skjalasafni landfógeta eru í rauninni aukaeintök eða afrit, sem víða vantar í. Því er best að nota hina endurskoðuðu reikninga, sem eru í skjalasafni rentukammers og síðar skjalasafni umboðslegrar endurskoðunar.

Heimildir

  • Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 235–236.
  • Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904. Þjóðskjalasafn Íslands. Reykjavík 1986, bls. 8, 54–56).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island XXI, bls. 82–84.
2 Stjórnartíðindi 1877 A, bls. 88–111.
3 Lovsamling for Island XIV, bls. 422–430.